18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í C-deild Alþingistíðinda. (1010)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ráðherrann (H. H.):

Að eins örfá orð viðvíkjandi einni br.till. nefndarinnar. Hún fer fram á það, að fjárveitingin til þess að semja spjaldskrá yfir bækur Landsbókasafnsins verði feld burt. Eg hefi átt tal um þetta við landsbókavörðinn og hann hefir tjáð mér, að engan veginn mætti það ske, að hætt verði við þetta verk. Hann hefir tjáð mér, að nú sé einmitt komið út að íslenzku bókunum, þar sem skráin verði mest notuð. Þeim peningum, sem varið hefir verið til þessa, er því sama sem kastað í sjóinn, ef hendinni er kipt að sér nú. Eg vona — og veit — að það að halda fjárveitingunni til þessa starfs, komi ekki í neinn bága við fjárveitinguna til hr. Jóns Ólafssonar, sem eg einnig er hlyntur. Það hlýtur að vera misskilningur hjá hv. deild, að enginn annar maður en hann sé hæfur til þessa starfa. Það getur hver meðal-mentaður maður lært að gera, ekki sízt þar sem hann hefir byrjun hr. Jóns Ólafssonar sér til fyrirmyndar.