18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í C-deild Alþingistíðinda. (1016)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það eru ekki nema 2 eða 3 atriði, sem eg ætla að tala um. Fyrst er það sem margir hafa talað um, styrkurinn til skáldanna. Það hefir verið sagt fyrir löngu, að vér mennirnir lifðum ekki á einu sama brauði, heldur á sérhverju því orði, sem framgengur af guðs munni. En þau orð hygg eg nú að sé ekki eingöngu að skilja eins og vant er að skilja þau — í biblíunni. Hún er að eins góð bók, en viðar er guðs orð, en í henni; eg hygg rétt að kalla svo hvert það orð, sem lifir gegnum aldirnar til gagns og blessunar fyrir þá þjóð, sem það hefir verið sagt hjá, og aðrar. Það er eins og eitt skáldið hefir sjálft sagt:

»Guð er sá sem talar skáldsins raust,

hvort sem hann vill oss gleðja eða græta«

Það sem vér lifum á, fyrir utan brauðið, er alt gott sálarfóður, en til þess tel eg alt, sem ódauðlegt er í bókmentununum, og þá einkum í skáldskap.

Allir viljum vér vera sjálfstæð þjóð, og erum samdóma um takmarkið, þótt fiokkana greini á stundum um leiðina að því. En það sem styður oss mest til sjálfstæðis, veitir oss sterkasta réttinn og sterkustu löngunina til þess, er það, að vér eigum sérstaka tungu og bókmentir, fornar og nýjar, sem eru og eiga að verða einn liður í heimsmenningunni. Getum vér ekkert til heimsmenningarinnar lagt, þá eigum vér lítinn rétt á oss sem sérstök og sjálfstæð þjóð. Skáldin okkar hafa verið lítt kunn út um heiminn, en þau eru nú að verða það. Eg vil minna menn á það, að eg held að enginn efi sé á því, að Norðmenn hafi fyrat orðið kunnir umheiminum svo heitið gæti sem sérstök þjóð, af því, hvílíka skáldsnillinga þeir hafa átt, og þá hefðu þeir tæplega átt, ef þeir hefðu ekki tímt að styrkja þá. Eg minnist þess, að hafa lesið ferðasögu í ensku tímariti, eftir stórmerkan enskan stjórnmálamann og fræðimann, þar sem hann segir frá viðtökum, sem hann fékk á einum stað í Indlandi. Þar hafði prinz nokkur boðið honum heim, og lýsir hann ýmsu, sem fyrir augun bar. Var þar margt með Norðurálfusniði, en fleira þó að hætti innlendra manna af þarlendu kyni, að honum þótti, og var hann að velta því fyrir sér, hvort þetta mætti kallast mentuð þjóð eða ómentuð. En um kvöldið þegar prinzinn var að mæla fyrir fulli yfir borðum, brá hann fyrir sig tilvitnun úr skáldritum Hinriks Ibsens. Eftir það kvaðst hann ekki hafa verið í vafa, því að sú þjóð, sem þekkir Henrik Ibsen og ritverk hans, hún heyrir til mentaþjóðanna. Á því er ekki vafi. Ef sá tími kæmi nú, að vér heyrðum sagt við heiminn annað eins og þetta: »Þessi þjóð er mentuð, hún kannast við þennan Íslending«, ætli vér mundum þá iðrast þess, þótt vér hefðum veitt þeim Íslendingi dálítinn styrk til að lifa ?

Það var sagt hér af einum háttv. þm. (E. J.) að fyrst yrðu menn að hafa matinn ofan í sig, áður en þeir færu að ala skáld og listamenn, en rit skáldanna framleiddu ekki mat. Það var rétt sem hann sagði, að skáldin hafa aldrei ort mat, en eins og eg sagði áðan: maðurinn lifir ekki af einu saman brauði. Og þegar við verjum árlega hundruðum þúsunda til þess að efla matarframleiðsluna í landinu, þá er það ekki of mikið þó að við verjum 20–25 þúsundum til að afla okkur sálarfæðu. Dálitla rækt verðum við þó að leggja við sálirnar í okkur; því að hvað sem háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) liður, þá hafa þó flestir af okkur sál. Það sem veitt er til bókmenta og lista, gengur til sálarinnar. Eg játa, að það stendur talsvert ólíkt af sér um sagnaskáld og ljóðskáld. Sagnaskáldin eru venjulega miklu frjósamari en ljóðskáldin. Það liggur í forminu. Eg veit ekki til, að með nokkurri þjóð komist ljóðskáldin í nokkurn samjöfnuð við sagnskáldin að þessu leyti. Formið leggur svo miklar hömlur á þau. og þó á enga þjóð eina og Íslendinga. Og þess verða veslings ljóðskáldin að gjalda, þegar talað er um að þau afkasti litlu, því að sumum hættir svo við að meta það í pundum eða álnum, sem frá skáldunum kemur. En eg verð að segja, og eg býzt við, að við játum það allir — að minsta kosti þegar við erum ekki að tala við kjósendur á þingmálafundum, eða á þingmannabekkjunum fyrir kjósendur til að lesa — að skáldskapur verður ekki metinn í pundum og vættum né mældur í stikum: Verk Jónasar Hallgrímssonar eru ekki mikil að vöxtunum, en eg býst við því að nokkrum sinnum mætti bjóða okkur þunga þeirra í gulli til þess að við vildum vinna til, að þau hyrfu úr bókmentum okkar.

Þá er það eitt, sem á sérstaklega við um sagnaskáldin íslenzku. Þau hafa ekki fengið að njóta verka sinna, fyrir ófyrirgefanlegt ranglæti löggjafarvaldsins. Það hefir áður verið farið fram á það hér á þings, að 600 kr. væru veittar á ári til Bernarsambandsins, til þess að íslenzkir rithöfundar gætu notið þeirrar verndar, sem aðrar þjóðir hafa komið sér saman um, að rithöfundar þeirra skyldu njóta hverir hjá annari, eða með öðrum orðum til þess, að verkum þeirra skyldi ekki verða stolið öðrum til hagnaðar. Þetta hefir verið felt, og þó að eg sé ósamdóma háttv. vini mínum og sessunaut, þm. Dal. (B. J.) um marga hluti þó hygg eg, að hann hafi fátt lakara gert, en er hann studdi að því, að þetta hefir ekki náð fram að ganga, — hann, sem annars er svo mikill vinur lista og bókmenta. Það þýðir ekki annað, en að við fórnum okkar eigin rithöfundum til þess að geta stolið frá öðrum þjóðum, með því að þýða rit erlendra höfunda endurgjaldslaust. Við segjum: heimurinn má stela frá höfundum okkar, ef við megum stela frá annara þjóða höfundum í staðinn. Þetta er sagt alment. En til þess að mönnum skiljist betur, hvað þetta hefir að þýða, skal eg nefna dæmi. Eins og háttv. ráðherra gat um, hefir Einar Hjörleifsson skrifað sögu, sem Þjóðverji nokkur vildi gefa út á þýzku. Hann gat stolið henni, því að löggjafarvaldið hafði ekkert gert til þess að hindra það, en hann var þó svo skikkanlegur að hann gaf höfundinum 100–200 kr. til þess að geta sagt, að bókin væri þýdd með leyfi. En hvað gerir hann svo? Hann selur þýzku dagblaði réttinn til að birta þýðinguna fyrst í blaðinu, áður en hún komi út í bókformi, og fyrir þetta fær hann 4000 mörk, en höfundurinn ekki neitt. Þessu hefir Alþingi hjálpað til að stela af Einari Hjörleifssyni með því að neita honum og öðrum íslenzkum rithöfundurn um þessa vernd, sem svo lítið kostar, og aðrar mentaðar þjóðir nú veita rithöfundum sínum. Eg man eftir því, að fyrir mörgum árum bar eg fram tillögu um, að Gesti heitnum Pálssyni yrði veittur skáldastyrkur. Tillagan var drepin, því að á þeim árum mátti skáldastyrkur ekki heyrast nefndur á nafn. Sögur hans hafa verið þýddar á margar tungur, og þeim hefir öllum verið stolið Hann fékk ekki einn eyri fyrir neina þeirra. Er þetta réttlátt? Og á sama tíma segja menn: Nú hættum við að launa skáldum okkar! Eg treysti svo mikið réttiætistilfinningu manna, að eg vona að þeir greiði atkvæði með till. hæstv. ráðherra við 15. gr. um að veita hvort árið 600 kr. til Bernar-sambandsins, sem er nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að íslenzkir rithöfundar fái að njóta þeirrar verndar, er útlendar þjóðir njóta hver hjá annari. Og eg vona að menn finni ennfremur hvöt hjá sér til að bæta skáldunum að einhverju leyti þann skaða, sem Alþingi hefir þegar bakað þeim.

Það má segja, að ljóðskáldin afkasta ekki miklu. Þau yrkja ekki eftir skipun og ekki mörg pund á ári. En þau geta verið nýt og góð fyrir því. Eg skal nefna t. d. Þorstein Erlingsson. Hann hefir í ár gefið út lítið hefti, en svo ljómandi fallegt, að þar er hver blaðsíðan annari betri: Þetta er fyrra heftið af ljóðaflokk; sem heitir »Eiðurinn«. Síðara heftið kemur út í vetur. Það er langt síðan að hann byrjaði á þessu verki. Hann mun einhverntíma hafa birt kafla úr því í tímariti, að eg held í Eimreiðinni.

Af þessu má sjá, að hann hefir ekki verið iðjulaus, hann hefir setið yfir að fága kvæðin, enda er hann svo vandvirkur, að hann er lengi að fága. En því betur sem gimsteinninn er fágaður, því dýrmætari er hann. Hann situr að minsta kosti yfir þremur stórverkum öðrum. Sum eru nærri fullgerð, en hann situr yfir að fága þau: Eitt er »Fjalla-Eyvindur». Hann hefir lesið mér kafla úr honum, og eg veit, að ef háttv. þm. hefðu heyrt þá, þá vildu þeir ekki missa af því verki fyrir mikið fé. Við ættum ekki að sjá eftir að honum gefist kostur á að fága það þangað til honum sjálfum líkar.

Það var rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að við eigum að gera mun á þeim skáldum, sem þjóðin vill styðja til þess, að þau gefi sig að öllu leyti við skáldskap, og óðrum sem rétt er að styrkja um stundarsakir fyrir eitthvert sérstakt verk.

Hér er aðallega að ræða um skáld, sem ástæða er til að styrkja áfram.

Þetta, sem eg hefi nú sagt um skáldskapinn, á við allar aðrar tegundir listarinnar, hverju nafni sem þær nefnast. Eg þarf ekki að tala um hvert einstakt atriði og hef mér nægja að benda til þessara almennu hugleiðinga.

Af framkomnum tillögum öðrum, ætla eg að minnast á eina frá háttv. 2. þm. Rvk. (J.J.), um Styrk til þess að skrásetja handrit Landsbókasafnsins: Þetta er mikið nauðsynjaverk; sem þörf er á að styrkja, hver sem upphæðin verður.

Viðvíkjandi nokkrum orðum, sem hv. 2: þingm. Húnv. (Tr. B.) mælti í minn garð, ætla eg einungis að segja það, að reikningur hans var allur rangur, sem sjálfsagt hefir komið af skorti á upplýsingum.