18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í C-deild Alþingistíðinda. (1018)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Halldór Steinsson:

Eg er svo heppinn, að eg á enga breytingartillögu við þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu Eg ætla samt sem áður að minnast á eina breytingartillögu, sem talsvert hefir verið rædd áður. Hún er á þgskj. 866, um hækkun styrksins til skólans á Núpi í Dýrafirði. Eg sé ekki betur, en að öll sanngirni mæli með að taka þessa tillögu til greina. Ef litið er á skýrsluna frá þessum skóla, og litið er á hana með réttsýni, án þess að einblína á einstakar ræður, og ef tekið er tillit til sögusagna kunnugra manna, sem engin ástæða er til að efast um, þá verður það augljóst hverjum manni, að þessi skóli er í fremstu röð unglingaskóla hér á landi: Það hefir verið fært sem ástæða móti þessari styrkhækkun, að fleiri skólar mundu koma á eftir og heimta ið sama. Eg sé ekki, að það væri svo ægilegt, þó að fleiri skólar kæmu á eftir, ef þeir gætu sannað, að þeir hefðu jafn-góð skilyrði og Núpsskólinn, þá væri sannarlega ekki horfandi í styrkinn til þeirra. Yfir höfuð er eg þeirrar skoðunar, að unglingaskólarnir hafi gert mikið gagn hér á landi og að styrkurinn til þeirra hafi borið betri ávöxt en styrkur til margra annara skóla hér á landi. Eg vil mæla ið bezta með því, að styrkurinn verði veittur, og mér er því ljúfara að mæla með því, að eg þekki manninn, sem í hlut á (séra Sigtrygg Guðlaugsson) og veit að hann er valinkunnur sæmdarmaður og er sérstaklega hneigður fyrir þetta starf. Þessi skóli hefir verið borinn saman við Hvíárbakkaskólann. Mér hefir heyrst, að menn vilji telja þann skóla hæstan allra unglingaskóla á landinu. Það er líklega fyrir nafnið — lýðháskóli. En það nær ekki nokkurri átt. Eg get ekki betur séð af skýrslu þess skóla, en að sömu námsgreinar séu kendar þar og við Núpaskólann. Eg get því ekki séð, að Hvítárbakkaskólinn verðskuldi nafnið »lýðháskóli« fremur en margir aðrir unglingaskólar hér á landi. Sannleikurinn er sá, að það verðskuldar enginn þeirra það nafn.

Þá eru bitlingarnir, sem mest hefir verið skrafað um á. þessu og undaförnum þingum. Eg get verið samdóma þeim mönnum, sem ekki vilja kalla allar þessar fjárveitingar bitlinga, því að margar af þeim eru eins nauðsynlegar og sumar aðrar fjárveitingar, sem veittar eru til atvinnuveganna á sjó og landi. Hitt er annað mál, hvort stefna þingsins hefir ávalt verið sem réttmætust í þessu máli. Þessar fjárveitingar hafa oft verið veittar af handahófi, maklegum sem ómaklegum.

Mér heyrðist á ræðu hæstv. ráðherra og á ræðu háttv. 1. þm, G. K. (B. Kr.), að þeir álitu að ekki væri hægt að taka styrkinn af skáldunum, af því að það hefði upphaflega vakað fyrir þinginu að hann yrði endurnýjaður á hverjum fjárlögum. Þetta finst mér ekki geta komið til — nokkurra mála, það sýnir meðal annars það, að styrkurinn hefir alt af verið hoppandi, það er að segja, hefir ekki verið inn sami á hverju einstöku fjárhagstímabili. (Björn Kristjánsson: Hann hefir farið hækkandi). Já, hann hefir farið hækkandi og lækkandi, eftir því hve miklum vinsældum hvert skáldið hefir átt að fagna hjá þinginu í það og það skiftið. Eg er í alls engum efa um, að styrkurinn á ekki að skoðast sem föst áframhaldandi fjárveiting. Eins og það er sjálfsagt og nauðsynlegt að styrkja þá sem eitthvað leggja af mörkum til lista og bókmenta, eins er það óhæfa að ala þá á landssjóðsfé, sem ekkert láta eftir sig liggja.

Þá ætla eg að minnast á breyt.till. háttv. nefndar,. um að lækka styrkinn til Helga Jónssonar grasafræðings og Helga Péturss jarðfræðings. Eg get ekki fallist á þessa lækkun. Þetta eru einu sérfræðingarnir, sem við eigum í þessum fræðum, grasafræði og jarðfræði. Eg álít, að við megum vera mjög hreyknir af þeim, og að það sé vansæmd fyrir þing og þjóð að ýta þeim frá sér með því að veita þeim ekki það, sem þeir þurfa til að lifa af. Það vita allir, að þessar vísindagreinir geta ekki gefið neinum manni brauð hér á landi. Auðvitað geta þessir menn gefið út vísindaleg rit — og það hafa þeir gert — en það er lítill markaður fyrir þess háttar rit hér á landi, og fyrir bláfátæka menn er það ókleift að koma þeim á heimamarkaðinn. Annaðhvort eigum við að svifta þessa menn öllum . styrk eða þá veita þeim svo mikið, að þeir geti lifað af því, og þá má það sannarlega ekki vera minna en 2000 kr. árlega. Að fara að lækka þennan styrk ofan í 1200 kr. er ekki annað en að smámurka úr þeim lífið. Hitt er annað mál, ef þingið kemst að þeirri niðurstöðu, að starf þeirra sé hvorki til gagns né sæmdar fyrir þjóðina. Þá er sjálfsagt að taka af þeim allan styrkinn.

Klukkan var þá, orðin 8 síðdegis og umr. um þennan kafia enn eigi lokið. Gaf forseti þá fundarhlé til kl. 91/4 síðd.

Kl. 91/4 var umræðum haldið áfram. Forseti skýrði frá, að útbýtt hefði verið á fundinum:

1. Br.till. við br.till. á þgskj. 384 við fjárlagafrv. 1914;15 (462).

2. Br.till. við frv. til fjárlaga á þgskj. 465, 467.

3. Br.till. við frv. til laga um ábyrgðarfélög. Frá nefndinni (466).

4. Br.till. við br.till. á þgskj. 350. Frá fjárlaganefnd (471).

5. Nefndaráliti um stjórnarskrármálið.

6. Alþingistíðindum 1913 A. 9. hefti.

Forseti skýrði enn fremur frá, að samkv. bréfi dags. 18. Ágúst 1913 frá forseta efri deildar hefðu eftirnefnd frv. 1. Frumv. til laga um stofnun Landhelgissjóðs Íslands,

2. Frumv. til laga um breyting á lögum nr. 26, 11. Júlí 1911, um skoðun á síld, verið samþykt þar í deildinni og verið afgreidd til ráðherra sem lög fra Alþingi.