19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í C-deild Alþingistíðinda. (1031)

28. mál, ábyrgðarfélög

Framsögum. (Ólafur Briem):

Við frumv. þetta eru 2. breyt.till., báðar frá nefndinni. Önnur er á þgskj. 466, að aftan við 1. lið 2. gr. bætist: Að því er til sjóvátrygginga kemur, skal það þó vera á valdi þess, sem ábyrgðar leitar, hvort hann vill fá ábyrgðarskírteini á íslenzku eða á útlendu máli. Þessi breyt.till. stafar af því, að það var samþykt hér við 2. umræðu, að slík skírteini skyldu vera á íslenzku. En nefndin ætlast svo til, að hér sé að eins verið að setja almenna reglu, en ekki beint valdboð, og séu menn sjálfráðir, ef þeim þykir annað betur henta. Og þetta getur haft þýðingu, ef framvísa þyrfti slíkum skírteinum erlendis. Nefndin sér ekkert athugavert við það, þótt þetta yrði samþykt, og væntir því að svo verði gert.

Hin brtill., á þgskj. 455, er ekki annað en lögun á tilvitnun, af því að 3. gr. var feld burtu við 2. umr. Annars hefi eg ekkert við frumv. að athuga.