19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í C-deild Alþingistíðinda. (1035)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Matthías Ólafsson:

Eg ætla að eins að segja nokkur orð viðvíkjandi viðaukatillögu sem eg á á þgskj. 343, og fer fram á., að Vestur-Ísafjarðarsýslu verði veitt 7000 kr. lán úr viðlagasjóði til þess að leggja talsima til Súgandafjarðar. Eins og kunnugt er, var Súgandafjörður settur í 3. flokk, og því fékst ekki framgengt, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir, að hann væri færður í 2. flokk. Eg tók það fram hér í deildinni í fyrra, hve mikil nauðsyn væri á þessum síma, og eg get sparað mér að endurtaka það nú, þar sem hér eiga sæti flestir sömu mennirnir og þá voru hér. Eg tók það fram þá, að nauðsynin væri brýn, og síðan hefir ekkert breyzt í því efni, nema þá að þörfin hafi orðið enn meir knýjandi.

Í vondu veðrunum í vetur var símavöntunin mjög tilfinnanleg, og þar sem það þótti auðsætt, að enn þyrfti að bíða lengi eftir simanum, sáu menn, að eina ráðið var að reyna að kosta hann sjálfir.

En þar sem ekki Var nægilegt fé fyrir höndum, varð það úr, að leita fyrst láns hjá viðlagasjóði; enda verður að álita, að honum sé skyldast að hjálpa þegar þannig atendur á. Sýslunefndin samþykti á fundi í vetur að leggja 1000 kr. til fyrirtækisins og hreppanefndin hefir safnað öðrum 1000 kr. Það er um 7000 kr., sem vantar, og hefir sýslan tekið ábyrgð á þeirri upphæð, bæði vöxtum og afborgunum. Eg get ekki annað en óskað að háttv. deild taki þessum málaleitunum vel. Háttv. fjárlaganefnd hefir enga afstöðu tekið til hennar og háttv. framaögum. (P. J.) er henni mikið fremur hlyntur. Vona eg að fleiri sjái, hversu mikið nauðsynjamál þetta er, og ljái því fylgi sitt.

Um leið skal eg minnast á aðrar br.till., sem fram hafa komið, t. d. brt. háttv. þm. N.-ÍSf. (Sk. Th.) á þgskj. 384, um styrk til framhalds brimbrjótinum í Bolungarvík. Eg verð að segja, að það er mikið nauðsynjamál, að hægt verði að halda áfram með þennan brimbrjót, því að án þess getur þetta sem komið er ekki orðið að neinu verulegu gagni. Þó hefir það þegar orðið að svo miklu gagni, að það hefir sýnt, að brimbrjóturinn er einhlítt ráð til að verjast briminu, ef hann næði því að verða fullgerður. Mér liggur við að segja, að það sé sorglegt ef þessari fjárbeiðni verður neitað. Eg, fyrir mitt leyti, greiði hiklaust atkvæði með henni. Eg hefi kynt mér málið síðan í fyrra, verið í Bolungarvík nokkurn tíma, séð hvernig öllu er háttað, og átt tal við marga menn um þetta. Eru allir á einu máli um, að þetta sé eitthvert það nauðsynlegasta fyrirtæki sem hægt sé að hugsa sér þar á staðnum, og til ómetanlega hagnaðar.

Sami háttv. þm. (Sk. Th.) á aðra br.till. á þgskj. 386, þar sem farið er fram á, að Hólahreppi verði veitt alt að 20 þús. kr. lán úr viðlagasjóði til sama fyrirtækis. Eg get sagt sama um það, og gefið mín beztu meðmæli með því. því fyr sem þessu verki er aflokið, því fyr verður komið í veg fyrir það fjártjón og þau slys, sem þarna verða á ári hverju. Vildi eg óska, að háttv. deild liti vægum augum á málið, og sinti þessu hvorutveggja, ef nokkur tök væru á — því. Sökum þess hve eg er kunnugur öllum málavöxtum og þar af leiðandi sannfærður um réttlæti þess sem hér er farið fram á, sé eg mér ekki annað fært, en að greiða atkvæði með báðum þessum tillögum.