19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í C-deild Alþingistíðinda. (1037)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Sigurðsson:

Það vill svo til að eg á 3 breytingatillögur við þennan síðasta kafla fjárlaganna. Ekki fara samt þessar breyt.till. fram á styrk til einstakra manna, heldur til landbúnaðarins: Sú fyrsta er viðaukatillaga á þgskj. 418, 144 á atkvæðaskránni. Hún fer fram á, að veittar séu 1000 kr. til að byggja mjólkurskála á Hvítárvöllum. Fjárlaganefndin — sá sér ekki fært beinlínis að mæla með þessari tillögu. En búnaðarþingið, sem haldið var í Sumar, lagði til að málinu væri vísað til Alþingis og því ber eg það hér fram.

Get eg hugsað að sú mótbára liggi á takteinum hjá mönnum: Hvers vegna lagði búnaðarfélagið ekki þetta fé úr sinum eigin sjóði? En til þess er því að svara, að búnaðarþingið hefir ráðstafað öllum tekjum félagsins, þannig að það á ekkert fé óráðstafað til að byggja skálann fyrir. Auk þess er á það að líta, að þó að mjólkurskólinn sé undir umsjón félagsins, getur hann samt að mörgu leyti talist landsskóli. Til skýringar skal eg taka það fram, að skólinn hefir starfað í mörg ár og á Búnaðarfélagið húsið og lóðina., sem skólinn stendur á.

Eg get líka búist við þeirri mótbáru, að ekki sé til neins að halda skólanum við, því rjómabúunum muni ekki fjölga. Nú starfa rúm 30 smjörbú hér á landi og er nokkuð til í því, að ekki séu líkindi til að þeim muni fjölga í bráð. En því er svo farið með bústýrurnar á smjörbúunum, að þær geta eins og annað fólk dáið, og ef til vill gifst, svo þær verði að hætta forstöðunni, og getur þá eðlilega farið svo, að hörgull verði á þeim. Það er því nauðsynlegt að halda skólanum við til að koma upp rjómabústýrum í stað þeirra, sem frá kunna að fara, enda er ekki loku fyrir það skotið, að ný rjómabú risi upp.

Skal eg svo ekki fjölyrða um þetta, en skal að eins geta þess, að hefði skólinn verið í Reykjavík, mundi ekki hafa staðið á fjárveitingunni.

Þá hefi eg aðra breytingartillögu á þgskj. 420, á atkvæðaskrá 171: Hún fer fram á, að hækka inn umrædda lið, heimild til lánveitingar til að koma á fót kornforðabúrum, úr 5000 kr. upp 10.000 kr. Búnaðarþingið í sumar samþykti áskorun til þingsins um að veita þessa sömu lánsheimild og hér er farið fram á. Er furða, að fjárlanefndin skuli ekki hafa sint þessari beiðni; hún hefir að vísu lagt til að veittar verði 5000 kr., en eg óttast að það verði of lítið. Það eru einmitt viða miklar hreyfingar í þá átt að stofna korn forðabúr, sérstaklega í Eyjafirði og Skagafirði. Þykir mér ekki ólíklegt að þau verði stofnuð á næsta ári bæði þar og ef til vill víðar. Eg get nú búist við, að menn muni segja að frumvarpið. til breytinga á forðabúrslögunum frá 1909 bæti mikið úr skák í þessu efni, og þau gera það að nokkuru leyti. En þó þau séu nokkur bót í máli, eru þau samt ekki nægileg. Mér hefir aldrei dottið í hug að kornforðabúr yrðu stofnuð alment um alt land. En þar sem hætta er á, að ís loki höfnum á vetrum, eru þau nauðsynleg. Í þessum útkjálkasveitum eiga menn oft svo erfitt með að ná til sin korni eða fóðurbæti, jafnvel þótt hann sé að fá í helztu kauptúnum í grend við þær, vegna snjóþyngsla og ófærðar. Kornforðabúr heima í sveitunum er því ið eina nauðsynlega, er bætt getur úr ástandinu, en til þess að koma þeim á fót þarf lán úr landssjóði.

Þriðja breytingatillagan mín á þgskj. 419 fer fram á, að Árnessýslu sé heimilað lán úr viðlagasjóði til áveitu úr Þjórsá á Skeiðin, alt að 30 þús. kr.

Eg skal geta þess, að í júlímánuði í sumar hefir farið fram undirbúningsmæling á þessu svæði. Gerði hana Sigurður Thoroddsen, en af því hann þurfti að fara til Vestmannaeyja til að gera á þar mælingar, hafði hann ekki tíma til að gera áætlun um kostnaðinn, en hann gat þess lauslega við mig, að hann mundi verða um eða yfir 60 þús. kr. Í beiðni, þeirri sem liggur frammi á lestrarsalnum, er farið fram á að landsstjórninni verði heimilað í þessu skyni að lána 60 þús. kr. En eg hefi ekki farið fram á nema helminginn.

Fjárlaganefndin hafði það helzt á móti beiðninni, að það vantaði áætlun um koatnaðinn. Nú hefi eg skýrt hvernig á því stendur. En annnars man eg ekki til þess, þegar verið var að ræða um pósthúsið í Reykjavík, að spurt væri um neina áætlun. Það hafði ekki einu sinni verið ákveðið; hvort byggja ætti nýtt hús eða bæta við ið gamla. Það þótti þá ekki neitt athugavert að byggja á óvissunni og var fjárveitingin til pósthússbyggingarinnar samþykt með öllum atkv. gegn einu.

Vona eg að þessi breytingartillaga mín finni náð fyrir augum háttv. deildarmanna, þótt fjárlaganefndinni þóknaðist ekki að taka það upp á sína arma.

Áður en eg sezt, vil eg með fáum orðum minnast á það, sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði um styrkbeiðni Jakobs Hagalínssonar. Það hefir komið fram beiðni frá þessum manni um 300 kr. styrk og upplýsingar um, að hann hefir átt 21 barn með konu sinni. Það er að vísu satt að fjárlaganefndin treysti sér ekki að mæla með þessari fjárveitingu, en ástæðan til þess var ekki sú, að hún ekki áliti hvern Þann mann alls góðs maklegan, sem fjölgaði mannkyninu með konu sinni. En það vantar allar upplýsingar um þennan mann, og börnin, sem hann hefir eignast. En það er ekki minna um vert að ala börnin vel upp en geta þau. Af börnum þessa manns, eru ekki á lífi nema rúmur helmingur; hin dóu flest í æsku Og þó maður sé ekki herra lifa og dauða, er það samt viðurkent af læknum að uppeldið hafi mikil áhrif á heilan barnanna og langlífi, og breytni þeirra og hegðun síðarmeir. Eins og það er lofsvert að geta mörg börn, er hitt ekki síður um vert að veita þeim gott uppeldi. Þegar rætt er um að veita mönnum verðlaun fyrir barneignir, ber ekki sízt að taka tillit til hins, hvert uppeldi börnin hafa fengið.