19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í C-deild Alþingistíðinda. (1040)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ráðherrann (H. H.):

Eg á að eins eina breyt.till. á þgskj. 472. Á fjáraukalögunum er veitt upphæð til þess að styðja 3. dýralæknisnemann til náms ytra, í viðbót við þá tvo, sem styrk hafa á fjárlögunum, og er ætlast til, að einn þessara þriggja taki við af þeim sem lengst er kominn, þegar hann hefir lokið námi, en hann verður ekki búinn fyr en í júlí næsta ár. Fjáraukalagaveitingin nær að eins til ársloka nú, svo að vantar styrk handa þessum þriðja manni fyrri hluta ársins 1914, og þá hefi eg leyft mér að koma með þessa litlu viðaukatillögu, sem eg tel afleiðing af fjáraukalögum.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) var að tala um tillögu sína um 4000 kr. upphæð til að ryðja vör við Ingólfshöfða og gera veg upp höfðann. Eg vildi láta mitt álit í ljósi um það mál. Eg álít, að svo framarlega, sem málið er ekki undirbúið að öðru leyti, en að rannsóknum Árna Zakaríassonar og »Fálkans«, þá sé það sama sem óundirbúið.

Þessi áætlun Árna er ekki annað en ausleg getgáta. Mér er dálítið kunnugt um þennan umrædda stað, því að eg hefi sjálfur farið þar upp að á bát frá Fálkanum, þegar hann var að gera athuganir sínar. Vegurinn, sem um er talað að byggja, er að eins snarbratt einstigi, sem að eins færir menn gætu klifrað. En til þess að vör eða bátalending verði gerð nokkurn vegin brúkandi þar fyrir neðan, — sé það á annað borð unt — þarf að sprengja þar stóra kletta í burtu úr sjónum fyrir framan. Sú sprenging mundi sennilega kosta svo miklu meira en þær 4000 kr. sem fram á er farið hér, að ef hreppurinn ætti að leggja til alt það sem ávantar, þá mundi sumum þykja fara að grynnast í pyngjunni. Það má ekki taka orð mín svo, að eg vilji leggja á móti að þetta verk sé rannsakað eða undirbúið. Það væri æskilegt ef hægt væri að framkvæma það, svo að gagni yrði. Brúkleg lending og slarkfær sjógata á þessum stað gæti gert feikna-mikið gagn. En að veita þessa upphæð svona út í loftið til framkvæmdar óathuguðu verki er ekki til neins. Eg álít því að háttv. þm. ætti að koma með breyt.till. um að verja hæfilegri upphæð til þess að rannsaka staðinn og fá fulla vissu um, hvort verkið muni framkvæmanlegt og þá fyrir hve mikið fé.

Þótt það hafi ef til vill lítið að þýða, þá vildi eg samt minnaat nokkrum orðum á lánin, sem farið er fram á hér í fjárlögunum, að veitt verði úr viðlagasjóði.

Það hefir þegar verið farið fram á í ýmsum viðaukatillögum, að 126 þús. kr. verði lánaðar út úr viðlagasjóði, auk þess sem stjórnin fer fram á að verja til útlána. En það er langt frá því að féð, sem fyrir hendi verður í viðlagasjóði, hrökkvi til fyrir tekjuhallanum, sem fyrirsjáanlegur er, svo að ekki verður að öllum líkindum einn eyrir til þess að lána út.

Eg veit að mér verður svarað því, að þetta sé að eins heimild fyrir stjórnina, sem hún þurfi ekki að nota fremur en hún vilji. En eg veit líka að þeir sem lánsheimildin er stíluð til á fjárlögum búast við að þeir fái lánin og líta á það sem hrein og bein rangindi eða svik af stjórninni, ef þeir ekki fá þau. Og mennirnir hafa töluvert til síns máls, því að hvers vegna er þingið að leika sér að því að veita heimildir, er það veit að þær geta ekki orðið notaðar.

Alstaðar í þessum heimildum er leyft að lána gegn 4% rentu. Þau lán, sem landssjóður getur nú fengið í heiminum kosta öll miklu meira en þetta. Hvergi er hægt að fá lán handa landssjóði fyrir minna en 41/2% eða 5%, auk þess sem lánin vafalaust ekki mundu fást án stórra affalla, ef til vill alt að 10%. Þessi aðferð, að lána þannig út fé landsins, er því ekki hót annað en styrkveiting eða gjöf til þeirra sem lánin fá, og það er von að menn vilji ekki verða af slíkum bitum, og sæki fast að ná þeim. Sumt af því sem farið er fram á veita lán til, er þó þess eðlis, að ekki sýnist alveg bráðnauðsynlegt að veita til þess fé úr landssjóði. Eg get t. d. ekki séð þörfina á að lána fé úr landssjóði til að byggja hús á Siglufirði. Bæði þetta og fleiri lánsbeiðnirnar eru þess eðlis, að ekki virðist nein frágangssök fyrir beiðendurnar að sæta venjulegum lánskjörum. Eg tel það með öllu tilgangslaust að vera að bæta lánsheimildum við og legg til að þær verði allar feldar. Ef þær verða ekki feldar, þá ætti þingið þó að minsta kosti að lýsa yfir því, að ekki séu líkindi til að nokkuð verði til að lána, og því ekki líkindi til að heimildin komi að notum, til þess að valda ekki um of tálmunum og vonbrigðum.