19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í C-deild Alþingistíðinda. (1044)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Eggert Pálsson:

Eg á enga br.till. við þennan kafla fjárlaganna og ekki ætla eg mér að svara umræðum, þeim Sem orðið hafa. En fjárlaganefndin hefir tekið upp 2 br.till., sem snerta kjördæmi mitt og kjósendur, og tel eg mér því skylt að taka til mála og skýra nokkuð frá ástæðum þar að lútandi. Þessar brt. eru á þgskj. 350, 91 og 107. liður. Skal eg fyrst snúa mér að inni fyrri. Þar er farið fram á það, að veita til fyrirhleðslu fyrir Holtsá 3700 kr. f. á. Það er Holtsá undir Eyjafjöllum, sem hér er átt við. Þessi á hefir í mörg ár gert inn mesta usla undir Eyjafjöllum. Mér er persónulega kunnugt um, að öll sín búskaparár lagði prófasturinn sál. Kjartan Einarasson í Holti stórfé í að aftra skemdum á prestsetrinu. En á síðastl. ári sá hann, að sér mundi vera það ofurefli af eigin ramleik að halda ánni í skefjum, enda þótt hann nyti að fulltingis nágranna sinna eftir því sem þeim var auðið að láta í té. Var þá leitað til stjórnarráðsins, en það brást vel við og veitti til fyrirhleðslunnar 5247 kr., sem nú hefir verið leitað samþykkis þingsins á í fjáraukalögum. En þessi upphæð hefir samt ekki reynst fyllilega nægileg. Hún reyndist nóg til þess að bjarga bænum í Holti, en slægjur frá Holti og kirkjujörðum þar eru í voða. Fyrirhleðslan þarf sem sé að vera svo löng, að áin stefni beint út í Holtsós.

Til þess að sýna, hvílíka nauðsyn hér er um að ræða, skal eg leyfa mér að benda á, að landið er ágætt land, hreinn akur, má alt slá með sláttuvélum, jafnvel marga tugi hesta á dag. En ef ekki er að gert, fer alt þetta mikla og góða land í aur og verður til einskis gagns. Það má því sjá, að hér er mikið í húfi, og það því fremur sem hér er um eign landssjóðs að ræða, ekki 1 hndr., sem prívatmenn eiga, heldur ekki kirkjujarðir tilheyrandi Holtsprestakalli. Það getur því ekki með neinu móti svarað kostnaði fyrir landssjóð að spara þessa fjárveitingu og láta þar með eyðileggjast svo mikla og góða eign.

Skal eg svo ekki fara fleiri orðum um þessa br.till. Eg hefi að eins viljað skýra háttv. þingdeildarm. frá, hversu hér er ástatt. Skjöl hafa að vísu legið fyrir hér um þetta mál. en getur þó hugsast að einhverjum hafi ekki verið fullljósar þær ástæður, sem hér að lúta, með því að ekki er hægt að heimta það, að háttv. þingm. geti kynt sér öll skjöl, sem þinginu berast.

Þá er hin brt., nr. 107 á þgskj. 350, sem fer fram á það, að viðlagasjóður megi lána Rangárvallasýslu alt að 14000 kr. til að kaupa jörðina Stórólfshvol, með hjáleigum, fyrir læknissetur, og til að hafa þar sjúkraskýli. Höfuðstóll og vextir lánsins greiðist með 6% árgjaldi í 28 ár. Þessi jörð er mjög fögur og gagnrík; þar eru ekki að eins mjög góðar slægjur, heldur og mikið land, sem hugsa má að eigi fagra framtíð fyrir höndum, á eg hér við Hvolsvöll, sem nú er kallaður, en í fornöld hét Rangárvellir hinir eystri. Ef járnbraut yrði lögð þar austur, er enginn vafi á því, að þar mundi risa upp all-álitlegur bær, enda er völlurinn ið fegursta bæjarstæði, sem hægt er að hugsa sér, og öll skilyrði fyrir hendi til þess að bær geti dafnað þar; blómlegar og góðar sveitir hringinn í kring, og Eystri-Rangá þar rétt hjá, er veita mundi einum bæ vatn til neyzlu, rafmagn til lýsingar og leiða burtu allan sora. En þó þetta kunni að dragast, þá má og á annan hátt hugsa sér að gera Hvolsvöll vel arðberandi. Á ein lítil er þar fyrir ofan, er Fiská heitir; henni má veita, að vísu með nokkrum kostnaði, á völlinn og gera hann þannig gróðursælan. En hvorugt þetta hefir þó vakað fyrir sýslunefnd, er hún sótti um lánið. Meðfram hefir hún viljað ráða fram úr vandræðum, sem í sýslunni eru nú með læknissetur. Læknar þeir, sem í sýslunni hafa verið in síðari ár, hafa verið í vandræðum með bústað, því að engin góð jörð hefir verið á lausum kili. Þótt allir vilji hafa lækna, vilja menn þó ógjarnan standa upp frá búum sínum læknisins vegna. Sýslunefndin hefir því ekki séð annað ráð vænna, en að kaupa jörð til læknisseturs. Og nú vildi svo til, að sýslunefndinni var gefinn kostur á þessari miklu og góðu jörð, raunar í öðrum tilgangi, sem sé til að setja þar upp lýðháskóla, sem menn hugsuðu sér að koma þar upp, en nú er sýnt að ekkert verður úr. En sýslunefndin hefir samt sem áður hugsað sér að halda áfram með að kaupa jörðina í því breyttu augnamiði, að hafa hana fyrir læknissetur. Með þessu vinst ekki eingöngu það, að með því sé fengið víst hæli handa lækninum, heldur lítur svo út fyrir, að menn þar eystra sætti sig við læknaskipunina, ef læknirinn er á Stórólfshvoli. En á undanförnum þingum hafa legið fyrir áskoranir frá Landeyingum og Eyfellingum um stofnun nýs læknishéraðs milli Þverár og Jökulsár. Þessu munu menn falla frá, ef læknissetur yrði fastákveðið á Stórólfshvoli.

Eg get heldur ekki álitið neitt varhugavert fyrir landasjóð að veita þetta lán. Eg kannast að vísu við, að það er vel gert að veita lánið, en tel hér ekki um neitt principbrot að ræða, þótt þetta lán væri veitt, því landssjóður veitir þeim lán, sem kaupa kirkjujarðir og þjóðjarðir, og hví skyldi þá ekki vera eins réttmætt að veita sýslunefnd lán til að kaupa jörð, sem jafn brýn þörf er á að sýslan geti eignast eins og hér á sér stað.

Það er óskiljanlegt, að einstaklingum sé gert hærra undir höfði en sýslunefndum, ekki sízt þar sem hér er jafnframt um að ræða, að bæta úr þörf eða vand kvæðum alls þorra almennings í sýslunni. En þótt hér sé um að ræða jörð, sem hefir góð akilyrði í framtiðinni, eins og eg hefi bent á, þá er þó ekki að búast við slíkum umbótum þar í nánustu framtíð, og líklegast verður því jörðin til byrðar fyrir sýslusjóðinn fyrst um sinn. Því að ekki getur það komið til mála, að lækninum yrði leigð jörðin svo hátt sem svarar vöxtum og afborgun af kaupverði hennar. Sýslusjóði mundi því sennilega verða að blæða um full 200 kr. árlega, þótt hann komist að þeim lánakjörum, sem hér er farið fram á.

Þess vil eg að endingu geta, að landlæknir hefir mælt með lánveitingunni sterkt og vel í bréfi til stjórnarráðsins, og ættu hana meðmæli að styrkja málið, en eg vona, að mín ummæli hafi heldur ekki spilt neinu þar um.

Umræðunum var eigi lokið á nóni og

var þá fundi frestað til kl. 5 síðd.

Kl. 5 síðd. var fundi haldið áfram. Forseti skýrði frá, að útbýtt væri í deildinni:

Breyt.till. við frumv. til fjárlaga fyrir árin 1914 og 1915. Frá Benedikt Sveinssyni (477).

Útbýtt var frá Ed.:

Breyt.till. við frumvarp til laga um forðagæzlu. Frá Jósef Björnssyni (478).