19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í C-deild Alþingistíðinda. (1045)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg sé að hæstv. ráðherra er ekki við, en eg ætlaði að snúa mér að honum fyrst. Það er aldrei nema gott að brýna fyrir mönnum, að fara gætilega í fjárveitingum. Sérstaklega veik hæstv. ráðherra að lánsheimildum. Eg kannast við það, að of langt er farið, ef allar þessar tillögur verða samþyktar. En hæstv. ráðherra spurði, hvernig stjórnin ætti að fara að gagnvart þessum lánsheimildum. Sagði hann að menn væntust eftir að fá lánin, úr því að heimild væri til í fjárlögunum, og ættu í rauninni nokkura konar heimting á þeim. Eg vil nú benda á ummæli nefndarinnar um þetta efni í áliti hennar. Nefndinni var það ljóst, að eftir fjárhagsáætluninni, eins og útlit er fyrir að hún verði nú, þá má gera ráð fyrir töluverðum tekjuhalla. Því vill nefndin, að allur vari sé hafður og að menn geri sér ekki of háar vonir um heimildir þær, sem samþyktar verða. Þess vegna tekur nefndin það skýrt fram í álinu, að hér sé að eins um heimildir að ræða fyrir stjórnina, og leggur það alveg á hennar vald, hver lán eigi að sitja í fyrirrúmi. Þetta er ekki hægt að taka skýrara fram, og þar sem engin mótmæli hafa verið gerð gegn þessum ummælum, þá mega þau teljast gild fyrir stjórnina.

En hví leggur nú sjálf nefndin til að auka víð þessar heimildir? Þegar menn líta til baka, hvernig þessi viðlagasjóður hefir orðið til, munu menn sjá það, að hann hefir ekki myndast við það að áætlaður hafi verið tekjuafgangur í fjárlögunum, heldur við það, að tekjuáætlunin hefir verið gætileg, og niðurstaðan orðið sú, að næstum stöðugt hefir orðið tekjuauki fram yfir áætlun, svo mikill, að ekki einungis áætlaður tekjuhalli var greiddur þar af — sem stundum hefir verið 400–500 þús. kr. yfir fjárhagstímabilið — heldur einnig margar nauðsynlegar umframgreiðslur og óvænt útgjöld, svo sem t. d. móttökukostnaðurinn við konungskomuna og margt fleira. Þrátt fyrir þetta hefir oftast orðið töluverður afgangur. Og það er þetta, sem lánað hefir verið landsmönnum í fjöldamörg ár og er megineign viðlagasjóðsins. Það er að eins eitt fjárhagstímabil, svo eg muni, sem stjórnin hefir tekið fé til slíkra lána, sem landasjóður mátti ekki missa, og nú narar nefndin við því, að veitt verði nokkurt lán fyr en séð er, hvort fullnægt verði fjárveitingum í fjárlögum og nýjum lögum.

Þó, skal eg snúa mér að einstökum breytingartillögum.

Viðvíkjandi brt. á þgskj. 428, um alt að 6000 kr. fjárveiting til bryggju á Sauðárkróki, skal eg geta þess, að nefndin legst ekki eindregið á móti henni, og býst eg við, að nefndin mundi greiða henni atkvæði, ef upphæðin væri ætt nokkuru lægri, en þó hærri en í núgildandi fjárlögum, t.d. 4500 kr. Þessu skýt eg til háttv. flutningsm. (Ól. Br.) til athugunar, ef hann kynni að. vilja taka brt. aftur og breyta henni til 3. umr.

Eg skal ekki fara nánara út í einstakar brt. nefndarinnar, læt mér nægja að vísa til nefndarálitsins. Að eins eina brt. langar mig að minnast á frá eigin brjósti. Það er 154. liður á atkvæðaskránni. Fyrri liðurinn er svo tilkominn, að eg hafði lagt fram fyrir Alþingi tillögu um nokkurs konar verzlunarerindreka. Eg hefi látið útbýta meðal háttv. þm. bréfi mínu þar að lútandi, þar sem ástæður eru færðar fyrir þessu. Eg þarf því ekki að vera langorður, get látið mér nægja að mestu leyti að skírskota til þessa bréfs míns. Hefi heldur ekki orðið var við, að neinum andmælum hafi verið hreyft gegn þessari uppástungu. Eg skal taka það fram, að það var upphaflega hugsun mín og okkar, sem að þessu stóðu, að sá maður, sem Kaupfélagasamband Norðurlands og Sláturfélag Suðurlands réðu, eftir samráði við stjórnarráðið, til þessa starfa, gæti meðfram orðið erindreki fyrir landið alt, þó að hann sérstaklega — einkum í byrjun — starfaði fyrir landbúnaðinn. Að minsta kosti gæti hann samrýmt víð störf sín sölu á sjávarafurðum á Norðurlöndum. Eg skal játa það, að eg tel það hæpið, að hann gæti tekið að sér erindisrekstur fyrir sjávarútveginn suður í löndum.

Eg vil líka benda á það, að meiningin var alls ekki, að. hann starfaði fyrir sérstakar verzlanir, heldur landið alt í sameiningu. En þegar fjárlaganefndin gekk að því, að taka þessa tillögu upp, þá vildi hún jafnframt veita ámóta upphæð til erindreka fyrir sjávarútveginn, vegna þess að hún treysti því ekki, að sami maður gæti jafnframt unnið mikið að umbótum á verzlun sjávarafurða. Það var svo fjarri því, að eg væri þessu mótfallinn, að eg greiddi því atkvæði í nefndinni, þó að ekki lægi þar fyrir sams konar áætlun eða undirbúningur og í hinu tilfellinu. En nefndin bygði tillögu sína á því, að myndast mundu í þessari grein sama konar »korporationir« og kaupfélagasamböndin og samvinnufélagsskapurinn, sem þá mundi taka þetta að sér og yrði þá styrkurinn veittur þessum »korporationum«, gegn eigi minna framlagi annarstaðar að, sem þá ekki væri á neinn hátt fengið með landssjóðsstyrknum til þessarar atvinnugreinar.

Eg vildi óska, að þessi byrjun gæti orðið til þess að við fengjum meira vald á erlendum markaði, en við nú höfum. Eg gæti haldið langan fyrirlestur um, hve nauðsynlegt það er, en hér er hvorki tími né tækifæri til þess. Þetta er ekki annnað en tilraun, en getur komið að góðum notum, ef vel er á haldið, og orðið byrjunin til annara meira. Og það er á valdi þingsins og þjóðarinnar að þetta haldi ekki lengi áfram, ef þetta kemur að litlu eða engu gagni.

Þá skal eg, áður en eg lýk máli mínu, geta þess viðvíkjandi brt. hv. þm. A.-Sk. (Þ.J.), að það er ekki af viljaleysi, að nefndin hefir ekki getað fallist á, að veita fé til þess að gera við lendinguna hjá Ingólfshöfða. Mér hefir alt af dottið í hug, þegar eg hefi farið þar hjá, hve mikið mein það væri, að hafa ekki góðan lendingarstað þar. En okkur fanst engin trygging fyrir því, að þessi fjárveiting yrði annað en lítilfjörleg byrjun á afar-dýru fyrirtæki, sem ekki væri í neinu hlutfalli við hagsmuni þeirra fáu manna, sem þarna hafa gagn af.