19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í C-deild Alþingistíðinda. (1046)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Magnús Kristjánsson:

Það eru að eins örfá orð viðvíkjandi verzlunarerindrekanum, sem háttv. framsögum. (P. J.) talaði um. Mér virtist hann hálfgert gefa það í skyn, að komast mætti af með einn mann, sem þá fyrst og fremst gætti hagsmuna landbúnaðarins, kaupfélaga og samvinnufélaganna. Auðvitað er erfitt að segja, hvað rétt er í þessu, en hræddur er eg um, að hann gæti ekki samrýmt öll þau störf, sem háttv. ræðumaður gat um, vegna þess, að þegar um sjávarafurðir er að ræða, þá fer sala á þeim fram á alt öðrum stöðum en sveitaafurðum. Það er því sennilegt, að eigi sami maðurinn að gæta hagsmuna allra atvinnuvega, þá verði það honum ofætlun. Hins vegar er ekki ástæða til að fara mikið út í þetta, þar sem nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, sem áreiðanlega er heppilegust og notadrýgst — að hafa þessa erindreka tvo. — Sjávarútvegsnefndin hafði tekið þetta til athugunar, en þar sem hún var ekki skipuð fyr en talsvert var liðið á þingtímann og hefir ekki getað haldið nema fáa fundi, þá hefir hún orðið seinni til en fjárlaganefndin með þessar tillögur, en það er sama, hvaðan gott kemur, og sjávarútvegsnefndin getur því verið fjárlaganefndinni þakklát fyrir hana.

Eitt atriði er það þó, sem eg hefi dálítið að athuga við. Nefndin vill setja það skilyrði fyrir fjárveitingunni, að jafnmikill styrkur komi annarstaðar að. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem mestan hagnaðinn hafa af þessu, leggi eitthvað fram sjálfir, ef hægt verður að koma því Við.

Eftir tillögum nefndarinnar mega félög, sem landssjóðsstyrks njóta, ekki leggja neitt fram af þeim styrk, til þess að bera kostnaðinn við þessa fyrirhuguðu erindreki. Eg geri ráð fyrir, að tilætlunin sé, að þessu ákvæði verði stranglega framfylgt. En getur það ekki orðið örðugt að koma í veg fyrir það, sérstaklega þegar um félög er að ræða, sem landsstyrks hafa notið að undanförnu og kunna að hafa eignast einhverja sjóði á sama tíma. Mér virðist nokkuð vafasamt, hvort slík félög mættu verja nokkru af sjóði sínum í þessu skyni. Eg hefði ekkert á móti því, að af styrk, þeim sem Fiskifélagi Ísland sér veittur, mætti verja einhverju upp í þann koatnað.

Eg get nú ímyndað mér, að margir líti á þetta öðruvís en eg, en þótt þetta fengist ekki, þá efa eg ekki, að sú stétt, sem nýtur góðs af þessari tillögu, sé fús á að leggja eitthvað að mörkum.