08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (105)

20. mál, verkfræðingur landsins

Lárus H. Bjarnason:

Eg skildi hæstv. ráðherra svo, að hann væri á móti því, að nefnd fjallaði um þetta mál. Hann vildi heldur ekki að frumvarpinu um heiðurslaunin handa Steingrími rektor yrði vísað til nefndar. Eg greiddi þó atkvæði með nefnd. Ekki fyrir þá sök, að eg ætli mér ekki að styðja það mál. Það ætla eg mér að gera og það hefði eg gert, jafnvel þó að hæstv. ráðherra hefði ekki um alla þörf fram skýrt frá, að það væri skilyrði fyrir því að rektorinn segði af sér, að hann fengi heiðurslaunin. Eg vil leyfa mér að gera það að tillögu minni, að þessu máli verði vísað til launalaganefndarinnar, og eg býst við, að flestir geti fylgst að um það.