20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í C-deild Alþingistíðinda. (1071)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Út af ræðu hæstv. ráðh. skal eg geta þess, að það er nokkuð annað fyrir banka, að vera bundinn við það með lögum að borga fé á hverju ári, hvort sem hann hefir nokkurn hag eða ekki, eða að þurfa ekki að borga nema af hag. Það er öðru máli að skifta með Íslandsbanka, heldur en með Landsbankann. Íslandsbanka er lagt fé vaxtalaust og hann þarf ekki að borga nema af hag sínum, en Landsbankinn verður að borga, hvort sem hann hefir nokkurn hag eða engan. Eg grundvallaði skoðun mína á því, að bankinn miðaði útlánsvöxtu sína við hag af veltufé sínu, en ekki við »provision« eða önnur tilfallandi störf.

Það sem vantar, er, að hæstv. ráðh. vill ekki gera Landsbankann jafn hæfan til að útvega sér aukatekjur eins og Íslandsbanka. En eg vona að háttv. þingmenn sjái, að það er mikill munur á því að þurfa að borga hvort sem um nokkurn hag er að ræða eða ekki, ellegar fyrir hlutabanka, sem skilar arði ef hann hefir einhvern hag, en annars ekki Það getur líka átt sér stað að hlutabanki tapi ár eftir ár, en stjórn hans vilji ekki láta bera á því, og borgi þess vegna eins mikinn arð og vant er þegar vel gengur.