20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í C-deild Alþingistíðinda. (1082)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Kristján Jónsson:

Eg kannast við og vil láta það í ljós, að eg tel það mjög æskilegt, að fjárhagur landsins væri í svo góðu lagi, að landssjóði væri fært að byrja á að veita Landsbankanum þessa fjárfúlgu, sem um er að ræða — 100 þús. kr. á ári. En eg sé ekki, að landssjóður sé fær um að gera þetta. Eg hefi beðið eftir að heyra formælendur frumv. benda á einhver ráð til þess að gera landssjóði þetta kleift. En það fer fjarri því, að eg hafi heyrt bent á nokkur úrræði. Mér er kunnugt um, að eins og nú er komið fjárlögunum, er gert ráð fyrir á þriðja hundrað þúsund króna tekjuhalla, og ef að vanda lætur, þá verður tekjuhallinn ekki minni þegar fjárlögin fara út úr þinginu. Eg er svo gerður, að eg vil fá að vita, áður en eg greiði atkvæði með nýjum, mjög miklum útgjöldum, hvort nokkur tök eru á að landssjóði sé fært að standast þau. Mér virðist, sem hér sé ekki höfð sú fyrirhyggja sem ætti að vera í þessu efni.

Háttv. þingm. Dal. (B. J.) taldi þetta sjálfsagt. Hann er nú alt af svo góður í sér og vill öllum fé veita, en hann spyr ekki alt af að því, hvar féð eigi að taka, og því síður gæti hann svarað því, þó að hann væri apurður. En fjárvöntunin vill oft verða steinn í götu fyrir góðvild þeirra manna, sem eins eru gerðir og hann. Vöntun fjárins er venjulega þröskuldurinn, sem vér rekum oss á, er vér viljum veita fé til einhvers þess, er vér teljum æskilegt og nauðsynlegt. Þess vegna verðum vér ætíð fyrst að leggja þá spurningu fyrir oss og svara henni: er fé á reiðum höndum til þessa? Sé það ekki, verður að sýna ráð til að útvega peningana.

Eg er sammála þeim háttv. þingm., sem hafa haldið því fram, að hér eigi ekki að tala um gjöf, heldur um lán. Það verður að líta svo á, að féð sé lánað bankanum. En eg er ekki sammála háttv. framsögum. (B. gr.) og hygg að hann hafi ekki skilið það rétt, sem talað var hér í þinginu árið 1907, er lögin um bankaskuldabréfin voru til meðferðar. Það er enginn vafi á því, að ráðherra og flutningsmenn málsins þá voru þeirrar skoðunar, að innlausn bankaskuldabréfanna ætti að hvíla á bankanum, en ætti ekki að lenda á landasjóði. Eg hefi kynt mér umræðurnar nú samstundis og get ekki skilið þær á annan. hátt. En ef landssjóður skyldi eiga að innleysa bankaskuldabréfin fyrir Landsbankann, það er: leggja fram fé til þess, en í þá átt fer frv., þá er það sjálfsagt, að mínu áliti, að þetta fé á að teljast lánað bankanum, og hann verður að greiða hæfilega vexti af því.

Annars verð eg að telja það alveg óviðeigandi, að gefa nú út sérstök lög um það, að landssjóður skuli næstu 20 ár greiða þennan árlega skatt til bankans. Það væri miklu eðlilegra að fara hina leiðina, að veita þessa upphæð á fjárlögunum fyrir hvert fjárhagstímabil 200 þúsund krónur. Það væri réttari leið í þessu máli; fjárveitingarvaldið mundi þá annað hvert ár athuga, hvort þörf væri fyrir fjárveitinguna, og hvort hún væri forvaranleg. Eg býst ekki við að geta greitt atkvæði með frumvarpinu.