20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í C-deild Alþingistíðinda. (1086)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Framsögum. (Sigurður Sigurðsson):

Máli þessu var á sínum tíma vísað til landbúnaðarnefndarinnar, og meiri hluti hennar leggur nú til að frumvarpið verði samþykt með þeim breytingum frá flutningamönnunum, sem eru á þgskj. 285. Um ástæður meiri hlutans fyrir þessari tillögu sinni, get eg vísað til nefndarál. á þgskj. 365. Það var viðurkent, að þessi viðaukalög við kornforðabúralögin frá 1909 væru til talsverðra bóta, og gætu oft og einatt komið að mjög góðu liði. Hins vegar skal eg láta þess getið, að meiri hluti nefndarinnar getur ómögulega séð sér fært, að ganga inn á tillögu minni hlutans, háttv. þingm. Dal. (B. J.) á þgskj. 398, sem fer fram á, að skylda alla hreppa landsins til þess að koma kornforðabúrum á fót hjá sér. Fyrst og fremst er þess að gæta, að með því móti væri svo stórt spor stigið, að það væri vart gerlegt á þessu þingi. Málið, hefir ekkert verið rætt frá þeirri hlið úti um sveitirnar, og þess vegna mundi það koma eins og skúr úr heiðskíru lofti yfir landsmenn, ef þessi breyting yrði samþykt. Ef þetta ætti að leiða í lög, þá þyrfti slíkt mál miklu meiri undirbúning en hægt er að veita því á þessu þingi.

Auk þess skal eg benda á, að víða hagar svo til hér á landi, að engin þörf er á að skylda menn til að koma sér upp kornforðabúrum. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að margar sveitir eru svo settar, að þær geta hvenær sem er, með lítilli fyrirhöfn, aflað sér fóðurbætis, ef í harðbakka slær. Á Suðurlandsundirlendinu er því svo háttað um flestar sveitir, að ef þær tryggja sér nægan forða að haustinu, t. d. í Kaupfélögunum á Eyrarbakka og Stokkseyri, þá er það hrein undantekning, ef það kemur fyrir, að svo sé snjóþungt, að ekki sé hægt að koma forðanum að sér, ef á þarf að halda síðari hluta vetrar. kornforðabúralög hafa aldrei verið hugsuð öðruvís en sem hjálparmeðul, til þess að tryggja menn fyrir fóðurskorti og horfelli í vondum árum, og þá helzt í þeim sveitum, þar sem ís getur útilokað menn frá að afla sér forða, er á þarf að halda. Enn vil eg benda á, að frumvarpið, eins og það nú liggur fyrir, bætir úr kornforðabúralögunum að því leyti, að það færir út kvíarnar, þannig, að heilar sýslur geta nú samið við eitt kaupfélag um forðann, t. d. Eyjafj.sýsla við kaupfél. Eyfirðinga, Skagafj.sýsla við kaupfélagið þar o. s. frv.

Af þessum ástæðum getur meiri hluti nefndarinnar ekki fallist á tillögur hv. þm. Dal. (B. J.), en ræður til að tillögur flutningsmannanna verði samþyktar, svo og frumvarpið í heild sinni.