20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í C-deild Alþingistíðinda. (1090)

64. mál, friðun æðarfugla

Benedikt Sveinsson:

Frumvarpið, sem hér liggur fyrir, kom frá Ed og hefir verið rætt þar ýtarlega, enda eru þar margir varpeigendur, er vel bera skyn á málið. Þar eru einnig menn, sem hafa viljað eyða þessu máli og má því gera ráð fyrir, að það sé vel úr garði gert, er menn hafa leitt hesta sína saman um það af svo miklu kappi. Nefndin hefir ekki gert miklar breytingar á frumvarpinu, það eru að eins tvær orðabreytingar, til þess að gera ákvæðin í 6. gr. ljósari og skýra 1. gr.

Annars miðar frumvarpið að því að gera æðarfuglalögin strangari og reyna að reisa sem beztar skorður við æðarfugladrápinu. Nú eru lagðar hærri sektir en áður við brotum gegn lögum; t. d. er það nýmæli, að byssan ekal gerð upptæk, sem fuglinn hefir verið drepinn með. Í annari grein er bannað að selja eða kaupa æðaregg og er hert á ákvæðunum, sem áður voru, með því að banna mönnum að láta af hendi egg til annara utan heimila sinna. 3. grein er um, að enginn má hirða, kaupa eða selja dauða æðarfugla eða hluta af þeim.

Yfir höfuð eru aðrar greinar frumv. svipaðar því, sem nú er í lögum, nema að hert er á sektum. Í níundu grein er nýmæli, þar sem ákveðið er, að sýslumenn skuli skyldir til að friðlýsa æðarvörpum á manntalsþingum árlega; er það gert til að brýna fyrir mönnum að fylgja lögunum og láta þau ekki falla í gleymsku. Er sennilegt, að allgóður árangur geti orðið af því ákvæði. Ennfremur er í 10. gr. ákveðið, að þýðingar af lögum þessum skuli koma út á öllum helztu málum álfunnar og að erlendum skipstjórum skuli vera birt þau. Sumir nefndarmenn vildu breyta ákvæðinu í 11. gr., um að tveir þriðju hlutar sekta skuli renna til uppljóstrarmanns, þótti þeim sem slík ákvæði mundu eigi auka uppljóstur, því að fáir væru svo skapi farnir að þeir gengist fyrir slíku; en nefndin hefir þó eigi breytt þessu ákvæði.

Tilgangur laganna er sá að friða æðarfugl betur en áður hefir verið er það nauðsynlegt, því að ekki er vafi á því, að varp gæti víða aukist mikið þar sem nú er, og komist á þar sem það er ekki, ef fuglinn væri eigi drepinn svo mjög og nú er. Sjá allir, hve stór hagnaður landinu gæti orðið að því, ef vörpin ykjust. Í verzlunarskýrslunum 1911 er sagt, að æðardúnn hafi verið seldur fyrir 120 þús. kr. Má þó gera ráð fyrir að þar hafi eigi öll kurfl komið til grafar, má gera ráð fyrir að dúnn lafi verið seldur fyrir 150 þús. kr., ef það er talið með, sem selt hefir verið í landinu sjálfu eða án þess að fram væri talið. Síðan hefir dúnn hækkað mjög í verði og dúntekjan nokkuð aukist í landinu, svo að nú má óhætt fullyrða, dúntekjan nemi tveim hundruðum þúsunda króna. Það er því sjálfsagt, að Alþingi hlynni að þessum góða og skemtilega atvinnuvegi og mælir nefndin þess vegna fram með því, að frumvarpið verði samþykt án frekari breytinga.