20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í C-deild Alþingistíðinda. (1095)

64. mál, friðun æðarfugla

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Eg get nú ekki annað sagt, en að gaman hefi eg haft af umræðunum, en annað mál er það, að ekki get eg fallist á röksemdirnar á móti frv.

Háttv. 2. þm. Húnv. taldi alveg óhætt að taka egg æðarfuglanna. Hann skírskotaði til reynslu bónda eins fyrir norðan, Árna heitins Sigurðssonar í Höfnum. Í hans tíð sagði hann að varpið hefði aukist úr 10 pundum upp í 320 pund, og hefði hann þó aldrei skilið eftir meira en fjögur egg í hreiðri. Þessi röksemdaleiðsla sannar ekki neitt, því að hver getur sannað, að varpið hefði ekki orðið miklu meira, ef ekkert egg hefði verið tekið þennan tíma. Þess er og að gæta, að Árni í Höfnum hefir samkvæmt þessu tekið miklu minna af eggjum en víða er títt, því að fyrrum voru víða ekki skilin eftir nema tvö egg eða í mesta lagi þrjú. Sumstaðar jafnvel að eins eitt í hreiðri. Ef leyft er á annað borð að taka egg, þá er erfitt taumhaldið, að ekki sé farið í kring um lögin. Menn, sem tæki varpsjörð á leigu, gætu látið greipar sópa um eggin til þess að hafa sem mest upp úr jörðinni í svip, enda munu þess dæmi.

Þá vildi 2. þingm. Húnv. fullyrða, að æðarkollur gæti ekki komið ungunum eins vel á legg, ef þeir væru margir. Hér talaði þingm. af algerðri vanþekkingu. Það er sem sé alkunnugt, að hver kolla hefir ekki endilega sína eigin unga fram að færa. Það kemur oft fyrir, að 30–40 ungar fylgja einni eða tveimur kollum, en svo aftur einn eða enginn annari. Fuglarnir þekkja ekki unga sína frá öðrum, svo að það er algerð hending, hversu margir ungar fylgja hverri kollu í þann og þann svipinn Það er satt, Sem háttv. þingm. sagði, að ungarnir farast hrönnum saman í haustbrimum. En hann ræður enga bót á þeim vanhöldum. Auðvitað er, að því færri ungar farast, sem færri komast lífs úr varplandinu, en ekki má heldur gleyma því, að þá komast einnig því færri upp, sem meira er tekið af eggjunum. Mér þykir sennilegast, að helzta ráðið til þess að afstýra sem mest vanhöldum unganna sé það, að stuðla að því, að æðarfuglinn ungi út sem fyrst á vorin, því að þá eru líkur til að ungarnir geti stálpast sem bezt til þess að standast óblíðu veðráttunnar. Af eggjatökunni getur líka ef til vill leitt, að fuglinn ofreyni sig á því að verpa meira en honum er beint eðlilegt og drepist því fremur ef eitthvað bjátar á.

Það er að öllum líkindum rétt, sem sami háttv. þingm. hafði eftir gamalli konu fyrir norðan, að nauðsyn bæri til að eggin, sem eftir væru akilin, væru á sem líkustum aldri. En þessu verður einmitt mest raskað með því, að egg sé tekin til muna í varpinu; þá er einmitt hættara við, að miseldri eggjanna geti orðið meira en ella mundi. Því finst mér einlægara að banna alveg alla eggjatökuna en að stefna í slíka vitleysu.

Eg veit ekki, hvað gamla konan, sem þingm. nefndi, kann að hafa fyrir sér, og get eg ekki bygt á því, en eg veit um annan mann, sem eg þori óhætt að leggja á móti blessaðri kerlingunni, og það er Eyólfur Guðmundsson Ketilssonar, er bjó á Eyjarbakka. Í ritgerð í Andvara segir hann, að bezta ráðið til að auka æðarvarp sé, að taka ekki nokkurt egg. Eg held nú að fult eins mikið sé að marka það sem þessi gamli varpbóndi segir eins og það sem aðrir segja.

Eg skal játa, að það er hart, að varpeigendur megi ekki hirða æðaregg né neinir megi hirða fugla. En sá hagur, sem af því fæst að hirða fugla eða taka egg, er hverfandi móts við tjónið, sem af því hlýzt, að fuglinn sé drepinn. Þeir sem drepa fuglinn, geta líka alt af skotið sér undan refsingu með því að þykjast hafa fundið fuglinn, þótt þeir ha.fi ef til vill lagt fyrir hann net eða skotið hann.

Um hafísinn, Sem háttv. þingm. talaði um, þýðir mér ekki að þrátta.. Hann kemur jafnt þrátt fyrir öll lög. Eg gæti einnig skírskotað til ritgerðar í Lærdómslista-félagsritunum eftir Ólaf Stephensen stiftamtmann, góðan mann og gegnan, sem áður bjó að Innrahólmi og síðar í Viðey. Í hans tíð var eggjatakan mikil í öllum varplöndum, en þó taldi hann bezta ráðið til þess að koma upp varpi, að taka ekki eggin meðan varpið væri lítið. Aftur hyggur hann, að eggjataka geri lítið þar sem varpið er mikið. En álit manna hefir nú breyzt til muna um fleira en þetta síðan á hans dögum.

Háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.) þarf eg ekki að svara, það hefir háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) gert allrækilega.