21.08.1913
Neðri deild: 40. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í C-deild Alþingistíðinda. (1100)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. minni hl (Bjarni Jónsson):

Háttv. framsögum, meiri hl. (J. M.) vill hafa meira þakklæti af mér en eg hefi skrifað í nefndarálitinu. Satt að segja finst mér þakklæti mitt hafa verið um skör fram. Það ætti ekki að vera annars eðlis en það, að kennari þakki lærisveini fyrir að hann lærir það sem honum er kent. Þeir hefðu heldur átt að vera mér þakklátir og átt að fara að tillögum mínum, því að þá hefði verið stofnað til viturlegs framganga þessa máls. Það þyrfti ekki hvað eftir annað að flækjast milli þinga og kjósendur mundu þá verða ánægðir með úrslit þess. En eg er eins sannfærður um það og að sólin er yfir mér, að gangi málið fram í því formi, Sem háttv. meiri hluti leggur til, þá verður það sett oftar inn á þingið, og þingm. beðnir að gera það betur úr garði.

Það er rétt hjá háttv, þingmanni; að aðal-ágreiningsatriðið okkar á milli er um deildaskipunina, kosningarréttinn og kosningaraðferðina.

Eg hafði þá gleði, að allir nefndarmenn urðu sammála um það, að nema burt ákvæðið um, að málin væru borin upp fyrir konungi í ríkisráði. Háttv. þm. mintist ekkert á þetta atriði, svo að eg get líka látíð mér nægja að vísa þar til nefndarálits mína.

Háttv. þm. vildi halda því fram að það væri ekkert misrétti, að veita ekki þann kosningarrétt, sem viðurkendur væri, strax, heldur smátt og smátt á 15 árum. Hvað eru 15 ár í lífi þjóðarinnar? sagði hann. Auðvitað ekki neitt. Þess vegna dugir það ekki, að afstýra þessum byltingarvoða, sem hann er svo hræddur við að verði afleiðingin af almennum kosningarrétti, í ein 15 ár. Ef hann á að koma yfir okkur, þá munar það minstu, hvort hann kemur strax, eða eftir 15 ár.

Þá sagði háttv. þm., að nauðsynlegt væri, þegar kjósendum fjölgaði að miklum mun, að reisa skorður við einhverju — eg held of mikilli byltingargirni. Það þyrfti að skapa íhald til þess að vega þar upp á móti. Þetta íhald vill hann fá með því, að láta kjósa aðra deildina fyrir alt landið með hlutbundnum kosningum. Þá fengjum vér reynda menn og þekta inn á þingið. Þekta menn fáum við, það er áreiðanlegt. Hitt er meira vafasamt, hvort þeir verða að sama skapi reyndir. Það er vitaður hlutur, að þeir menn eiga hægast með að komast á þing, sem kunnastir eru um land alt. En að hverju þeir séu kunnir, held eg að gæti ekki eins mikils. Eg gæti hugsað, að það yrðu einmitt brallarar, málrófsmenn og ákafamenn sem kæmust að — hvassir og og frjálslyndir ritstjórar og byltingamenn. Og það eru enn meiri líkur til þessa þar, sem stjórnir flokkanna hafa aðsetur sitt og þær ráða mestu um listana. Hver flokkur mundi þá setja á listana þá menn, sem mestar líkur væru til, að mest fylgi hefðu. Öðrum megin mundu þá komast að óróasamir, rithvassir áhugamenn, sem ekki væru íhaldssamir, en hins vegar gamlir, útlifaðir, afturhaldsamir embættismannahjassar. Niðurstaðan yrði þannig þveröfug við það, sem háttv. meiri hluti ætlast til. Háttv. meiri hluti er óttalega hræddur við einhvern byltingarvoða, ef mínar till. ná fram að ganga. En eins og sýnt er fram á í nefndaráliti mínu, þá er mikið fremur að óttast of mikið íhald. Það kemur af því, sem bæði þm. og allir aðrir vita, að konur eru mikið fastheldnari við það sem gamalt er en karlmenn. Það er alkunnugt og viðurkent í öllum bókum, sem um sálarfar manna ræða, og það er mjög skiljanlegt, vegna þess að kendirnar ráða meiru hjá þeim en umhugsunin. Það er einmitt vegna þess, hvað kendirnar ráða miklu, að oft tekur margar aldir að lagfæra það, sem hægt væri að lagfæra á hálfri mínútu, ef rétt hugsun réði ein. Þær halda dauðahaldi í venjurnar og hafa gert það svo lengi, að þær eru loksins skoðaðar sem heilagur Sannleiki. Ef kvenfólk fer að hafa áhrif á almenn mál, þá, verður íhaldið meira ráðandi. Eg segi þetta ekki af eigin reynslu, heldur er það viðurkent um allan heim. Háttv. þm. sagði, að konurnar mættu vera þakklátar fyrir að fá þennan rétt viðurkendan, þó hann sé skamtaður úr hnefa. Það má vera, að þær séu þakklátari fyrir hann fyrir það, heldur en að fá engan rétt. En eg býst við, að þeim gangi illa að akilja, hvers vegna þær fái ekki réttinn strax, fyrst hann er viðurkendur á annað borð. Og sú óánægja hygg eg að muni valda meiri byltingum, en þeim sem meiri hl. er að gera sér grýlu úr. Yrðu minar tillögur aftur á móti samþyktar, mundi alt ganga þegjandi og hljóðalaust og konurnar ekki meira en svo nota þennan rétt.

Þá hélt háttv. þm. því fram, að konurnar myndu skoða sig sem sjálfstæðan kjósendaflokk, er konur einar mætti kjósa. á þing, vegna þess að það hefir komið fyrir við bæjarstjórnarkosningar hér í Rvík. En af hverju var það? Það var af því, að karlmenn voru svo drýldnir, að þeir vildu ekki taka þær með á lista. Og þá urðu þær að taka til sinna ráða. Annars veit eg ekki til að nokkurt tjón hafi orðið að því. (Benedikt Sveinsson: O-jú). Eg veit ekki til, að þær reynist nokkuð ver en þær kerlingar, sem ganga í buxum.

Þá sneri háttv. þm. sér með nokkrum aðfinningum að nefndaráliti mínu. Honum þótti ýmislegt þar óviturlega sagt. Hann sagðist ekki skilja það, að kosningarrétturinn væri eign hvers fullveðja manns, en engum einum væri óréttur ger, þótt einhver aldur væri tiltekinn. Þetta. virðist mér ekkert óskiljanlegt. Það kæmi jafnt niður á öllum og engum sérstökum væri óréttur ger. Hitt er annað mál, hvort hann er mér samdóma um alduratakmarkið eða ekki. En eg verð að álíta, að sá maður, sem alment er álitinn fær til að stjórna búi, vera kaupmaður o. s. frv., sé áreiðanlega eins fær um að kjósa til Alþingis og ráða um lagasetningu þeirra mála, sem að mörgu leyti lúta að því, sem þjóðfélagið álítur hann hæfan til að hafa með höndum.

Þá sagði háttv. þingm., að það væri ekki misrétti, að úthluta kosningarréttinum svo, að aumir fengju hann ekki fyr en að mörgum árum liðnum. Eg skil ekki, hvernig hann ætlar að fara að sannfæra menn um það, þegar hann viðurkennir þann grundvöll, að allir eigi réttinn 25 ára. En þegar að eina fertugir menn fá hann, þá er hinum, sem yngri eru, gerður óréttur. Og þegar 39 ára fá hann, þá er þeim gerður óréttur, sem ekki fengu hann fyr en þeir voru fertugir og svo koll af kolli. Það verður heil keðja af misrétti og tilbúin alveg af handahófi. Það mætti eins ákveða réttinn eftir kartnöglum, þannig, að fyrst fengi nú kerling kosningaréttinn, sem kartnögl hefði á hverjum fingri, eða eftir því hve digrir þeir eru.

Þá var eitt atriði enn, sem hann réðst á í mínu nefndaráliti, að núverandi kjósendur myndu í raun og veru einakis í missa, þótt allir fengju kosningarétt í einu. Eg ímynda mér, að menn hafi tekið eftir því, að eg rökstuddi þetta með því, að þjóðin væri jöfn að ætterni og gáfnafari og mennig alment sú sama. Hér væri og enginn stéttamunur, kynin bæði eina uppalin og að engu leyti frábrugðin í skoðunum einum og áhugamálum. Þetta eru nægar röksemdir fyrir því, að núverandi kjósendur missa í rauninni ekkert af valdi sínu, þótt allir fái sjálfaagðan rétt sinn í einu. Og fyrst að þetta er nú svona, þá verður heldur ekkert úr þeirri byltingu, sem talað hefir verið um; kosningar myndu fara alveg eina, þótt alt þetta gengi fram, eins og áður hefir verið. Það ber alt að sama brunni, og eg þarf ekki að vera að standa hér og segja Íslendingum frá því, gagnkunnugum mönnum, að hér getur sami maðurinn eitt árið verið bóndi, annað árið, lausamaður, og vinnumaður þriðja árið. Og hitt vita allir, sem farið hafa hér um sveitirnar og komið á bæi, að það eru að jafnaði alveg eins akir svör konunnar eins og svör bóndaus, bæði um landsmál og hvað sem er. Stundum er konan skírari, stundum maðurinn.

Það er ekki rétt, sem háttv. framsm. meiri hlutans (J. M.) sagði, að það væri vanalegt erlendis, að bróðir ráðherra geti verið sjómaður eða skóamiður. Slíkt er ekki vanalegt í öðrum löndum, en það er vanalegt hér. Við vitum, að þeir sem nú sitja í embættum hér á landi, eiga skyldulið í öllum stéttum. Hér eru allir annaðhvort almúgamenn eða allir höfðingjar. Og það mun vera réttara að telja Íslendinga höfðingjaþjóð, það hafa þeir verið og munu verða meðan kynið helzt óblandað. Viðvíkjandi kvenfólkinu má benda á það, að konur hafa ætíð verið jafnokar karlmanna í öllum greinum. Það hefir sýnt sig meðal annars í fornsögunum, og þarf ekki annað en minna á systur Harðar, þegar hún kom á þingið og hótaði hefndum fyrir bróður sinn, en þögn sló á alla, og get eg nefnt mörg dæmi, sem sýna það að íslenzkt kvenfólk stendur framar í mörgum greinum, heldur en kvenfólk í öðrum löndum. Þjóðin er höfðingjaþjóð frá upphafi. Það var þaulmentað fólk, sem settist hér að í öndverðu, og síðan hefir hafið og nafnið Ísland varðveitt okkur fyrir því að okkur bærust ýmsar hættur utan úr heimi.

Eg get ekki séð annað en að skoðanir mínar og röksemdir standi óhaggaðar, og jafnvel hefir háttv. framsögum. meiri hlutans hert á mínum röksemdum með ræðu sinni. Eg hefi ekki sagt neitt annað en það sem hver maður veit, og eg hefi sett það fram svo skírt og ljóst, að það verður ekki vefengt. Eg vil geta þess, að eg legg til, að allar aðalbreytingar meiri hlutans verði feldar, svo sem breyt.till. um tvöfaldan koaningarrétt, um að menn öðlist kosningarrétt smátt og smátt á 15 árum og um hlutfallskoaningar, að önnur deildin sé kosin öðruvísi en hin. Eg legg til að þetta verði felt alt saman, en til vara hefi eg komið með br.till við br.till. meiri hlutans, og er aðalatriðið það, að ef menn vilja hafa hlutfallskosningar, þá verði ekki fleiri en 6 kosnir hlutfallskosningum um alt land, þ. e. a. s. jafnmargir og þeir konungkjörnu eru nú. Eg held, að það sé áreiðanlega rétt fyrir þá, sem vilja hafa hlutfallskosningu, að aðhyllast þessa miðlunartillögu mína, með því sleppur maður við að raska kjördæmaskipuninni, og breytingin verður þá að eins sú, að þjóðin kýs þá konungkjörnu í stað þess sem stjórnin gerir það nú. Eg þori að setja höfuð mitt í veð fyrir því, að þjóðin vill ekki að öll efri deildin verði kosin hlutbundnum kosningum, og hinir geta sett þingsæti sín í veð. Það mun sjást að eg held höfðinu.

Eg býst við, að atkvæðagreiðslunni verði hagað þannig, að mínar tillögur verði bornar upp á undan till. meiri hlutans, og verð eg að minna menn á, að ef mínar tillögur falla, þá verður ekki hægt að koma fram stjórnarskrárbreytingu í þetta skiftið. Eg skal nú geta þess að lokum, að eg stóð ekki alveg einn uppi í nefndinni, sem ætla mætti eftir nefndarálitunum. Eg veit ekki betur, en að háttv. 1. þingm. Eyf. (St. St.) sé fylgjandi aðalbr.till. mínum. (Lárus H. Bjarnason: Það hefi eg ekki heyrt). Eg er einmitt að segja þingm. frá því.