21.08.1913
Neðri deild: 40. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í C-deild Alþingistíðinda. (1101)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Ráðherrann (H. H.):

Eg hefi áður látið það í ljósi, að eg álíti eftir atvikum ekki rétt að stjórnarskrármálið yrði til lykta leitt á þessu þingi. Til þess væru ýmsar ástæður, en aðalástæðan var yfirlýsing sú frá núverandi konungi, sem fyrverandi ráðherra (Kr. J.) flutti Alþingi 1912, að hann sæi sér ekki fært að undirskifa stjórnarskrárbreytingu, þar sem því ákvæði væri slept, að uppburður íslenzkra mála fyrir konungi skuli fara fram í ríkisráðinu fyr en nýir samningar væru komnir á um samband landanna. Eg er að vísu fullkomlega á sama máli og eg hefi alt af verið um það, að hér sé um íslenzkt löggjafaratriði að ræða, og að því leyti séum við ekki að fara út fyrir valdsvið Alþingis, þó að felt sé burt ákvæðið um uppburð málanna í ríkisráðinu. En þegar þess er gætt, að Alþingi er að eins annar þáttur íslenzka löggjafarvalds, en hinn þátturinn er konungur, þá er það ætíð mjög athugavert mál, hvort og hvenær rétt sé að stofna til sundurþykkis milli þessara tveggja þátta, sem hvorugur getur án hins verið. Þess vegna er rétt að fresta heldur málinu, heldur en taka upp það sem konungur hafði tjáð sig beint mótfallinn, en hins vegar var erfitt fyrir Alþingi að hverfa frá. En nú er komin fram frá nefndiuni ný miðlunartillaga í þessu efni, sem eg fyrir mitt leyti álít sem framrétta hönd af Alþingis hálfu, því ef hún verður samþykt, þá geta báðir aðilar fengið því framgengt í framkvæmd, sem er aðalatriðið fyrir hvorum um sig. Eg er því þess vegna ekki mótfallinn, að þetta mál sé rætt og hrundið sem lengst áleiðis, en eg verð sem ráðherra að lýsa yfir því, að eg get alls ekkert um það sagt, hvort konungur muni vilja ganga að þeirri málamiðlun viðvíkjandi ríkisráðsákvæðinu, sem felst í 4. gr. frumv. Það er útilokað, að það sé hægt að segja nokkuð um það atriði nú, hvernig konungur muni líta á þessa breytingu, hvort hann álítur hana fullnægjandi eða ekki. Það getur vel verið, að þetta þyki ekki fullnægjandi gömlum kenningum. Þetta orðalag hefir ekki áður komið fram á þingi eða verið samþykt í þingdeild, eins og nú lítur út fyrir að verði. En hvort sem málið gengur út úr þinginu eða ekki, er nú tækifæri til að bera þetta atriði undir konunginn.

Að því er málið snertir að öðru leyti, er eg samþykkur meiri hlutanum í öllum aðalatriðum og get eg því stutt tillögur hans með atkvæði mínu. En eg verð þó að segja, að það hefir verið fremur naumur tími til þess að átta sig á tillögum nefndarinnar. Eg hefi t. d. ekki haft tíma til að bera þær saman við stjórnarskrána; það getur vel verið að nefndinni hafi í einhverju yfirsést. En eg verð í bráðina að treysta vandvirkni hennar, og finn eg ekki ástæðu til að tala um sérstök atriði í breytingunum, frekara en framsögum. hefir gert.

Eg skal að eins taka það fram, að eg kann ekki við breytinguna um stytting kjörtímans niður í 4 ár. Eg veit ekki betur, en að t. d. í Danmörku sé kjörtíminn, sem verið hefir, álitinn of stuttur, og er þar þó kosið til þriggja þinga. Þar hefir í grundvallarlagabreyting, þeirri sem nú er til meðferðar. verið stungið upp á að lengja kjörtímann til 4 þinga, en hér er farið fram á að stytta hann niður í 2 regluleg þing, og get eg ekki skilið, að það sé til batnaðar, enda naumast neitt meginatriði. Þá er og annað atriði, sem mér hefir verið bent á, þar sem það er felt úr stjórnarskránni, að ráðherrann megi í forföllum sínum setja mann fyrir sig til að mæta á þingi. Eg lít svo á, að meðan ráðherrann er einn, þá sé honum alveg nauðsynlegt að geta sent fyrir sig umboðsmann til að mæta á þingi, ef hann getur ekki mætt sjálfur, sem alt af má búast við að geti komið fyrir.

Eg hefi að svo stöddu ekki meira að athuga við þetta, en endurtek það, að eg mun geta stutt tillögur meiri hlutans í öllum aðalatriðum með atkvæði mínu.