21.08.1913
Neðri deild: 40. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í C-deild Alþingistíðinda. (1105)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Lárus H. Bjarnason:

Eg er sammála háttv. framsögum. meiri hlutans, að æskilegast væri að 2. umr. um þetta mál yrði sem styzt, því deildarmönnum hefir ekki gefist kostur á að íhuga það sem skyldi. Eg stend aðallega upp af því, að eg hefi skrifað undir nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara og vildi eg með fáum orðum gera grein fyrir því, af hverju eg gerði það.

Aðalástæðan fyrir því, að eg skrifaði mig undir með fyrirvara, er sú, að mér þykir ekki reka nauður til að halda kjörgengi, hvorki til handa þeim mönnum, sem nú sitja í yfirdóminum né þeim útlendingum, er setu kynnu að eiga á Alþingi þegar lögin gengju í gildi.

Það hefir verið kallað nýmæli, að nefndin vill meina einkadómurum kjörgengi, þ.e. yfirdómurunum og öðrum, er síðar kynnu einungis að fara með dómsvald, en slíkt viðgengst ekki óvíða erlendis og sumstaðar eru margs konar embættismenn ókjörgengir. Hér á landi er það heldur ekki nýmæli, að löggjöf og dómsvald hafi verið aðskilin. Svo var það á þjóðveldistímanum. Lögsögumaðurinn tók t. d. engan þótt í dómum svo sem háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) hélt fram, mér til mikillar undrunar.

Sumstaðar í útlöndum eru meðal annara embættismanna ýmsir dómarar, sérstaklega inir æðstu, og ókjörgengir til þings, svo sem í 4 af 5 ríkjum hér í álfu, þar sem báðar deildir þingsins eru þjóðkjörnar: Belgíu, Hollandi, Sviss og Frakklandi. Sama er um neðri málstofu enska þingsins.

Þótt það kunni að þykja hart, að svifta þá sem nú eru dómarar hér á landi, þessum rétti, þegar litið er á það eingöngu frá þeirra sjónarmiði, þá er hins að gæta, að þar standa á móti önnur dýrmæt réttindi, réttindi alls almennings til trausts á þeim mönnum, sem heita má að séu í framkvæmdinni æðstu dómarar landsins. Því að flest mál vor eru útkljáð hér, þó að komist gætu til hæstaréttar. Hér er ekki verið að væna þá menn, sem nú, þegar lagasmíðin stendur yfir, gegna þessum embættum, um hlutdrægni, heldur er verið að útvega þeim ómissandi traust alþýðu, sem óhjákvæmilega hlýtur að tapa sér, ef menn í slíkri stöðu gerast mjög riðnir við stjórnmál. Réttast væri það, meira að segja, að losa dómara einnig við kosningarrétt til Alþingis, en sitt er þó hvað, fjarvígi og návígi.

Háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) vildi halda því fram, að sömu ástæður ættu að vera til þess, að svifta aðra embættismenn kjörgengi, svo sem undirdómara og presta, en þar á er mikill munur. Undirdómarar dæma ekki mál til fullnaðarúrslita: Dómum þeirra er iðulega skotið til æðra réttar, og er því eigi alt úti þó að þeir kunni að skekkjast. Þar við bætist, að aðalverk sýslumanna og bæjarfógeta eru umboðsstörf, dómsmálin eru aftur á móti aukaverk og undantekningar.

Þá er hitt, að heimilisfestu-skilyrðið fyrir þingsetu á ekki að koma strax í framkvæmd. Eg veit ekki betur, en að það sé undantekningarlaust skilyrði alstaðar, að þingmaður verði að eiga heima innan takmarka þess landa, sem hann að semja lög fyrir. Það nær ekki nokkurri átt, að gera undantekningu vegna eins manns, þótt svo vilji til, að hann eigi sæti á þingbekk nú og sé nýtur maður. Þá yrði líka að láta undantekninguna ná til allra þeirra, sem kjörgengi eiga hér og nú búa í Danmörku. Þá fyrst væru þeir sjálfum sér samkvæmir, sem þetta leggja til.

Þetta voru nú þau atriði, sem fyrirvari minn nánara var miðaður við. Að öðru leyti fylgdumst vér meiri hluta menn að málum. En ef framgangur máleins ylti t. d. á einhverjum smáatriðum viðvíkjandi skipun Ed., eða kosningarétti vinnumanna og kvenna, þá mundi eg þó verða fáanlegur til þess, að gera þar nokkrar tilslakanir, enda þótt eg álíti, að hömlur séu nauðsynlegar, ef við ekki ætlum okkur að kútveltast alt of mikið fyrst í stað. Háttv. þm. Dal. (B. J.) óttast ekki byltingagirni landa sinna eða tortrygna vanafestu og vill því engum hömlum vita af. En eg er honum ekki samdóma og hygg mig hafa rök fyrir. Eða hvað hyggur háttv. þm. að hefði orðið um ið mikla nauðsynjamál, ritsímann, árið 1905, ef allir hefðu mátt ráða, eigi eingöngu allir, þeir sem þá voru kjósendur, heldur og allur sægurinn af nýjum kjósendum? Afleiðingin hefði vitanlega orðið sú, að enn væri enginn símaspotti til í landinu.

Þá hefði líklega heldur enginn maður náð kosningu, af þeim sem meðmæltir voru millil. samningnum. Þess vegna er full þörf á því, að binda svo um, að kjósendaflóðið komi ekki alt í einu.

Og úr því að á að afnema kgkj. þm., þá riður á að tryggja sem bezt skipun Ed., altjent jafnmarga og þar eru nú margir konungkjörnir. Það gæti komið til mála, að stytta tímann, sem ætlast er til að líði þangað til allir nýir kjósendur, sem náð hafa lögaldri, komast að, eða t.d. að inir hlutfallskosnu þm. í Ed. verði kosnir í fleiri en einu kjördæmi, t.d. 4 fjórðungskjördæmum, eða eitthvað annað þessu líkt. Því að þótt slakað væri til í þessu, þá væri þó grundvellinum haldið.

Þá skal eg víkja nokkrum orðum að ræðum hæstv. ráðherra og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). — Hæstv. ráðherra lét það í ljós, að eftir atvikum væri réttast að láta málið bíða, og þótt hann færði ekki ástæðu fyrir því, þá skildist mér að hann bygði þá skoðun sína aðallega eða eingöngu á því, að konungi hefði enn eigi gefist kostur á að láta uppi álit sitt á málinu, sérstaklega um breytinguna á ákvæðinu um uppburð mála fyrir konungi. Hæstv. ráðherra játaði þó, að hér væri um tilslökun að ræða frá frumv. 1911, og að hún ætti að gefa von um það, að konungur myndi fallast á þessa breytingu, ef málið væri rækilega sótt og skulum við ætla, að svo verði. Annars vil eg mega minna hv. ráðherra á það, að þetta frumv. hefði gjarnan mátt vera stjórnarfrumv., hefði jafnvel átt að vera það eftir undirbúningi, þeim sem það hafði fengið 1911 og undirtektum Alþingis 1912 undir sambands- og Stjórnarskrármálið; því að það, að stj.skrársamþykt var frestað í fyrra, bygðist eingöngu á því, að þá þóttust menn hafa góðar vonir um framgang sambandsmálsins. En það vakti fyrir mönnum, að ef það mál fengi ekki góðar undirtektir hjá Dönum, þá yrði frv. til breytinga á stjórnarskránni tekið upp af stjórninni.

Annars er egg þessara sífeldu spádóma um misjafnar undirtektir konungs vors og Dana, sem ef til vill er ætlað að draga þar úr Alþingi til frumkvæðis að lögum, vonandi farin að sljóvgast, enda mundi afleiðingin verða sú, ef að stýrinu væri látið, að Alþingi segði ekki annað en já og amen við uppástungum atjórnarinnar. Stjórnarskrársamþykt nú er og þegar af þeim ástæðum æskileg, að það mun hvorki vera tilhlökkunarefni fyrir þing né stjórn, að mæta hvort öðru óbreyttu.

Þá þótti hæstv. ráðherra það óráð, að stytta kjörtímabilið til Nd. En hins lét hann ógetið, að kjörtímabil Ed. á að verða 8 ár, þó svo, að helmingur þingmanna fari frá eftir 4 ár, að dæmi margra erlendra ríkja.

Háttv. þm. N.- Ísf. (Sk. Th.) var fyrst og fremst óánægður með það, að stjórnarskráin skuli ekki gera ráð fyrir nema einum ráðh. En hann gætti þess ekki, að ráðherratölunni má breyta með einföldum lögum. Ef það reynist, að þörf sé á fleirum, þá ætti Alþingi og konungi eins vel að vera trúandi til þess í sameiningu, að koma því í kring, eins og konungi einum. Háttv. þm. ætlaði sem sé konungi einum að gera út um það með ráðherra sínum, en það vald vil eg ekki leggja í hendur ráðherra. Það er ekki lítið í húfi hér, fjárhagslega, og ráðherrafjölgunin myndi draga meiri dilk á eftir sér, en háttv. þingm. sagði. Laun þriggja ráðherra yrðu meiri en laun ráðherra og landritara eru nú, og svo þyrfti líklega nýja byggingu undir jafnstórt skrifstofubákn og aukinn skrifukostnað. En hins vegar eru kostirnir ekki miklir. Aðalástæðan sem hv. þm. hafði fram að bera, var sú, að þá yrði síður hætta á því, að stjórnin misbeitti valdi sínu, en undir þann leka er sett með því, að aukaþing skal halda, ef meiri hlutinn vill svo vera láta. Hitt er álitamál, hvort stjórnin verður þekkingarmeiri, ef ráðherrum er fjölgað. Það þarf ekki að vera. Ráðherrar eru sjaldnast valdir eftir þekkingu.

Þá átaldi háttv. þm. það ákvæði, að stjórnin skuli geta vikið embættismönnum eftir sem áður frá, án undangengins dóms: Mér skilst nú samt, að þetta ákvæði verði að haldast, svo framarlega sem ekki á að varpa burtu þeim hyrningarsteini undir þingbundinni konungsstjórn, að ráðherra beri ábyrgð á öllum gerðum embættismanna. Ef ráðherra á að bera þá ábyrgð, þá verður hann að ráða því, hve lengi hann lætur þessa meðhjálpara sína sitja í embætti. Enda er ekki svo, sem afsetningarmál sé tekin undan dómsvaldinu, því að hver embættismaður með eftirlaunarétti á rétt á því, að fara í mál, ef honum er vikið frá embætti án eftirlauna. Auk þess mætti fá Alþingi til þess, að kæra ráðherra eftir ráðherraábyrgðarlögunum.

Sami háttv. þm. var á móti skipun efri deildar eins og frumv. gerir ráð fyrir henni, af því að honum þótti þar stofnað til of mikils íhalds, en það nær engri átt og er að minsta kosti ekkert á borð við íhald það og ýmis óþægindi, sem leiðir af konungkjörinu.

Svo tók hann í sama strenginn og háttv. þm. Borgf. (gr. J.) um þingsetu dómara, en því hefi eg þegar svarað, enda voru ástæður hans inar sömu og hjá hv. þm. Borgf., en færri þó.

Eg endurtek það, að þótt eg greiði atkvæði með öllum tillögnu meiri hlutans, nema bráðabirgðaákvæðunum, þá er ekki þar með sagt, að eg vilji ekki slaka eitthvað til síðar um skipun Ed. eða kosningarréttinn, þótt eg hins vegar muni aldrei ganga eins langt í því og háttv. þm. Dal. (B. J.).