21.08.1913
Neðri deild: 40. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í C-deild Alþingistíðinda. (1108)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Guðmundur Eggerz:

Mér verður fyrst fyrir eina og háttv. þm. Ak. (M. K.) að athuga, hvort það sé vilji þjóðarinnar að samþykkja nú stjórnarskrárbreytingu. Eins og menn muna, var samþykt tillaga til þingsályktunar á þinginu 1909 um að skora á stjórnina að leggja fyrir þingið frv. til stjórnarskipunarlaga, og þar voru tekin fram helztu atriðin, sem menn höfðu orðið ásáttir um. Þessi atriði voru: heimild til að fjölga ráðherrum, afnám konungkjörinna þingmanna, að veita konum kosningarrétt og rýmka kosningarréttinn að öðru leyti, og aðskilnaður ríkis og kirkju. Þegar fyrsti liðurinn er undanskilinn, má segja, að öll hin atriðin séu áhugamál þjóðarinnar, og sérstaklega er það öllum kunnugt, að þjóðin vili fá þá konungkjörnu afnumda, því að það er engum efa bundið, að almenningur er orðinn leiður á konungkjörnu sveitinni. En þó að þetta gerðist í stjórnarakrármálinu 1909, þá er það nú í 1913 ekki komið lengra áleiðis en þetta. Fyrir mér vakir það, að ekki sé eftir neinu að bíða, því að sambandsmálið er í því horfi, að menn munu verða orðnir langleitir eftir stjórnarskrárbreytingunni, ef hún á að bíða þangað til samkomulag fæst á milli Dana og Íslendinga í sambandamálinu. Eg tel því sjálfsagt að greiða fyrir því, að málið gangi í gegnum deildina. Eg fyrir mitt leyti get fallist á frumv. með þeim breytingum, sem meiri hluti nefndarinnar hefir gert á því í flestum atriðum. Eg skal að eins minnast á það atriðið, sem mér er einna lakast við. Um þau atriðin, sem eg er meiri hlutanum sammála um, þarf eg ekki að vera langorður. Eg skal taka fram, að eg get fallist á þá leið, sem farin er, að því er ríkisráðsákvæðið snertir. Það fann eg þegar í byrjun, að hér var úr vöndu að ráða um þetta atriði. Eg hefði ekki getað gengið inn á, að ákvæðið væri tekið upp óbreytt frá frá 1903, að málin skyldu borin upp í ríkisráðinu. En nú fer nefndin fram á að þau skuli borin upp þar sem konungur ákveður. Þetta er í sjálfu sér andi frumvarpsins frá 1911 Það var ekki rétt að ákveða á ráðherrunum skyldi fjölga, en mér líkar vel að þessu megi breyta með lögum.

Skipun efri deildar er það ákvæðið, sem eg felli mig verst við. Eins og menn vita, leggur meiri hluti nefndarinnar til, að öll deildin, 14 menn, séu kosnir til 8 ára, þannig, að helmingurinn fari frá fjórða hvert ár, skuli kosnir hlutfallskosningum um land alt. Þetta þykir mér viðsjárvert atriði. Eg kannast að vísu við, að þegar kosningarrétt urinn er aukinn eins og hér er farið fram á, þá sé nauðsynlegt að skipun efri deildar sé svo háttað, að hún verði nokkru líklegri til íhalds en neðri deildin. En því takmarki er þegar að nokkru leyti náð með því ákvæði, að til þeirrar deildarinnar séu menn kosnir til 8 ára í senn og að kosningarrétt til hennar hafi þeir einir, er náð hafa 35 ára aldri. Í sjálfu sér verða það eldri þektir stjórnmálamenn, sem í efri deildina veljast, hvernig svo sem þeir verða kosnir, hvort heldur með hlutfallskosningu eða á annan hátt. Ef þessu ákvæði nefndarinnar verður haldið, er eg hræddur um að efri deildin verði kaupstaðaþing eða jafnvel Reykjavíkurþing. Eg veiti ekki, hvernig kjósendur úti í sveitunum eiga að njóta sín í þessum kosningum. Í kaupstöðunum eiga menn hægara með að ná saman og koma sér saman um, hverja þeir eigi að setja á listana. En í sveitunum eiga menn erfiðara með þetta. Afleiðingin verður því sú, eins og mér líka heyrðist háttv. framsögum. meiri hlutans (J. M.) búast við, að efri deild verður skipuð kaupstaðamönnum og þó aðallega mönnum úr Reykjavík.

Því hefir verið haldið fram, að þessir menn, sem þannig væru kosnir, mundu ekki skoða sig sem fulltrúa neina sérstaks kjördæmis, heldur sem fulltrúa alls landsins. Það er nokkuð til í þessu, það skal eg fúslega játa. En þó er eg hræddur um, að ef þessi deild ætti að greiða atkvæði um eitthvert stórmál, sem snerti Reykjavík, þá gæti svo farið, að hún hallaðist fremur á þá sveifina, er hagur bæjarins heimtaði. Við höfum dæmin fyrir okkur. Það er ekki langt síðan að þingið lagði fram stórfé til hafnarinnar hér í Reykjavík. Og það eru sumir, sem ætla, að sú fjárveiting hefði aldrei gengið fram, ef helmingar allra þingmanna hefði ekki Verið búsettur í Reykjavík. (Bjarni Jónsson: Það er vitleysa). Eg hefi ástæðu til að taka þetta fram um höfnina, því að háttv. þm. Vestm. (J. M.) gat þess hér í deildinni, um daginn, að höfnin mundi sliga bæinn, ef járnbrautin kæmist ekki á. En eins og nýlega var tekið fram, átti helmingur þingmanna heima í Reykjavík, þegar þingið réðst í hafnarbygginguna eða lagði grundvöllinn undir hana.

Það mun einhver segja, að það sé einungis um hreppapólitík að ræða frá minni hlið. Eg veit ekki, hvort það getur heitið hreppapólitík, eg held að það sé einmitt eðlileg og sanngjörn pólitík, að séð verði um, að nokkurn veginn jafnræði verði á milli kaupstaða og sveita. Við sem búum upp í sveit þurfum líka að lifa.

Enn er það að athuga, að líklegt er að fækka þurfi kjördæmunum, ef þetta fyrirkomulag kemst á. En það mundi verða óvinsælt og vekja mikla óánægju á meðal landamanna eins og háttv. þm. Ak. (M gr.) tók fram. (Lárus H. Bjarnason: Það þarf ekki að fækka kjördæmunum). Þá þarf að fækka þingmönnunum, og það kemur alveg í sama atað niður. Því að hvaða kjördæmi á landinu vill sleppa sínum þingmanni og fá í staðinn örlítinn part af Reykjavíkurþingmanni, ekki stærri en sem svarar nöglinni á litlafingrinum á honum. Reykjavík mundi eiga allan hinn hluta skrokksins og sálina með. Fyrir þessa sök, get eg fremur fallist á breytingu minni hlutans, að 6 þingmennirnir verði , kosnir með hlutfallskosningu til Ed , en að öðru leyti verði skipað í hana eins og nú er gert. Eg skal reyndar játa, að mér fellur þetta heldur ekki vel í geð. Þetta er eiginlega »principleysi« sem minni hlutinn fer fram á. En þegar á að velja um tvær leiðir og manni geðjast hvorug, þá verður maður þó heldur að velja þá skárri. Eg býst við því, að fleiri en eg verði óánægðir með þessa skipun Ed. og mun eg verða fús til samvinnu, ef til breytinga kemur, sökum þess að eg vil greiða sem bezt fyrir máilnu — stjórnarskrárbreytingunni í heild sinni.