22.08.1913
Neðri deild: 41. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í C-deild Alþingistíðinda. (1120)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór Steinsson:

Á síðustu árum hefir verið rætt og ritað um þetta mál meir en nokkurt annað, að Sambandsmálinu undanskildu. Það mætti því búast við því, að landsmenn væru orðnir nokkurnvegin sammála í því, hverjar breytingar á núgildandi stjórnarskrá þeir teldu nauðsynlegar. En því fer fjarri að svo sé. Raunar má segja, að menn séu sammála um nokkrar minniháttar breytingar á stjórnarskránni, en um þýðingarmestu atriðin, svo sem um tölu ráðherra, skipuð efri deildar og rýmkun kosningarréttarins eru mjög skiftar skoðanir, svo skiftar og gagnstæðar, að það er með engu móti hægt að átta sig á, hver sé inn sanni vilji þjóðarinnar í því efni.

Þetta mál er svo vandasamt og þýðingarmikið, að það má sannarlega ekki hrapa að því, og eg fyrir mitt leyti lít svo á, að það hefði verið meiri ástæða til að skipa milliþinganefnd í það en nokkurt annað mál, sem hefir verið á dagskrá þjóðarinnar þessi síðustu ár. En þar sem það á hinn bóginn virðist vera vilji mikils meiri hluta þjóðarinnar, að málið nái fram að ganga á þessu þingi, þá álít eg, eftir atvikum, rétt að það fái framgang og mun því greiða því atkvæði mitt, ef það kemst í það horf, sem eg tel nokkurn veginn viðkunanlegt.

Eg skal svo snúa mér að einstöku greinum frumvarpsins og breytingartillögum meiri og minni hluta nefndarinnar við þær.

Við fyrstu grein frumv. vill meiri hl. nefndarinnar gera 2 mikilvægar breytingar og tel eg þær báðar til bóta; þar er ákveðið, að ráðherra skuli bera málin upp fyrir konung þar sem hann ákveður. Eg hygg, að hér sé farin heppileg leið til að leysa úr ríkisráðsákvæðinu, sem svo mikið hefir verið deilt um. Hitt er annað mál, hvort staðfesting konungs mundi fást á þessu atriði; á því getur, ef til vill, leikið nokkur vafi, en hitt blandast engum hugur um eftir yfirlýsingu ráðherra í þingbyrjun 1912, að algerð úrfelling ríkisráðsákvæðisins, eins og minni hluti nefndarinnar fer fram á; yrði til þess, að stjórnarskrárbreyting með því ákvæði fengi ekki eins og stendur staðfestingu konungs.

Þá leggur meiri hluti nefndarinnar til, að tölu ráðherra megi breyta með lögum, Þetta ákvæði tel eg einnig til bóta. Það hefir verið talsverður ágreiningur um það, hvort ráðherrar skyldu vera einn eða fleiri. en ef það má ákveða með einföldum lögum, ætti Sá ágreiningur að hverfa.

Eg get einnig aðhylst breytingatillögur meiri hluta nefndarinnar við 4., 5., 6. og 8. gr. frumvarpsins. Sérstaklega tel eg nauðsynlega þá breytingu við 6. gr. frumvarpsins, að þingrof nái að eins til Nd. Það er nauðsynlegt, að einhver festa sé í Ed., en sú festa gæti ekki átt sér stað, ef þingrof ætti að ná til beggja deilda.

Þá kem eg að 9. gr. frv. Þar skiljast mínir vegir og vegir meiri hluta nefndarinnar. Að vísu get eg felt mig við þá tölu þingmanna, sem þar er farið fram á, sem sé 26 í neðri deild og 14 í efri deild, en þar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, að allir þingmenn efri deildar skuli kosnir hlutfallskosningum um alt land, þá er eg þar alveg á gagnstæðri skoðun. Eg hygg, að þær kosningar mundu ekki sýna það, sem þær ættu að sýna, vilja kjósenda um alt land; heldur það sem þær ættu ekki að sýna, vilja annarra manna fjarri kjósendunum.

En þar sem þessi kosningaraðferð hins vegar hefir verið tekin upp annarstaðar og þótt reynast nokkurn veginn, þá mundi eg fyrir mitt leyti geta felt mig við, að 4–7 af þingmönnum efri deildar væru kosnir hlutfallskosningum, en hinir úr sameinuðu þingi. Með því móti mætti fá reynslu, fyrir, hvernig hlutfallskosningar gæfust hér á landi, en að kjósa alla deildina á þann hátt, það mundi, ef illa tækist, verða alt of dýrkeypt reynsla.

Þá get eg ekki felt mig við 10. gr. frumv. Þar er farið fram á, að þingmenn skuli kosnir til 4 ára í stað 6, eina og nú er. Eg álít, að kjörtími þingmanna megi ekki vera styttri en 6 ár, því að eg hygg, að þeim nægi ekki minni tími yfirleitt til að verða vel vaxnir starfi sínu.

11. gr. frumv. ræðir um kosningarrétt til Alþingis. Þar skilur mikið meiri og minni hluta nefndarinnar. Eg verð að segja, að eg álít þar tillögur meiri hlutans mikið aðgengilegri. Ef á annað borð á að rýmka kosningarréttinn frá því sem nú er, þá álit eg hyggilegra, að taka ekki stórt stökk í einu, heldur smáfæra sig upp á skaftið eins og hér er farið fram á. Það eru yfir höfuð talavert skiftar skoðanir landsmanna á því, hvort og að hve miklu leyti beri að rýmka kosningarrétt til Alþingis, og er því síður ráðlegt að fara geist af stað í því efni.

Í 20. gr. frumv. er ákveðið, að enginn sé skyldur að inna af hendi persónuleg gjöld til annarar guðsdýrkunar en hann sjálfur aðhyllist. Þetta verð eg að álita rétt og nauðsynlegt ákvæði. Aftur get eg ekki felt mig við breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við þessa grein, er fer fram á, að utanþjóðkirkjumenn skuli gjalda til háskóla Íslands eða einhverra styrktarsjóða það gjald, sem þeim ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar. Það er í sjálfu sér jafn ranglátt og óeðlilegt að maður utan þjóðkirkjunnar inni af hendi gjald fyrir þá guðsdýrkun, er þar fer fram, hvort sem þau eru borguð kirkjunni, háskóla Íslands eða einhverjum styrktarsjóð, enda hygg eg að ef þetta á að vera skyldugjald, þá sé mönnum nokkurn veginn sama, hvert það rennur, og ekki óljúfara að greiða það í kirkjusjóð en aðra sjóði.

Við aðrar greinar frumv. hefi eg ekkert sérlegt að athuga, en aðhyllist yfirleitt breytingatillögur meiri hluta nefndarinnar við þær.

Eg mun, sem sagt, greiða frumv. atkvæði mitt til 3. umræðu í þeirri von, að nokkrar breytingar verði gerðar á því, sem gerir það aðgengilegra en það nú er.