23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í C-deild Alþingistíðinda. (1136)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Kristján Jónsson :

Eg á eina brt. við þennan kafla fjárlaganna á þgskj. 502, Sem fer í þá átt, að hækka styrkinn til mótorbátsferða á Hvítá í Borgarfirði upp í 800 kr. Til þessa hefir áður verið lagt í 50 kr. ef landsfé. Stjórnin hefir lagt til, að þessi styrkur yrði lækkaður ofan í 600 kr. Og nú hefir samgöngumálanefndin lagt til að lækka styrkinn enn niður í 400 kr. Eg verð nú að segja það, að þessi lækkunartillaga er ekki á neinum rökum bygð, heldur er hún alveg út í bláinn. Mér dettur ekki í hug að álasa háttv. samgöngumálanefnd fyrir þessa tilögu sína, því að eg veit að hún stafar af ókunnugleika. Eg hefi líka talað við suma af háttv. nefndarmönnum síðan eg vissi af tillögunni, og telja þeir sig ekki ófúsa á að vera með einhverri hækkun á framlaginu.

Þörfin á reglubundnum mótorbátsferðum eftir Hvítá til og frá Borgarnesi er áreiðanlega mikil. Hvítá er mikið vatnsfali. Víðast ófær nema á ferju. Enda engin vöð á henni nema Langholtsvað, sem þó varla má Vað heita, því að það er orðið nær ófært. Brú er heldur engin á ánni fyrri en uppi á Kláffossi, sem er fyrir ofan Deildartungu, fyrir ofan alla aðalbygð héraðsins. Áin er því mikill farartálmi fyrir þá sem búa sunnan við hana og neðar en Kláffossbrú, og þeir er margir, er byggja þetta blómlega hérað; er umferð þar in mesta, og vöruflutningaþörf mikil, og er því sannarlega þörf á að létt sé fyrir henni. Við Borgarfjörð eru engar hafnir, nema þessi í Borgarnesi, ef höfn skal kalla. Flutningabraut Borgarfjarðar kemur heldur ekki að gagni fyrir menn, sem búa á því svæði, sunnan Hvítár, því að hún liggur öll í Mýrasýslu norðan árinnar upp að Kláffossbrú. Héraðsmenn eru því neyddir til að flytja vörur sínar eftir Hvítá.

Þörfin fyrir flutningabót er svo mikil, að það hefir verið skorað á mig að koma því til vegar við þingið, að brú yrði bygð á Hvítá neðarlega hjá Ferjukoti, en eg hefi enn ekki farið fram á það, séð að það mundi verða árangurslaust. Hitt sýnist mér fjarri allri sanngirni, að fara að lækka þennan litla styrk, þar sem þörfin er svo brýn. Leiðin, sem mótorbáturinn verður að fara, er vond, því að áin breytir sér sífelt, svo að sandrif eru komin eftir stuttan tíma þar sem álar voru áður. Af þessu leiðir aftur, að erfitt er að fá báta til þess að halda uppi þessum ferðum. Ef tillagið verður lækkað, verður vafalaust að hætta ferðunum, og er það mikill skaði fyrir héraðið.

Mér virðist nú það vera sjálfsagt að það eigi að fella tillögu samgöngumálanefndarinnar, og eg vona að það verði gert. Ef þingið hins vegar sér sér ekki fært að samþykkja mína tillögu, þá vona eg það að minsta kosti samþykki þó tillögu stjórnarinnar. Eg vænti þess, að þingið liti vingjarnlega á þessa fjárbón mína og athugi, að það er smáræði eitt, sem eg hefi farið fram á í fjárveitingarakyni til handa mínu kjördæmi, svo að það verður eigi talinn vottur um heimtufrekju, er eg fer fram á að þetta lítilræði sé veitt til nauðsynjafyrirtækis í héraðinu.