23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í C-deild Alþingistíðinda. (1137)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónsson:

Eg skal ekki lengja umræður. Hér liggja fyrir 2 brtill., sem eg er við riðinn.

Skal eg fyrst snúa mér að brtill. á þgskj. 541, um að styrkur verði veittur til kaupfélaganna Heklu og Ingólfs til að halda uppi vöruflutningum á sjálfrenningum um Árnes- og Rangárvallasýslu, 4000 kr. f. á. Beiðni um þetta var fyrst í gær lögð fram á lestrarsalinn, og býst eg því ekki við að háttv. þingdeildarmenn hafi kynt sér hana. Vil eg því með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp — hefi hana hér með höndum. (Forseti: Leyfilegt). [Upplestur].

Nú hefir verið tekinn inn á fjárlögin styrktur til Sveins Oddssonar til að halda uppi mótorvagnaferðum frá Rvík austur. Forstöðumenn þessara kaupfélaga skuldbinda sig til þess að sjálfrenningur þeirra skuli bera að minsta kosti 2000 pd., eða hálfu meira heldur en Sveins Oddssonar. Þeir skuldbinda sig til að haga gjaldinu eftir gjaldakrá, sem stjórnarráðið samþykki. Sömuleiðis ferðaáætlun eftir samþykki stjórnarráðsins. Það er alkunnugt að á vorin liggur oft snjór á Hellisheiði, svo að vögnum er ekki unt við að koma. þetta þarf ekki að óttast á Vegunum frá Stokkseyri og Eyrarbakka um Árnes- og Rangárvallasýslur. Þess vegna geta sjálfrenningsferðir byrjað þar miklu fyr.

Eg álít, að þessi beiðni sé að minsta kosti eins sanngjörn og beiðni Sveins Oddssonar, að honum ólöstuðum. Mér er óhætt að fullyrða það, að í byrjun Maí er alstaðar orðið snjólaust á bygðu bóli í austursýslunum, en þá liggur oft þungur snjór á Hellisheiði. Um þann tíma árs er hættast við að hestar bænda séu magrir og illa færir um að draga þunga vagna. Auk þess verður flutningsgjaldið ódýrara frá Stokkseyri og Eyrarbakka en frá Reykjavík.

Háttv. framsögum. sagði ekki ástæðu til að gera nema eina tilraun um þetta. Eg er samþykkur því, að óheppilegt sé að gera tilraunir víðs vegar um landið, en ef nokkurstaðar á að gera slíkar tilraunir, álít eg að byrja eigi frá Eyrarbakka og Stokkseyri, miklu fremur en héðan úr Reykjavík, af framangreindri ástæðu.

Þá er brtill. á þgskj. 527, um 1000 kr. viðurkenning til handa fyrverandi alþingismanni Þorvaldi Björnssyni. Hv. þingm. N.-Þing. hefir nú mælt með þessari tillögu. Á þinginu 1909 kom líka fram tillaga um þetta. Menn könnuðust við verðleika hans þá, en strykaður var hann út af fjárlögunum þá. Hér á í hlut mesti búnaðarfrömuður. Var hann um eitt skeið einn inn mesti bóndi í Rangárvallasýslu og rausnarmaður inn mesti. Síðan flutti hann hingað til Reykjavíkur og komst í efnaþrot. Er hann nú áttræður að aldri. Það er kallað nauðsynlegt að verðlauna skáld og listamenn. En hví má þá ekki verðlauna þá bændur, sem landinu hafa orðið til nytsemdar og sæmdar ? Hví þarf þingið að skammast ein fyrir það ? Eg vil benda mönnum á að lesa Alþt. 1909, B. bls. 335–336. Þar er að finna ummæli um þennan mann og eru þau að öllu sönn. Þar er hann talinn einn af merkustu bændum þessa lands, gestrisinn og hjálpfús öllum framar. 40 stórgripi hefir hann gefið fátækum í sinni búskapartíð, og í hallærinu 1882 varð hann hjálparhella margra fátækra heimila. Eg sé ekki betur en að slíka menn eigi að heiðra, og eg veit, að honum mundi þykja vænt um í elli sinni að þingið sýndi honum sóma með því að veita honum þessa litlu upphæð, og fáir mundu þeir vera, sem teldu hana eftir, sem annars þekkja hann og hans afrek. Enn hefir Þorvaldur sýnt stórmensku, þótt aldraður Sé og féþurfi, með því að láta gera stórkostlega fyrirhleðslu á Svarðbælisá, sem hægt væri að lýsa frekara ef þörf sýndist. Eg vona, að deildin sinni þessari tillögu.