23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í C-deild Alþingistíðinda. (1138)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Jónsson:

Eg stend upp til þess að fara nokkurum orðum um þá einu brtill., sem eg er riðinn við nú. Hún er á þgskj. 534, flutt af mér og háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.). Breyt.till. fer fram á það að hækka styrkinn til Íþróttasambanda Íslands um 500 krónur fyrra árið.

Háttv. þingm. N.-Þing. hefir minst á breyt.till. og getið þess, að styrkhækkunin sé aðallega ætluð til þess að Íþróttasambandið geti miðlað Erlingi Pálssyni styrk nokkurn til utanfarar. Nefndin hefir getið þessa í áliti sínu, en telur, að Íþróttasambandið geti kostað Erling til utanfarar án aukins styrks. En af svo lítilli upphæð, sem sambandinu er ætlað í fjárlögunum, getur það ekkert miðlað Erlingi. Því veitir sannarlega ekki af þeim styrk til þess að halda í horfinu íþróttum hérlendis; dugir þar ekki að slaka til, ef framfarir og líf á að haldast í íþróttunum.

Það hefir verið tekið fram hér í dag, að Erlingur er efnilegur maður í sinni íþrótt, svo að með afbrigðum má heita.

Til samanburðar skal eg geta þess, að hann er ekki að eins langfremsti sundmaður hérlendra manna, heldur jafnast hann á við fremstu sundmenn sumra þjóða annara. Hann hefir synt hér 500 stikna sund á 8. mín. 23 sek. En sundmeistari Dana, Saxtorph, synti 1908 sömu Vegarlengd á 8 mín. 43 sek., en ári síðar á 8 min. 132/5 sek., og hefir það sund hraðast synt verið í Danmörku, Þess er enn að gæta, að þá er Erlingur synti sundið, það er áður getur, hafði hann engan við að keppa og varð að snúa við, í rétt horn, 43 sinnum, og dró það mjög úr hraðanum. Um svo efnilegan mann er það ekki að undra, að hann fýsi utan að læra framar íþrótt sína en hér er kostur. Er það ætlun hana að gerast síðan kennari hér. Eg þarf ekki á að benda, hver nauðsyn ber til að hafa hér vel hæfan kennara í þessari íþrótt. Er hér um þá íþrótt að ræða, sem eigi að eins er fögur, holl og gagnleg, heldur á fjöldi manna líf sitt undir því að kunna þá íþrótt, ekki sízt sjómennirnir. Oft er um það talað hér, að brúa þurfi ár, vegna mannhættu, og varið til þess svo að hundruðum þúsunda kr. skiftir; tel eg það eigi eftir. En í sambandi við það verður ekki talið til mikils mælst, þótt farið sé fram á 500 kr. til þessarar íþróttar, sem verða má til að afstýra dauða margra manna. Er mönnum hentugt að kunna sundtökin, þegar svo ber að, sem oft kann verða, að menn losast við hesta í vötnum, mönnum hlekkist á á sjó o.s.frv.

Að svo mæltu vænti eg þess, að deildin láti sér eigi í augum vaxa svo smáa upphæð og samþykki tillöguna.