23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í C-deild Alþingistíðinda. (1146)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Sigurðsson:

Þó að umræður séu nú orðnar nokkuð langar, get eg ekki leitt hjá mér að segja nokkur orð.

Fyrst vil eg þá víkja að breyt.till. á þskj. 560, frá mér og háttv. 1. þm. N.Múl. og brtill. fjárlaganefndar á þskj. 557. Um sjálfa brt. fjálaganefndar, þar sem hún vill færa alla unglingaskóla saman í eitt, er í rauninni ekkert að segja, og eg er með henni. En fyrir sögnina má skilja þannig, sem þetta eigi Við alla mögulega unglinga- og lýðskóla, sem kunna að verða stofnaðir í Rvík. og öðrum fjölmennum kaupstöðum. En við nánari athugun sáum við sumir, að þetta gæti leitt heldur langt, og ef til vill orðið til þess að styrkurinn til unglingaskólanna færi aðallega til skóla í stærri kaupatöðum t. d. í Reykjavík, og yrði til þess að ýta undir menn, að stofna þar fleiri skóla. Þess vegna förum við fram á í breytingartillögu okkar, að í stað fyrirsagnarinnar: Til unglingaskóla (lýðskóla) komi: Til unglingaskóla (lýðskóla) utan Reykjavíkur, Akureyrar og Hafnarfjarðar. Aðalástæðan fyrir breytingartillögunni er fyrst og fremst sú, að hér í Reykjavík er talið að þrír neðri bekkir Mentaskólans sé eins konar gagnfræðaskóli, þar sem bæði bæjarmönnum og utanbæjarmönnum gefst kostur á að stunda nám. Á Akureyri er líka gagnfræðaskóli mjög fullkominn og í Hafnarfirði er að minsta kosti góður unglingaskóli, sem sé Flensborgarskólinn. Þessir skólar allir njóta styrks á fjárlögunum. Það getur því ekki talist mikil nauðsyn, að stofna fleiri slíka skóla, hvorki á Akureyri né í Hafnarfirði. Hins vegar skal eg ekki neita því, að hér í Reykjavík er talsverð hreyfing í þá átt að stofna unglingaskóla. Hér eru áreiðanlega til tveir slíkir skólar, skólinn í Bergstaðastræti og annar til, sem haldið er uppi af konu hér í bænum. Væri nú þessi atyrkur látinn ná til allra unglingaskóla, jafnt hér í Reykjavík og annarstaðar, er hætt við að það ýtti undir að fleiri slíkir skólar yrðu stofnaðir hér, og þá mundi fara svo, að meiri hluti styrksins rynni til Reykjavíkur. En upphaflega var tilætlunin sú, að hann gengi aðallega til unglingaskóla úti um land. Þetta höfum við fyrir augum, er við ráðum til þess að það sé takmarkað, hvar skólarnir megi vera, til þess að geta notið styrksins. Hins vegar áleit fjárlaganefndin rétt, að koma slíkum skólum sem Hvítárbakkaskólanum og skólunum á Ísafirði og Seyðisfirði undir eitt, svo að þeir komi undir eftirlit fræðslumálastjórans og njóti styrks af því fé, sem veitt er til unglingaskóla.

Eg vona að menn sjái, hvert breytingartillaga okkar á þskj. 560 stefnir, og verði við búnir að greiða henni atkvæði á sínum tíma, er til atkvæðagreiðslunnar kemur.

Þá ætla eg í sambandi við breytingartillögur fjárlaganefndarinnar, að leyfa mér að vekja athygli háttv. deildar á 3. lið í breytingartillögum hennar á þskj. 557, viðvíkjandi aukinni fjárveitingu til verkfræðislegrar aðstoðar við áætlanir og mælingar á ýmis konar stærri vatnsvirkjum. Hækkunin nemur 2700 kr. og er að eins síðara árið, úr 4000 kr. upp í 6700 kr. Háttv. framsögum. fjárlaganefndarinnar gerði að vísu grein fyrir þessu í fyrstu ræðu sinni og háttv. þm. Dal. (B. J.) tók vel í þetta. Eg vildi að eins undirstrika það sem þessir hv. þingmenn hafa sagt, og vænti eg að tillagan fái góðan byr í deildinni.

Upphaflega var ætlast til þess, að fenginn væri sérstakur vatnsvirkjafróður verkfræðingur, sem hefði yfirumsjón með slíkum verkum. Á þetta rót sína sína að rekja til síðasta Búnaðarþings, sem beindi áskorun þess efnis til Alþingis. Þörfin á slíkum manni verður æ brýnni með hverju ári. Það liggur margt við borð, sem þarf að skoða og krefst þess að sérstaklega vatnavirkjafróður verkfræðingur geri mælingar og áætlanir um það.

Af því sem gera þarf í þessu efni, get eg nefnt t. d. að víða þarf að varna skemdum af vötnum í Rangárvallasýslu. Þá er in fyrirhugaða Flóaákveita og margt fleira. Á Norðurlandi liggja sömuleiðis slík fyrirtæki í loftinu. Víða verða þar miklar skemdir af vatnságangi, og mundi það heyra undir þennan mann, að ráða bót á því. Nefna má það t. d. að ráðgert er að koma á stórkostlegri vatnsveitingu í Skagafirði, og enn má minna á það í þessu sambandi, að Ytri-Þverá í Eyjafirði hefir gert þar mikinn skaða á engjum. Er það ekki annara meðfæri en verkfræðinga að fást við annað eins og þetta.

Enn fremur vil eg vekja athygli hv. deildar á því, að samkvæmt tillögu —landsverkfræðingsins, er ekki ætlast til að skipaður verði í þessu skyni sérstakur vatnsvirkjafræðingur, heldur að Iandsverkfræðingnum verði fenginn annar aðstoðarmaður til þess að hann geti sjálfur, eða aðstoðarmenn hans, haft umsjón með þessum fyrirtækjum. Hann gerir grein fyrir því í bréfi til stjórnarráðsins, að það fyrirkomulag mundi verða bæði betra og ódýrara, heldur en að ráðinn yrði sérstakur maður til þess að hafa þetta með höndum.

Þess ber að gæta, að vegagerð og brúargerð annars vegar og vatnsveitingar og skurðagröftur hins vegar eru mjög svo náskyld störf. Má því ætla, að einn og sami maðurinn geti haft till þessi störf með höndum jafnhliða. En það mundi að sjálfsögðu verða til mikill sparnaðar. Að svo mæltu skal eg ekki fjölyrða meira um þetta atriði, en vona að háttv. deildarmenn taki tillögunni vei og greiði henni atkvæði.

Þá á eg viðaukatillögu á þgskj. 506, sem fer fram á að landsstjórninni verði heimilað að lána sýslunefnd Árnessýslu alt að 25 þús. kr. úr viðlagasjóði, ef fé verður til, til þess að koma áveitu úr Þjórsá á Skeiðin. Lánið á að ávaxtast 41/2%. Eg skal ekki fjölyrða um þessa tillögu. Fjárlaganefndin tók liðlega í hana að þessu sinni, og þar sem hún kemur nú fram í breyttri mynd frá því er áður var, bæði vaxtagreiðslan hækkuð og lánið fært niður, þá ætti hún að vera aðgengilegri fyrir ina háttv. deild. Vona eg þess vegna, að hún nái samþykki. Hins vegar gildir ið sama um þessa lánsheimild og aðrar, að til hennar verður ekki tekið nema fé sé fyrir hendi. Mér finst, þegar um viðlagasjóðslán er að ræða, þá verði menn fyrst að líta á., til hvers lánið á að nota. Þegar það á að ganga til þess að auka jarðræktina og þá um leið framleiðsluna í landinu, þá finst mér að slík lán eigi að ganga fyrir öðrum lánum, að eg ekki tali um lán til einstakra manna. Bankarnir hafa lofsamlega hlaupið undir bagga með sjávarútvegi, bæði hjálpað mönnum til þess að koma upp þilskipum og botnvörpungum, en þeir hafa hins vegar lítið gert að því að lána til þess háttar stærri jarðræktarfyrirtækja. Reyndar er þess að gæta, að þau eru ung og í barndómi og ekki heldur mörg enn þá. En þar sem hagur bankanna er ekki svo góður sem skyldi, er það nauðsynlegt, að þingið hlaupi undir bagga og heimili lán til slíkra verklegra fyrirtækja, jafnvel fremur en til nokkurs annars Að öðru leyti skal eg ekki fjölyrða meira um þetta, en eg lít svo á, að tillagan sé fullkomlega réttmæt, og vænti eg liðlegra undirtekta undir hana.

Úr því að eg mintist á lán úr Viðlagasjóði, get eg ekki stilt mig um að minnast á brt. á þgskj. 518 frá háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.).

Tillagan fer fram á, að vextir af flestum lánunum, er koma fyrir í 21. gr., hækki úr 4% upp í 5%. Við þetta hefi eg það að athuga, að lánin í fyrstu 5 liðunum eru smáar uppharðir, en eru hins vegar lán til mjög þarflegra fyrirtækja í landinu. Líka er þess að gæta, að þessar lánsheimildir hafa staðið lengi á fjárlögunum og verið notaðar meira eða minna. Þess vegna væri það dálítið óviðfeldið að fara nú alt í einu að breyta lánskjörunum. Þessir 5 fyrstu liðir gera ráð fyrir að lána megi bændum og samgirðingafélögum til þess að kaupa girðingaefni frá útlöndum, þurrabúðarmönnum utan kaupataða til jarðræktar og húsabóta, og sýslufélögum til símalagningar, til stofnunar smjörbúa og ostabúa og til stofnunar kornforðabúra. Eg vildi helzt mælast til, að háttv. flutnm. breytingartill. vildi taka hana aftur að því er snertir þessa 5 fyrstu liði, svo að hún verði ekki til þess að rugla menn við atkvæðagreiðsluna og þeir þess vegna greiði því atkvæði, sem síður skyldi.

Það hefir mikið verið rætt um tillögur samgöngurnálanefndarinnar viðvíkjandi Eimskipafélaginu tilvonandi. Eg skal ekki fara langt út í þá sálma. En það vildi eg segja, að eg tel það rangt af þinginu, að samþykkja nokkuð það, sem gæti orðið félagsstofnuninni til hnekkis. Félagið er ekki enn komið á fót, og þó að fjársöfnunin hafi eftir atvikum gengið fremur liðlega, þá vantar þó talsvert á að henni sé þegar fullnægt. Eg álít þess vegna, að þingið megi alls ekki á þessu stigi málsins samþykkja neitt það, sem hindrað gæti stofnun félagsins eða gæti gert því erfitt fyrir í byrjuninni. Stofnun Eimskipafélagsins var eitt af því fáa, sem var sameiginleg ósk allra þingmálafunda í landinn, að þingið hlynti sem bezt að. Fyrir því væri það illa gert af þinginu, að setja þau skilyrði fyrir styrknum, er félaginu væru óaðgengileg, eða hrintu því út á aðra braut en það hafði hugsað sér að ganga frá upphafi vega sinna. Félagið hafði það aldrei fyrir augum, að taka að sér strandferðirnar. Fyrst var hugmyndin sú, að kaupa að eins eitt skip til millilandaferða, og síðar, kom mönnum í hug, að takast mætti að kaupa tvö skip. En engum datt í hug, að félagið tæki að sér strandferðirnar þegar í byrjun. Hins vegar er á það að líta, að bráðabirgðastjórnin hefir í bréfi sínu til Alþingis tekið vel, í og talið líklegt — ef samkomulag fengist við landsstjórnina — að félagið mundi innan skamms tíma sjá sér fært að taka að sér strandferðirnar. En að þvinga félagið inn á þá braut, er hættulegt fyrir framgang málsins. Það gæti valdið því, að ýmsir menn, sem hafa skrifað sig fyrir hlutum í félaginu, drægju sig til baka, og afleiðingin yrði þá sú, að félagið kæmist ekki á fót. Mér virðist, að sumir hafi horn í síðu þessa félags, sem enn er þó ekki til. Menn hafa jafnvel látið á sér skiljast, að það liti svo út, sem félagið ætlaði að verða eitthvert hættulegt stórgróðafélag. Eg veit ekki, hvaðan mönnum kemur sá vísdómur. Hins vegar er það ekkert kynlegt — ef félaginu verður annars unt að komast á fót — að það vilji ekki tapa fyrstu árin. Eg fyrir mitt leyti gæti unt félaginu að byrja þannig göngu sína, að mönnum þætti arðvænlegt að eiga fé sitt í því. Og þegar það hefir sýnt sig, að félagið ætlar. að bera sig, þá getur þingið sett því harðari kosti — eða skilyrði. Nú á það ekki við, þar sem félagið er enn ekki komið á laggirnar og því síður séð, hvernig því reiðir af. Eg vil ekki geta þess til, að þessi ýmugustur á móti félaginu eigi rót sína að rekja til þess, að menn vilji blátt áfram eyðileggja félagið áður en það kemst á fót, eða til einhvers enn lakara. Eg vil ekki gera ráð fyrir því. Af þessum ástæðum, sem eg hefi nú greint, mun eg greiða atkvæði með þeim tillögum, sem gera. félaginu auðveldast fyrir að myndast og byrja starfsemi sína.

Þá ætla eg að minnast lítillega á 1. liðinn í tillögum fjárlaganefndarinnar, sem er um það, að veita alt að 900 kr. til útgáfu dýralækningabókar. Háttv. framsögum. (P. J.) mintist á það í dag, og eg ætla að ítreka það aftur, að þetta er að nokkru leyti að eins endurveitning á styrk, sem stendur í fjárlögunum í sama skyni, en ekki kemur til útborgunar fyrir þá sök, að bókin verður ekki tilbúin til prentunar á þessu fjárhagstímabili. Það, að veitingin er aukin, liggur í því, að bókin verður talsvert stærri en gert var ráð fyrir í byrjun. Útgáfa bókarinnar verður því talsvert kostnaðarsöm, ekki sízt fyrir það, að hún verður prýdd mörgum myndum, til skýringar því sem hún ræðir um. Eg vona, að þessi tillaga fái góðan byr í deildinni. Eg þori að fullyrða, að það er ósk almennings að fá handhæga dýralækningabók, sem getur orðið nokkura konar hjálp í viðlögum, að því er dýralækningar snertir.

Áður en eg sezt niður ætla eg að víkja að einni breytingartillögu enn, frá háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.) og hv. þm. Dal. (B. J.) viðvíkjandi því, að veittar verði 5000 kr. til þess að breikka veginn í gömbum og steinlíma ræsi í veginum á milli Reykjavíkur og Ölfusárbrúar. Eg kann þessum tveimur háttv. þingmönnum þakkir fyrir þessa tillögu. Eg skal taka það fram, að hvað sem liður þessum fyrirhuguðum bifreiðum hér austur, þá er viðgerðin á veginum nauðsynleg, alveg án tillits til þeirra. Það hefir oft komið fyrir að vögnum hefir hlekst á, á þessari leið. Póstvagninum hefir hlekst á, að minsta kosti einu einni eða tvisvar, og einstakir menn hafa ekki sjaldan mist vagna sína út af veginum, svo að vagnarnir hafa brotnað, hestarnir meiðst og varningurinn skemst meira eða minna. Þess vegna er brýn þörf á að gera við veginn fyr eða síðar. Það er að vísu ætlað fé til viðhalda þjóðvegum yfirleitt. En reynslan hefir sýnt, að það er alls ónógt, því að víða þarf við að gera. Þó að mikið sé gert til að halda þessum vegi við, þá er hann venjulega slæmur yfirferðar, og haust og vor er hann tíðum svo að segja ófær. Það liggur í því, að ekki var vel til hans vandað upphaflega og svo verður hann fyrir miklum áföllum af vatnságangi. En ekki liggur það sízt í því, að umferðin um hann er svo mikil, að slíka munu ekki dæmi hér á landi. Eg álít þess vegna, að fjárveitingin komi í góðar þarfir, ekki eingöngu vegna sjálfrenninganna, heldur og vegna annara vagna, póstvagnanna, smjörvagnanna o. s. frv. Eg mun því hiklaust greiða tillögunni atkvæði, hvernig svo sem aðstaða nefndarinnar er gagnvart henni að öðru leyti.

Eg get nú látið staðar numið. Það er ekki tilgangur minn, að ræða allar mögulegar breytingartillögur, sem fram hafa komið. Eg mun í flestu fylgja nefndinni, eins og gefur að skilja, nema í því sem eg hefi sérstaklega gert að ágreiningi.