23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í C-deild Alþingistíðinda. (1152)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Valtýr Guðmundsson:

Mig hefir mjög furðað á að hlusta á umræðurnar um afskifti samgöngumálanefndarinnar af »Eimskipafélaginu«.

Það hafa sumir þingmenn haldið því, fram, að nefndin hafi sýnt bæði smámunasemi og stífni í samkomulagsleitunum sínum. Ef að stífni hefir komið fram, þá er það áreiðanlega meira félagsstjórninni að kenna en nefndinni. Nefndin hefir frá upphafi reynt að gera alt, sem hún gat til að hlynna að félaginu. Það er heldur ekki rétt, að smámunasemi hafi kent hjá nefndinni. Eg get að minsta kosti ekki kallað það smámunasemi, að bjóða félaginu að leggja því til 400 þús. kr. í eitt skifti fyrir öll, og auk þess 100 þús. króna styrk á ári.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að það væri sama sem að drepa félagið, að veita því ekki styrkinn skilyrðislaust. Mig stórfurðar á að heyra slíkt, því að það er þveröfugt: nefndin styður félagið öfluglega með tillögum sínum.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) sagði, að það mundi fæla Vestur-Íslendinga frá hlutabréfakaupum í félaginu, ef styrkurinn yrði ekki veittur skilyrðislaust. Þetta er alveg öfugt. Það hefir komið fram í blöðum Vestur-Íslendinga, að þeir kysu að landssjóður hefði yfirtökin, og mundu þá jafnvel vera til með að gefa heilt skip. Og einn maður hefir lýst yfir því við ráðherra, að hann mundi vera fús til að taka 50 þús. kr. hlut í félaginu, ef landssjóður væri þar aðaltaugin, í stað 10 þús. kr. sem hann tók.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, að aldrei hefði í byrjun verið hugsað til þess, að félagið tæki strandferðirnar að sér. Í útboðsskjalinu segir, að félagið treysti sér eigi að taka að sér strandferðirnar »í byrjun«. Og enn segir svo: »Vér erum eindregið þeirrar skoðunar, að fyr komist þetta ekki í lag, en skipaferðirnar séu komnar í hendur Íslendinga sjálfra, orðnar innlendar að öllu leyti«. Loks í bréfi bráðabirgðastjórnar félagsins til samgöngumálanefndanna segir svo: Það hefir frá upphafi verið hugsun forgöngumanna félagsins, að svo framarlega sem byrjunarútgerð félagsins reynist svo val, að fært þyki að færa út kvíarnar, þá verði ein in fyrsta aukning í því fólgin, að taka að sér strandferðirnar.

Af þessu er það ljóst, að það hefir alt af verið tilgangur félagsins að taka að sér strandferðirnar síðar meir. Í samræmi við það leggur meiri hl. nefndarinnar það til, að félagið semji síðar við stjórnina um strandferðirnar og fái styrk til þeirra. Þetta vona eg að mönnum sé ljóst, og sýni þeir þá, að þeir liti ekki meir á hagsmuni einetakra manna en landsins í heild sinni, því að fyrst og fremst erum vér ráðsmenn landssjóðs.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að nauðsyn væri að veita Eimskipafél. Íslanda hærra styrk en Sameinaða gufuskipafélagið hefði haft, vegna samkepninnar. En hver trygging getur verið betri fyrir félagið en sú, að landssjóður verði hluthafi í félaginu að hálfu? Það gefur þá að skilja, að ef samkepnin gengur úr hófi, tekur löggjafarvaldið til sinna ráða. Hér er alls ekki um kala að ræða til félagsins, heldur þvert á móti er það markmiðið að tryggja tilveru þess sem mest.

Af þessum ástæðum leggur nefndin á móti breytingartillögunni á þskj. 508, þar sem það er skilyrðislaust lagt til að veita til hlutakaupa í Eimskipafélagi Íslands 50.000 kr. á ári. Og sama er að segja um brtill. á þskj. 494.

Það gleður mig að ráðherra er samþykkur nefndinni í þessu. En þar sem hæstvirtur ráðherra mintist á Björgvinjarfélagið, kom hann með nýjar upplýsingar, sem eg fyrir mitt leyti hafði ekki vitað af — nefnilega að tilboð þess væri bundið við 5 ár. Þetta virðist, ef tilboðinu væri tekið, gera það að verkum, að Eimskipafélagið geti ekki tekið að sér strandferðirnar á næstu 5 árum og virðist því vera frágangssök að taka því, úr því að Sameinaða félagið hefir lofað að taka strandferðirnar næstu 2 ár.

Um hækkun á styrk til Breiðafjarðarbátsins er það að segja, að meiri hluti samgöngumálanefndarinnar álítur, að ekki sé það mál svo rannsakað, að ekki verði komist af með inn áætlaða styrk, svo að á því sé hægt að byggja. En ekki skal eg þrátta um það. Það er eins um þetta og aðra flóabáta, að það eru engin tiltök til að rannsaka það nú. Það verður hlutverk ins fyrirhugaða ráðunauts stjórnarinnar.

Þetta voru þær aðalathugasemdir, sem eg hafði ætlað mér að gera. En úr því að eg stóð upp á annað borð, þá vil eg minnast á nokkrar tillögur, sem fram hafa komið.

Skal eg þá fyrst minnast á brtill. á þgskj. 534 um hækkun á styrk til Íþróttasambandsins fyrra árið úr 500 kr. upp í 1000 kr. Flutn.m. hefir minst á tillöguna og sagt, að meðal annars væri þessi aukning ætluð til þess að styrkja mann til utanfarar til þess að fullkomna sig í sundlistinni. Eg get ekki stilt mig um, að mæla með þessari till., og eg held, að vér höfum verið alt of knappir í því að styrkja líkamsíþróttir. Hvað gerðu forfeður vorir? Þeir sáu það, að líkamlegur þroski og snarræði var skilyrði fyrir heilbrigði andans. Og ef vér lítum til stórþjóðanna, t. d. Englendinga, þá sjáum vér, að það er einmitt þetta, sem gerði þá duglega í baráttunni. Þetta hefir stórmikla þýðing fyrir uppeldið. Það getur leitt til, að úr dragi mörgum ósómanum, t. d. brúkun tóbaks og kaffis. Menn venjist af að sitja á veitinga- og kaffi húsum í reyk og svælu, en styrki líkamann undir beru lofti, og teigi í sig heilnæmt loft og heilbrigði. Eg legg ekki áherzlu á, að gera menn að meisturum í íþróttum, heldur hitt, að sem flestir æskumenn temji sér þær. En þá er nauðsynlegt, að til séu þeir, sem skari fram úr. Í uppeldinu eigum vér að setja merkið hátt. Og þegar einstakir menn komast hátt og verða frægir, er það til upphvatningar fyrir þá mörgu. Eg álít það því vel farið, að veita þessa litlu styrkaukning til slíks uppeldismeðals sem íþróttirnar eru.

Þá skal eg minnast á brtill. á þgskj. 518. um, að hækka vöxtu af lánum úr viðlagasjóði. Mér finst þess kenna um of, að þingmenn eru meiri búmenn fyrir kjördæmi sín en fyrir landssjóð, þegar þeir lána fyrir lægri vöxtu en landssjóður greiðir fyrir lán sín. Eg skal játa það, að það geta verið fyrirtæki, sem vert er að styrkja öðrum fremur.

Eg skal nefna eitt, sem mér dettur í hug: Brimbrjótinn í Bolungarvík. Eg þekki nú ekkert til Bolungarvíkur, nema eg hefi séð inn svo kallaða þingmann Bolvíkinga hér á götunum. En svo mikið veit eg, að það er einhver in mesta veiðistöð hér á landi, og mun það því hafa þýðing fyrir landið, að lending þar sé gerð hagkvæmari, án þess að eg hafi tekið nokkuru ástfóstri við Bolungarvík.

Svona getur verið um fleira, en hitt er ekki réttur búskapur, að taka minni vexti af því, sem landið lánar út, heldur en það verður að greiða af lánum, þeim sem það tekur sjálft.