23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í C-deild Alþingistíðinda. (1153)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Magnús Kristjánsson:

Flestir háttv. þm. hafa byrjað ræður sínar á því, að þeir ættu brtill. á þessu og þessu þgskj., en eg á nú enga, og er það gott, því að eg verð þá síður fyrir vonbrigðum, en það held eg, að margir verði, um það er lýkur.

Aðallega ætlaði eg að minnast á afatöðu háttv. deildar ganvart Eimskipafélagi Íslands. Það mál virðist vera að komast í óvænt efni. Því að um það er skoðanamunur bæði milli tveggja nefnda og ýmsra einstakra þm. Ein tillagan er sú að landið leggi 400 þús. kr. til hlutakaupa í félaginu, móti því, að það taki að sér strandferðirnar. Önnur brtill. fer fram á það, að landið leggi fram 50 þús. kr. hvort árið sem hlutafé, og sú þriðja, að það sé styrkt með 40 þús. kr. til millilandaferða 1915, ef það kemst þá á og tekur að sér strandferðir 1916. Loks er ein till. þess efnis, að félagið fái 40 þús. kr. 1915, gegn því, að það hafi tvö millilandsskip 1915 og stjórnarráðið samþykki ferðir þeirra.

Eg verð að segja það, að eg efa ekki, að allir háttv. þm. vilja þessu máli vel, en stefnurnar eru mismunandi, og það verður alvarlega að gjalda varhuga við því, að þetta mál fari, eins og aum önnur stórþýðingarmikil mál, að erfitt eða ómögulegt reynist að samþýða skoðanir manna um það, þótt þeir gjarna vildu málinu alt ið bezta. Þetta hefir orðið mörgu góðu máli að falli, en þetta má ekki fara svo. Vér verðum að gæta þess, að vér höfum í þessu efni svo að segja sagt erlendu skipafélagi stríð á hendur, og það mundi verða ómetanlegt tjón, ef ekkert yrði úr þessu nema undirbúningurinn, því að þá er það víst, að eigum vér nú við örðug kjör að búa, þá munum vér síðar sæta enn verri afarkostum, ef félagið verður að engu. Þetta má ekki verða, og þess vegna verður nú að ráða fram úr málinu á þann hátt, sem félaginu getur orðið sæmilega hagkvæmur.

Það eina rétta, sem þingið, að mínu áliti, getur gert í þessu máli er að samþykkja brtill. á þgskj. 494, sem fer fram á, að þingið veiti félaginu 40 þús. kr. 1915, gegn því, að það hafi í förum 2 millilandaskip, og Stjórnarráðið samþykki ferðaáætlun þeirra.

Eg skal geta þess, að mín stefna er sú, að fylgja fjárlaganefndinni svo langt sem fært er, en eina og nú horfir við, álít eg einu réttu úrlausnina að samþykkja áður nefnda tillögu, og veita 40 þús. kr. styrk með því skilyrði, sem þar er sett. Eg vona, að margir hv. þm. geti aðhylst þessa skoðun mína. Eg hygg, að fái félagið þessar 40 þús. kr., geti það tekið til starfa og þá mun það sýna sig, að frumv. um 400 þús. kr. framlag til strandferðaskipakaupa, sem nú er á leiðinni gegn um deildina, mun koma að tilætluðum notum á sínum tíma. Skal eg svo ekki verða fjölorðari um þetta.

En úr því eg stóð upp á annað borð, í langar mig til að minnast fám orðum á vitana. Eg vona, að það hafi ekki orðið ástæða til þeirrar brt., sem hér liggur fyrir, að eg beindi þeirri spurningu til nefndarinnar, hvort ekki mundi hægt að fá vitann á Meðallandi bygðan fyrst. En nú hefi eg fengið sannanir fyrir því, að ekki er hægt byggja þennan vita á næsta fjárhagstímabili. Og þar sem eg hefi fengið þær upplýsingar, að vitinn á Ingólfshöfða sé bráðnauðsynlegur, þá get eg ekki verið með þeirri brt., að fella hann burtu. Það yrði að eins til þess að tefja fyrir málinu í 2 ár, og af því gæti leitt svo mikið tjón, að slíkt væri ekki forsvaranlegt. Meðallandsvitinn verður að sjálfsögðu næsti vitinn, sem tekinn verður á fjárlögin.