23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í C-deild Alþingistíðinda. (1154)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Kristinn Daníelsson:

Breyt.till., sem eg o.fl. höfðum leyft okkur að koma fram með á þgskj. 508, hefir mætt talsverðri mótspyrnu, svo að eg sé mig knúðan til að bera hönd fyrir höfuð henni. Einkum sætti hún mótmælum frá hæstv. ráðherra og háttv. þm. Sfjk. (V. G.). Hann lýsti ánægju sinni yfir því, að hæstv. ráðherra hefði tekið í sama strenginn og hann. Eg get nú ekki sagt það sama. Eg hefði heldur kosið að hann hefði tekið í íslenzka endann, sem mér finst hér hafa verið að honum réttur, og gert það hiklaust og drengilega eins og þörf er á.

Háttv. þm. Stjk. (V. G.) lagði í síðari ræðu sinni sterka áherzlu á það, að brt. næði ekki fram að ganga, og þó fer hún ekki fram á annað en það, sem samgöngumálanefndin hefir áður sagt að væri vilji hennar. Nefndin hefir lýst yfir því, að af þessum 400 þús. kr., sem hún hafði ætlað Eimskipafélaginu, skyldu 100 þús. kr. ganga til þess að koma því á stofn. Þetta hefir hún einnig ítrekað í framhaldsnefndar áliti sínu. Brtill. fer í raun og veru, eins og hefir verið margsagt, ekki fram á annað en að gera þetta skýrt og ljóst með því að veita þessar 100 þús. kr. skilyrðislaust. Hætta getur stafað af því að halda í þetta skilyrði, sú hætta, að það getur fyrirbygt það, að félagið komist á fót. Bráðabirgðastjórnin hefir hins vegar skýrt frá því, að hún muni styðja að því, að félagið taki að sér strandferðirnar. Þetta hefir samgöngumálanefndin gert sig ánægða með samt setur hún þetta skilyrði.

Háttv. þm. sagði, að ekki væri ástæða til að bregða nefndinni um það, að hún vildi ekki styðja Eimskipafélagið, en þegar eg sá till. hennar, datt mér í hug ið fornkveðna: Hendurnar eru Esaús, o. s. frv. Það er svo loðið og óheilt frá þessu gengið, þar sem einmitt átti að koma hiklaust og drengilega fram.

Það er svo ljóst, að félagið getur engu lofað um strandferðirnar, að það liggur í augum uppi. Með leyfi hæstv. forseta skal eg lesa upp fáar línur úr bréfi bráðabirgðastjórnarinnar til nefndarinnar. Það hljóðar svo:

Í hlutaútboðsskjali, því er sent var Íslendingum og hlutafjársöfnunin til félagsins er bygð á, er skýlaust gert ráð fyrir þessu tvennu:

1. Að félagið taki ekki að sér strandferðir í byrjun.

2. Að félagið fái ríflegan landssjóðsstyrk fyrir ferðir þær, sem þar er gert ráð fyrir (þ. e. milli landa með viðkomum á ýmsum höfnum hér innan lands).

Með því að hlutafjárloforð eru bygð á þessu, og því eðlilega bundin þeim skilyrðum, sem í þessu felast, þá lítum vér svo á, sem vér eigi getum kallað saman stofnfund félagsins, ef eigi er vissa fyrir því, að landasjóðsstyrkur fáist, sem eigi sé bundinn því skilyrði, að félagið skuli taka að sér að reka strandferðirnar fyrir sinn reikning. — Við teljum engan vafa á því, að væri félagið stofnað undir slíkum kringumstæðum, þá væru allir, þeir sem lofað hafa hlutafé á grundvelli hlutaútboðsins, þar með leystir frá loforðum sínum. Vér gætum því ekki gert annað en afhenda hverjum loforðagefanda aftur þann hluta hlutafjárins, sem innborgaður er þegar, og mundum því ekki geta gert ráðstafanir til þess að félagið yrði stofnað.

Þessi fjárveiting er þá einmitt bundin því skilyrði, sem bráðabirgðastjórnin lýsir yfir að ekki megi binda hana.

Háttv. þm. Sfjk. játaði, að ekki væri meiningin að veita þetta fé meðan félagið væri ekki til. Hann ætlaðist til að stjórnin mætti veita það, þegar félagið væri komið á stofn. En þetta er ekki hægt, því að þetta bindur hvað annað. Stjórnin getur ekki veitt féð, af því að félagið kemst ekki á stofn. Og félagið kemst ekki á stofn af því að stjórnin hefir ekki heimild til að veita því skilyrðislaust styrk.

Hæstv. ráðherra sagði, að þegar mætti kalla hluthafa á stofnfund, og taldi þær 300 þús. sem inn væru komnar, nægar til þess. En það er ekki hægt, og þarf eg í því efni ekki annað en skírskota til bréfs bráðabirgðastjórnarinnar, sem eg áður nefndi. Og með leyfi að spyrja: Hvar er hættan við kaupa hluti fyrir 100 þús. kr. í þessu félagi, þegar þeir sömu menn og móti því eru, játa, að því fé sé ekki á glæ kastað í neina féglæfra ?

Háttv. þm. Sfjk. spurði, hversu þeir sömu menn, sem ekki vildu láta skuldbinda Eimskipafélagið til að taka að sér strandferðirnar — tryðu ekki að þær bæru sig — gætu stungið upp á landssjóðsútgerð. Eg er alls ekki að hugsa um það, hvort strandferðirnar muni bera sig eða ekki. Þó að það sé afar mikilsvert, þá — er það ekki fyrsta spurningin, sem fyrir verður til afdráttarlausrar úrlausnar, heldur hitt, að strandferðirnar verða á nokkurn hátt að komast á íslenzkar hendur.

En fyrst verður Eimskipafélagið að stofnast, áður það geti ráðist í og gert samninga um strandferðir; en síðan má vænta, að þeir samningar geti tekist og væru æskilegastir.

Hæstv. ráðherra vildi snúa breyt.till. minni í villu og hélt fram, að það væri mótsögn í henni, þannig, að hún kæmi að engum notum þótt hún væri samþykt, vegna þess að þar stæði, að fjárveitingin félli niður, ef félagið tæki að sér strandferðirnar. Eg get eigi séð neina mótsögn í þessu. Það er augljóst, að taki félagið ekki að sér strandferðirnar 1914, verður 50 þús. varið til hlutakaupa, og hafi það enn ekki tekið þær að sér 1915, verður keypt fyrir aðrar 50 þús. kr. En taki það við strandferðunum annaðhvort árið, verða keyptir hlutir hlutir fyrir 400 þús. kr., og þá fellur auðvitað 50 þús. kr. fjárveitingin niður annað eða bæði árin. Eg skal játa, að það hefði mátt orða þetta ljósara, en það er óþarfi að villast ú því eins og það er. Annars hygg eg, að hafi fallið úr í prentuninni orðin »samkvæmt lögum um strandferðir«.

Þá vil eg benda á það, hve mikið traust það gefur félaginu í samkepninni, ef því er slegið föstu, að landið taki þannig hiklaust og óskorað þátt í félaginu. Munu þá útlend félög kinnoka sér við því, er þau sjá, að þjóð og þing fylgjast fast að þessu máli. En sé það gjört þannig hikandi, þá mega aðrir segja: Þannig eru Íslendingar, alt af eru þeir sundurlyndir, geta hvorki verið hráir eða soðnir.

Viðvíkjandi hinni tillögunni á þgskj. 494, þá virðist mér hún jafn sjálfsögð, og það fé beri sömuleiðis að veita skilyrðislaust. Mér skildist það á hæstv. ráðherra, að hann teldi Sameinaða gufuskipafélaginu óréttur gerður með því. En eg veit ekki til, að landinu beri nein skylda til að styrkja það félag.

Skal eg svo ekki eyða orðum að þessu, en vil að lyktum leyfa mér að eggja háttv. þm. lögeggjan að reynast nú vel og drengilega í þessu máli.