23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í C-deild Alþingistíðinda. (1155)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Skúli Thoroddsen:

Eg skal fyrst leyfa mér að minnast á breyt.till. háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.), sem fer fram á það að hækka vexti af lánum úr viðlabasjóði úr 4% upp í 5%.

Eg get ekki verið samþykkur þessari breyt.till.

Það hefir aldrei verið tilgangurinn, að því er lán þessi snertir, að landssjóður tæki að sér, að reka einskonar bankastarfsemi, heldur hefir tilætlunin einatt verið sú, að landssjóður styddi á þennan hátt ýmis nauðsynleg fyrirtæki með því, að veita þeim lán með sem vægustum kjörum, hefir heldur kosið þá leiðina, en að veita þeim beinan fjárstyrk.

Það er orðin föst venja seinustu þinga, að lána fé þannig úr viðlagasjóði, ýmist til ýmsra atvinnufyrirtækja, svo sem til styrkar sjávarútveginum, landbúnaðinum, iðnaðarfyrirtækjum o.s.frv., eður til einstakra stétta, sbr. þurrabúðarmannalánin.

Það mundi því óefað vekja mikla gremju og óánægju meðal landamanna, ef út af þessu væri nú brugðið.

Eg mæli því með því, að brt. þessar verði feldar og greinarnar látnar standa óbreyttar eins og þær voru samþyktar við 2. umr.

Þá skal eg minnast fám orðum á styrk til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp. Fyrir þinginu hafa legið tilmæli frá Sýslunefnd Norður-Ísfirðinga, um 10 þús. kr. styrk til gufubátsferða þar, og skuldbindur sýslan sig þá jafnframt til þess, að annast póstflutningana um sýsluna.

Háttv. samgöngumálanefndir hafa þó eigi séð sér fært, að sinna téðri beiðni sýslunefndarinnar í Norður-Ísafjarðarsýslu, en í stað þess hefir verið samþykt, að veita að eina 9000 kr. til þessa, og það þá jafnframt gert þó að akilyrði, að gufubáturinn fari einhverjar ferðir alla leið norður á Húnaflóa.

Flutningaþörfin er mikil milli þessara staða, þ. e. Djúpsins og Húnaflóa — þar skifst á land- og sjávarafurðum, auk mikilla fólksflutninga, og strandbátarnir því mikið notaðir í téðu skyni. Á hinn bóginn hefir þó sýslunefndin í Norður-Ísafjarðarsýslu enn ekki athugað þetta, og hæpið, að gufubáturinn, sem hún hefir á að skipa, og notaður hefir verið til ferðanna um Djúpið, geti tekið ferðirnar til Húnaflóa að sér, nema þá rétt yfir bláaumartímann, enda styrkurinn óefað alt of lítill, sé um að mun stærri bát að ræða, og vona eg því; að hv. Ed. taki þetta atriði til íhugunar, þar sem eigi hafa getað orðið tök breytinga hér í deildinni.

Þá skal eg, að því er snertir »Eimskipafélagið«, geta þess, að eg er hvorki samdóma fjárlaganefndinni, né samgöngumálanefndinni. Nefndir þessar vilja neyða félagið til þess, að taka að sér strandferðirnar, sem það þó — þegar í byrjun — hefir lýst yfir, að það ætli sér alls ekki að sinna, enda hefir og bráðabirgðastjórnin lýst yfir því, að hana bresti alt vald til að skuldbinda félagið í þessu efni, þar sem öll fjársöfnunin einmitt hefir verið miðuð við millilandaferðirnar einar.

Geta má þess og, að alt öðru máli er að gegna um strandferðirnar, en um millilandaferðirnar. Millilandaferðirnar geta í flestum tilfellum borgað sig, en strandferðirnar gera það einatt að mun síður, nema þá með því hærri landssjóðsstyrk.

Það er nú svo komið, að strandbátarnir koma nær inn á hverja vík og vog og það þótt þeir hafi atundum eða á suma staðina — lítið eða alla ekkert meðferðis, jafnvel eigi nema eitt bréf eða böggul — eða þá að skjóta einum farþega á land. En landsmenn eru orðnir þessu vanir, og geta nú ekki verið án tíðra strandferða. Og þar sem svona hagar til, að lítils er að vænta í aðra hönd, þá er það ið eina rétta, að landið taki sjálft að sér strandferðirnar, afli sér báta, annað hvort til kaups eða leigu, sem þá gætu komið við á þeim stöðum, sem landsmenn óska.

Tel eg þá aðferðina landinu að mun sæmri, enda landsmönnum hagkvæmari, en hina, að vera að ginna neinn til þess, að tefla á þá tvísýnu að taka að sér ferðirnar, gegn því eða því tillagi úr landssjóði.

En svo að eg eg víki aftur að »Eimskipafélagi Íslands«, þá hefir mér virst það in mesta nauðsyn, að þingið styddi það á allar lundir.

En hvað gerir nú þingið? Fjárlaganefndin, — sem og samgöngumálanefndirnar — gefa því kost á 40 þús. kr. styrk 1915, og 400 þús. kr. hluttöku, en hvortteggja er bundið því skilyrði, að það taki þá að sér strandferðirnar.

Þetta þykir mér hart aðgöngu fyrir félagið, og vona eg, að deildin samþykki það ekki. Þingið hefði átt að veita félaginu styrk þennan skilyrðislaust, því að þá hefði landssjóður orðið félaginu sá bakjarl, sem gerði það alveg ófellandi, í stað þess, að með hinu mótinu verður það æ vonargripur, þar sem við samkepni við félagið verður að sjálfsögðu að búast.

»Sameinaða gufuskipafélagið« er öflugur keppinautur, og það gæti jafnvel fundið upp á því, að flytja vörur og farþega ókeypis til þess að eyðileggja innlenda eimskipafélagið, og gæti þá farið mjög illa fyrir frumbýlinginum, sem verður að byrja með skuldum.

Þá geta og ýmis óhöpp mætt félaginu eða stjórnin farið í einhverju ólagi, ekki sízt, þar sem Íslendingar eru óvanir að standa fyrir slíkum fyrirtækjum. Vera má og, að þeir sem hafa safnað áskriftum, hafi gylt félagið og talið hér vera um gróðafyrirtæki að ræða, í stað þess að segja eins og er, að snúist getur til beggja vona um það, nema félagi njóti því öflugri stuðnings af landssjóði.

Eg mun því ekki greiða atkv. með tillögum samgöngumálanefndanna í máli þessu, en mun hallast að tillögunni á þgskj. 494 frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) o. fl., og ljá henni atkv. mitt.