27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í C-deild Alþingistíðinda. (1167)

37. mál, hagstofa Íslands

Ráðherrann (H.H.):

Eg er þakklátur háttv. nefnd fyrir undirtektir henna og get fallist á allar brtill. hennar. Það má öllum vera ljóst, að hér er um þýðingarmikið verk að ræða, sem ekki verður komist hjá, enda mun það sannast, að þetta borgar sig fljótlega.

Eg hefi engu við að bæta, það sem háttv. framsögumaður meiri hl. sagði og get tekið undir með honum um það, að brtill. háttv. 1. þmþ Skagf. (Ó. Br.) á þskj. 566 sé ekki heppileg. Slíka endurskoðun heyrir fremur undir svo kallaða »revisionbanka«; en einn slíkur var stofnaður hér fyrir nokkrum árum. Hér liggur og fyrir frumv. um löggilta endurskoðendur; ef það verður samþykt, þá heyrir slík endurskoðun, sem brtill. nefnir, undir þá.

Háttv. 1. þm. Rangv. (E.J.) sagði, að með frumvarpinu væri létt störfum af starfsmönnum stjórnarráðsins. En nú er svo háttað, að að skýrslunum vinna sumpart menn úr stjórnarráðinu í frístundum sínum, sampart aðrir, og alt er borgað sérstaklega. Hér er því ekki að ræða um, að nokkru launuðu skyldustarfi sé létt af starfsmönnum stjórnarráðsins.

Sami háttv. þingm. áleit ekki heppilegt orðalag, að hagstofan stæði beint undir ráðherra. Meiningin með þessu er sú, að skrifstofan sé alveg sjálfstæð og geti snúið sér beint til ráðherra, en þurfi ekki að fara skrifstofuleiðina venjulegu.