27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í C-deild Alþingistíðinda. (1176)

102. mál, einkaréttur til að vinna salt úr sjó

Björn Kristjánsson:

Eg álít, að nefndin hafi í frumv. sínu sett alt of þröng skilyrði fyrir þessu einkaleyfi. Þegar einkaleyfi á að veita, verða menn að gæta að, hvers konar einkaleyfi það er, hvort það er til þess að starfrækja fyrirtæki, sem áður er til í landinu, eða það er til þess, að koma á stofn nýju fyrirtæki, sem ekki hefir áður þekst hér, og starfrækja það. Hér er farið fram á, að hlynt sé að nýrri starfsemi, sem ekki hefir þekst hér áður, og þá verða menn að gæta að því, að henni sé ekki gert of erfitt fyrir. Mér virðist einfaldast að leggja aðeins einn skatt á þetta fyrirtæki — 50 aura eða 1 kr. á hverja smálest af salti, og annað ekki. Eg tel réttast, að það séu að eins 50 aurar, til þess að það sé jafnhár tollur og er á innfluttu salti, eftir vörutollslögunum. Ef tollurinn væri hærri, þá yrði það til þess að sporna við því, að þetta fyrirtæki gæti þrifist.

Að því er snertir hin efnin, joð, súrefni og vatnsefni, þá eru þau vitanlega ekkert annað en »Biprodukt« sem kölluð eru. Þau gefa venjulega ekki mikinn arð; en eru þó tekin með, af því að áhöldin eru þannig gerð, að þau skilja þau frá. Það er því ekki mikil ástæða til að leggja toll á þau. Ef ætti að fara að tolla þau eftir verðmæti þeirra, þá mundi það líka verða alt of flókið og erfitt fyrir tollheimtumennina.

Eg vildi beina því til innar háttv. nefndar, hvort henni fyndist ekki tiltækilegt, a,ð breyta frumv. svo, að á fyrirtækinu hvíldi að eins einn skattur; 50 aurar fyrir hverja smálest af salti, eins og nú er á innfluttu salti eftir gildandi lögum.