28.08.1913
Neðri deild: 45. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í C-deild Alþingistíðinda. (1179)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg sé, ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frumv., vegna þess, að það hefir ekki tekið neinum þeim breytingum í háttv. efri deild, sem ástæða er til að orðlengja um. Það hafa heldur ekki komið fram neinar breytingatillögur við það, frá hv. þingdeildarmönnum.

Aðalbreytingin er um fjárveitinguna til pósthússins, en hún var gerð eftir samkomulagi við fjárlaganefndina í Nd., og þarf eg því ekki að ræða um hana.

Önnur aðalbreyting er um endurgreiðslu á símatillagi til Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Eins og nefndarálitið í Ed. ber með sér, er það bygt á því, að fjárlaganefndin þar áleit, að ekki væri ástæða til að endurgreiða meira en eftir stóð af skuldinni fyrir símatillagið þegar síminn var gerður að 1 flokks síma. En það var í ársbyrjun 1913.

Þá er ein brt. enn fremur, sem efri deild hefir komið með, um styrk til Einars Guðmundssonar á Þórarinsstaðaeyri til þess að leita honum læknishjálpar í Danmörku, 300 kr. Nefndin sá ekki ástæðu til að Vera a móti þessum styrk, þó að hann geti að vísu dregið dilk á eftir sér og myndað fordæmi til slíkra styrkveitinga eftirleiðis. Undanfarið hefir það verið venja að veita fátækum mönnum styrk til þess að leita sér læknishjálpar erlendis á meinsemdum, sem ekki er hægt að ráða bót á hér heima. Hér er einmitt um sjúkleika að ræða, sem ekki verður ráðin bót á hér á landi, en á að gera tilraun til að fá bættan erlendis.

Eg hefi svo ekki fleira að segja, og leyfi mér að ráða háttv. deild til að samþykkja frumv. óbreytt eins og það er komið frá háttv. efri deild.