29.08.1913
Neðri deild: 46. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í C-deild Alþingistíðinda. (1202)

13. mál, vörutollur

Matthías Ólafsson:

Mér virðist hafa komið fram dálítill misskilningur á orðinu »strigi«. Það er auðséð á frv. frá efri deild, að þar hafa menn skilið ið sama við segldúk og striga, því að þar stendur: »Strigaábreiður (hvort sem þær eru tjargaðar, farfaðar eða eigi)«. Hér Er átt við það, sem á lélegu máli er kallað »presenning«, og mætti vel kalla umbúðastriga. Það er aðallega þessi tegund, sem eg vildi undanþiggja hærra gjaldi. Í frumvarpinu frá efri deild stendur enn fremur: Vélaolía til áburðar. En eg veit ekki betur, en að öll vélaolía sé notuð til áburðar nema steinolía, en við hana getur ekki verið átt. En öll áburðarolía ætti ekki að vera í sama flokki; saumaolía ætti að vera langtum hærra tolluð en vanaleg mótorolía, því hún er alt að hundraðfalt dýrari en hin.

Þá kem eg að því, sem háttv. 2. þm. S. Múl. (G. E.) sagði um bátana, var margt rétt af því sem hann sagði. Það er engin ástæða til að leggja toll á smábáta, sem koma frá útlöndum; aftur á móti væri rétt að tolla vélabátana, því þar er um samkeppni við íslenzkan iðnað að ræða. Auk þess eru vélabátar, þeir sem koma frá útlöndum, vanalega svo illa smíðaðir að þeir eru ekki nema 2–3 ár gestir hér, meira að segja oft alls ekki haffærir. Það er því enginn skaði að því, að þeir séu tollaðir og það talavert hátt.

Það er vitaskuld, að á Austurlandi eru smíðaðir smábátar; en þeir bátar verða helmingi dýrari en bátar þeir sem fluttir eru frá Noregi. Norskir smábátar kosta 60–70 kr., en fyrir íslenzkan tvíróinn bát verða menn að gefa alt að 150 kr. Norsku bátarnir eru auk þess langtum léttari og ekki eina þéttbentir og íslenzku bátarnir; og það sem verst er, slíka báta er ekki hægt að byggja hér á landi af því efnið í þá, breiðu borðin, fást ekki.

Eg held því, að réttast væri að tolla ekki smábátana, heldur mótorbátana, því allir þeir mótorbátar, sem fyrst komu hingað til landsins, voru alt of litlir og auk þess svo illa smíðaðir, að þeir voru með öllu óhæfir hér.