29.08.1913
Neðri deild: 46. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í C-deild Alþingistíðinda. (1210)

72. mál, landskiptalög

Ráðherrann (H. H.):

Eftir því sem mér skildust orð háttv. 1. þm. G.g. (B. gr.), gefur hann það fyllilega í akyn, að vottorð herra Hendriksens hafi verið gefið af honum að fyrrabragði til að blekkja þingið.

Um leið og eg vísa þessum ósæmilegu aðdróttunum aftur, vil eg lýsa yfir því, að vottorð Hendriksens er svo til komið, að einn maður úr samgöngumálanefnd Ed., sem eg get nafngreint ef vill, bað mig að spyrja Hendriksen þess, hver útgjöld Thorefélagið hefði haft af strandferðaskipunum. Samkvæmt þessu bað eg herra Hendriksen um skýrslu í þessu efni, er hann góðfúslega lét mér í té og eg síðan nefndinni. Það er því gersamlega tilhæfulaust að segja, að vottorðið sé framboðið af honum til þess að hnekkja áætlun nefndarinnar. Það er gefið til að upplýsa sannleikann, eftir beiðni þeirra, er þingið fól að leita hans í þessu efni. Enda hefir það reynst rétt í hverju einasta atriði, gagnstætt skýrslu annars manns, sem nefndin útvegaði, sem ekki hefir reynst fyllilega rétt, enda var ekki við því að búast, þar sem þann mann vantaði öll skjöl og skilríki til þess að geta gefið fullar upplýsingar.