08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (122)

18. mál, fræðsla barna

Ráðherrann (H. H.):

Í þessu litla frumvarpi er farið fram á að hækka laun fræðslumálastjórans, en það er ekki farið fram á að breyta stöðu hans eða stofna nýtt embætti — hér er að eins að ræða um litla hækkun launa, sem eru of lágt tiltekin.

Það hefir komið í ljós, að laun, þau sem starfi þessu fylgja, eru ónóg fyrir þann mann, er nú gegnir því, þann mann, er allir verða að játa að sé manna bezt fallinn til þess að gegna því. Allir munu og vera sammála um, að hann sé góðs maklegur fyrir það, hve vel og dyggilega hann hefir unnið að uppeldismálum landsins og um margra ára skeið verið forgöngumaður þess, að hrinda alþýðumentuninni í viðunanlegt horf, svo að þjóð og þing hljóti að kunna honum beztu þakkir fyrir starf hans. Það er því lagt til, að hann verði strax aðnjótandi hámarks launanna. sem tiltekin eru í frumvarpinu. En byrjunarlaunin eru þar óbreytt eins og þau eru nú, svo að þetta er eins og dálítil –persónuleg launaviðbót fyrir hann, makleg eftir aldri og þjónustutíð í þarfir fræðslumálanna, að ákveða að laun hans skuli þegar ná hámarkinu, sem sett er.

Eg vil leggja til að málinu sé, að lokinni þessari fyrstu umræðu, vísað til launalaganefndar.