30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í C-deild Alþingistíðinda. (1223)

2. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Guðmundur Eggerz:

Eg hefi ekki miklu við nefndarálitið að bæta. Sumstaðar hefir orðið nokkur ágreiningur milli stjórnarinnar og yfirskoðunarmannanna um það, hvort nauðsyn bæri til að taka upphæð upp í fjáraukalögin eða ekki.

Það hefir alt af verið skoðað sem Sjálfsagt, að stjórnin leitaði aukafjárveitingar fyrir umframgreiðslunni í þeim tilfellum, þar sem upphæðirnar í fjárlögunum eru fastákveðnar eða bundnar við tiltekið hámark, en nokkuð öðru máli er að gegna um umframgreiðslur á þeim liðum, þar sem upphæðirnar eru að eina eða að nokkru leyti áætlaðar.

Þar sem nú oft er örðugt að ákveða, hvort einhver liður á að skoðast í fjárlögunum sem fastákveðinn í ofangreindum skilningi eða að eins áætlaður, hefir nefndin fylgt þeirri meginreglu, að taka umframgreiðsluna upp í fjáraukalögin, ef hún var í vafa um, hvers eðlis in upprunalega fjárveiting var í fjárlögunum.

Þá skal eg taka það fram, að nefndin telur enga hættu því samfara, þótt stjórnin láti einhvern hluta útgjaldanna lenda á næsta ári fyrir eða eftir það ár, sem fjárveitingin er fyrir, ef greiðslan fer fram á sama fjárhagstímabilinu. Eg get þessa fyrir þá sök, að nefndin telur ekki nauðsynlegt að leita aukafjárveitingar þegar svo stendur á. Ég skal taka til dæmis, að á fjárlögum væru veittar 1000 kr. til þjóðvegar vestur á landi fyrir fjárhagstímabilið, en ekki notaðar nema 800 kr. Þá telur nefndin stjórninni heimilt að nota þessar 200 kr., sem spöruðust fyrra árið, til sama vegar árið eftir. En hitt er annað mál, og nefndin er sammála yfirskoðunarmönnunum um það, að stjórninni sé ekki heimilt, svo eg haldi mér við dæmið áðan, að nota þessar 200 kr. sem spöruðust, til vegar annarstaðar eða brúargerðar.

Þá skal eg og taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að hún hefir ekki séð ástæðu til að geta þess, hverjar upphæðir stjórnin hafi tekið upp í fjáraukalögin samkvæmt tillögum yfirskoðunarmanna. Nefndin lítur svo á, að slík upptalning hefði að eins lengt nefndarálitið að óþörfu.

Að lokum skal eg drepa stuttlega á þrjá nýja liði, sem nefndin hefir tekið upp. Í fyrsta lagi brt. við 6. gr. B. VIII. c.: Til unglingaskóla 350 kr. Í öðru lagi við 8. gr. 9: Til skóggræðslu 822 kr., og í þriðja lagi við 8. gr. 25: Til húsaskoðunar á prestsetrum 163 kr. 75 aura. Nefndin hefir komist svo að orði um þessa liði, að þeir hafi ekki verið teknir upp í fjáraukalagafrv. fyrir þá sök, að stjórnin hafi gleymt þeim, Nú er það upplýst, að ástæðan er ekki þessi, heldur sú, að frv. til fjáraukalaga var samið áður en hæstv. ráðh. hafði gefið svör sín við athugasemdum yfirskoðenda landsreikninganna. Það er því þessi ástæða til þess, að þeir liðir voru ekki teknir upp, en annars skiftir það ekki miklu máli.