30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í C-deild Alþingistíðinda. (1227)

2. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Háttv. 1. þm. Skgf. (Ól. Br.) sagði, að það væri hægra að segja það en sanna, að samkepni mundi ekki myndast, ef landssjóður taki að sér strandferðirnar. Hann hélt að Sameinaða félagið mundi þá taka upp á því að koma á fleiri hafnir en nú En það var ekki þetta, sem eg átti við. Eg átti við það, að ekkert félag mundi mynda samkepni á þann hátt, að setja á stofn nýjar strandferðir. Við vitum allir, að þó Ísland sé smátt, þá er ekki útilokað að þingið tæki, til sinna ráða til þess að vinna bug á samkepninni. Það er naumast til það félag, sem þori að keppa við nokkurt löggjafarvald, ef menn standa fastir fyrir.

Þá spurði háttv. þm. um það, hvort menn vissu til að það ætti sér nokkurstaðar stað, að löndin tækju að sér fyrirtæki, án þess að sá er æðsta vald hefði bæri nokkurt skyn á málið. En hér á Íslandi er ekki öðru máli að gegna en erlendis. Hvaða vit ætli ráðherrarnir hafi á póstmálum, símamálum, samgöngumálum og öðrum þeim málum, er undir þá heyra? Auðvitað verða þeir að hafa menn sér til aðstoðar, sem vit hafa á, og nota þekkingu þeirra sér til leiðbeiningar.

Viðvíkjandi tapi á strandferðunum þá langar mig til að spyrja, hvort menn halda að félagið, sem nú rekur þær, beri tapið, ef nokkurt er. Nei, það eru Íslendingar! Stjórnin verður að ganga að hörðum kostum um millilandaferðirnar. Hvers vegna eigum við þá ekki eins að bera þetta tjón beinlínis og fá að vita, hve tapið er mikið. Það hygg eg vera réttara heldur en að láta útlent félag eftirlitslaust nefna stjórninni þessar og þessar tölur, sem það tapi. Hvers vegna megum við ekki reyna sjálfir, hvað tapið er í raun og veru, þegar landið verður hvort sem er að bera það ?

Fleira var það ekki, sem eg þurfti að taka fram.