30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í C-deild Alþingistíðinda. (1230)

4. mál, landsreikningar

Lárus H. Bjarnason:

Eg þori ekki að fullyrða, að það sé einsdæmi af hendi reikningalaganefndar, að gera engar tillögur um landsreikninginn, en víst er um það, að sára-fágætt er það, enda mundi inn fróðasti maður í þessum efnum, háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.), er eg hafði leitað upplýsingar hjá, ekki eftir slíku. Eg skal sem sagt ekki fullyrða þetta, en 28. gr. þsk. gerir ótvíræðlega ráð fyrir tillögum og mætti ef til vill bæta úr þessu við síðari umr.

Annars skal eg leyfa mér, að gera nokkrar athugasemdir við landsreikninginn 1910–1911. Eg býst við því, að eg megi, ekki einungis í mínu nafni, heldur og meðendurskoðanda mína, geta þess, að það er mjög nauðsynlegt, að stjórnarráðið afgreiði landsreikningana fyr til yfirskoðunarmanna en gert var um reikningana 1910 og 1911, og að það vandi yfirleitt betur til þeirra. Reikningurinn um 1910 var ekki saminn fyr en 15. Des. 1911 og ekki sendur yfirskoðunarmönnum fyr en 20 Jan. 1912. Það leið þannig meira en mánuður frá því er landsreikningurinn var saminn til þess er hann var sendur til yfirskoðunarmannanna. Reikningurinn var að mestu leyti óendurskoðaður af inni umboðslegu endurskoðun og er það mjög óheppilegt, að þeir reikningar, sem landsreikningurinn byggist á, séu ekki endurskoðaðir umboðslega áður en þeir eru fengnir yfirskoðunarmönnum í hendur, því að ekki er viðlit að ætla yfirskoðunarmönnum slíka endurskoðun, enda hafa þeir engan tíma til hennar, þó að þeir vildu leggja hana á sig um alla skyldu fram.

Tryggingin fyrir réttmæti landsreikningins minkar að sama skapi sem þeir reikningar eru ófullkomnari, sem hann byggist á.

Við yfirskoðunarmenn afgreiddum athugasemdir okkar til stjórnarráðsins með bréfi dags. 11. Júní 1912. Svör stjórnarráðsins voru ekki til fyr en 23. Október, en tillögur okkar voru búnar 19. Desember.

En þótt landareikningurinn 1910 komi seint, þá kom reikningurinn fyrir 1911 þó ennþá seinna. Hann var ekki saminn fyr en 13. Marz 1913 og ekki sendur okkur fyr en 28. Marz, og það má segja sama um hann eins og landsreikninginn 1910, að hann mátti heita alóendurskoðaður af inni umboðslegu endurskoðun. Við höfðum lokið endurskoðun okkar 20. Maí, en svör stjórnarinnar, sem eru dagsett 27. Júní, komu ekki til okkar fyr en 3. Júlí, eða eftir að þing var byrjað. Það sjá allir, að þetta er óhafandi sleifarlag, og að yfir skoðun hlýtur að verða miklu lauslegri og tillögur lakar grundaðar, er svo er í pottinn búið hjá stjórninni, enda reikningurinn allur óábyggilegri.

Viðvíkjandi skattheimtu gjaldheimtumanna landssjóðs verður að geta þess, að sumir reikningshaldarar gera hvorttveggja í einu, semja reikninga sína of seint og gjalda tekjurnar of seint í landssjóð. Þetta getur leitt til stórtjóns fyrir landssjóð, og hefir gert það, þó að landssjóður tapaði ekki við sjóðþurð þá ina miklu, er nýlega átti sér stað norðanlands. En það happ í óhappi var ekki eftirlitsmönnunum að þakka. Þeir höfðu með slælegu eða réttara sagt engu eftirliti stofnað til stórtjóns, þó að vinir og vandamenn bættu úr. Það er vitanlegt um einstaka gjaldheimtumenn, að þeir borga tekjur liðins árs með tekjum líðandi árs, og um aðra, að þeir draga greiðslur í landssjóð til þess að geta sjálfir notið vaxta af tekjum landssjóðs.

Landssjóður leggur árlega fram um 1500 kr. á ári til eftirlitsferða, og ætti því að mega heimta, að stjórnin vissi eitthvað, áður en alt er kollfallið. Dæmið, sem eg nefndi áðan að sjóðþurðinni, sem var 7–8 ára gömul, var ekki síður að kenna eftirlitsleysi stjórnarráðsins en andvaraleysi gjaldheimtumannsins.

Háttv. framsögumaður mintist á fæðispeninga umsjónarmanns vitanna og taldi 4 kr. nægja, en umsjónarmaðurinn hefir fengið 6–8 kr. á dag.

Út af þessu vil eg geta þess, að þó að meira sé komið undir því, að eftirlitsmennirnir geri eitthvert gagn, heldur en undir hinu, hvort þeir fá nokkrum krónum meira eða minna, þá ætti þó að vera fastákveðin upphæð, er ekki mætti fara fram úr. Sérstaklega er óforsvaranlegt, að leyfa eftirlitsmönnum að taka 4 kr. á dag, meðan þeir eru á skipum, auk venjulegra fæðispeninga, 6 kr., eða 10 kr. alla í fæðispeninga á dag, en þetta hafa tveir hálaunaðir embættismenn reiknað sér og fengið. Þetta er óþarflega hátt og ætti ekki að líðast, sízt ef þeir ekki gera annað en að spóka sig í góða sumarveðrinu, eins og stundum vill brenna við.

Þá vildi eg loks geta þess, að það er mjög óviðfeldið og jafnvel villandi, þegar fjárlögin eru svo ranglega síteruð í landsreikningum, sem gert er að minsta kosti á 2 atöðum í landsreikn. 1911, svo sem á sér stað um 85. og 88. aths. Þar er tilvitnun hagað svo, að föst fjárhæð verður að áætlunarupphæð, og er það vitanlega stjórninni í hag.

Annað eins og þetta bakar endurskoðendum Alþingis óþarfa ómak og er jafnvel villandi.