30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í C-deild Alþingistíðinda. (1232)

4. mál, landsreikningar

Framsm. (Guðmundur Eggerz):

Háttvirtur 1. þingm. Rvk efaðist um, að það væri rétt hermt hjá mér, sem eg sagði, að áður hefði komið fyrir, að reikningslaganefndir þingsins hefðu ekki borið fram neinar tillögur. Eg hefi nú hér fyrir mér Alþingistíðindin fyrir árið 1905. Þar er sagt beinum orðum, að reikningslaganefndin sjái ekki ástæðu til að bera fram neinar tillögur; og það hefir skeð mörg fleiri ár, að engar tillögur hafa verið fram bornar.

Hann virtist verða óánægður með, að nefndin skyldi ekki hafa kveðið harðara að orði út af þessum seinu reikningsskilum og sjóðþurðinni hjá sýslumanninum fyrir norðan. En við sáum enga ástæðu til þess að vera að hreyfa þessu máli svo mjög hér í þinginu, eða hafa mjög hátt um það, úr því að maðurinn borgaði alt á endanum.

Yfirleitt virðist mér endurskoðunin á landsreikningnum hjá háttvirtum yfirskoðunarmönnum Alþingis vera fyrra árið, að því er reikningshaldara snertir, í harðasta lagi. Í athugasemdunum við landsreikninginn 1910 gera yfirskoðunarmennirnir alstaðar mjög mikið veður út af því, ef upphæðunum skakkar nokkuð, jafnvel þótt ekki sé meira en um — 14 — aura; og eg tala nú ekki um, að þeir fyllast heilagri vandlætingu, ef að upphæðirnar eru skakkar um 5,25 kr. eða 7 kr. Nefndii1 gat ekki álitið, að nokkur ástæða væri til að gera langar athugasemdir út af svo smáu.