30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í C-deild Alþingistíðinda. (1238)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Framsögum. minni hl. (Sigurður Sigurðsson):

Það tekur því naumast að hefja umræður um þetta mál, enda ætla eg ekki að gera það, og sízt að svo stöddu. Eg get samt sem áður ekki fallist á, að selja þannig aneiðar af opinberum eignum, hvort sem það eru þjóðjarðir eða kirkjujarðir. Eg verð að telja það mjög varhugaverða braut að ganga út á. Auk þess verð eg að segja, að helzt til litlar upplýsingar séu fyrir hendi um þessa landspildu, sem hér um ræðir. Mér þykir það næsta ólíklegt, að presturinn væri að seilast eftir kaupum á henni, ef hún væri óræktað land að öllu leyti, og jafnlítið í hana varið og af er látið. Þá má eg benda á, að um þetta hefir ekki verið leitað álits stjórnarráðsins né heldur byskups, og eg verð að telja það óviðkunnanlegt fyrir þingið, að þjóta til að selja opinberar jarðir eða sneiðir af þeim, án þess að fyrir liggi umsögn stjórnarvalda því viðvíkjandi.

Að öðru leyti þarf eg ekki að taka það fram — mönnum er það kunnugt — að eg er yfirleitt á móti sölu opinberra eigna, bæði þjóðjarða og kirkjujarða. Eg tel það illa farið að nokkurn tíma var gengið inn á þá braut, og eg býst fastlega við því, að þeir tímar muni koma, að það verði talið landbúnaðinum skaðlegt, og um leið framförum og vellíðan þjóðarinnar til hindrunar. Eg held mér því við, að leggja það til að málinu verði ekki hleypt lengra. En vilji presturinn, eins og sagt hefir verið, koma sér upp grasbýli á þessum bletti, þá getur hann farið annan veg til þess. Hann getur fengið blettinn á erfðafestu hjá landstjórninni. Við því væri ekkert að segja, og honum væri það á engan hátt lakara.