30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í C-deild Alþingistíðinda. (1239)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg flutti þetta frumv. inn á þingið, meðfram sakir þess, að eg er gagnkunnugur spildunni, sem um er að ræða. Eg þekki hana, að kalla, eins nákvæmlega og gólfið hérna í salnum. Eg fór dagsdaglega fram hjá henni eða stundum um hana, þegar eg var unglingur. Það er mikið undir því komið, hvernig hér hagar til. Hér er um þá eina spildu að að ræða, sem frá alda öðli hefir aldrei verið notuð til neins nema að því leyti að hestar hafa einstöku sinnum slæðst til að bíta hana. En þó hagar svo til, að annarstaðar í landi Kolfreyjustaðar eru nógir og betri hestahagar fyrir fimmfalt fleiri hesta en nokkurn tíma hafa verið þar eða. líkindi eru til að nokkurn tíma verði þar. Það sem háttv. minni hl. fanst athugavert við þetta, var það, að ekki væri fyrir hendi umsöga byskups og stjórnarráðsins um söluna. En menn verða að gæta að því, að hér er ekki farið fram á, að þingið velji þessa spildu, heldur er að eins mælat til, að það gefi stjórninni heimild til þess. Og það má. ganga að því vísu, að stjórnin útvegi sér allar hugsanlegar upplýsingar áður en hún selur spilduna. Í frumv. er ekki heldur ákveðið, hvert verðið skuli vera Það er einungis sagt, að það megi ekki vera lægra en þar er tiltekið. Þetta verð er auðvitað eftir mati eiðsvarinna matsmanna. En ef stjórninni finst ástæða til að selja landið annaðhvort alls ekki eða selja það við hærra verði en hér er til tekið, þá hefir hún fullkomið vald til þess, þrátt fyrir það þó að þetta frumv. verði að lögum. Hér er einungis að ræða um heimildar lög. Stjórninni er gefið leyfi til að selja þessa landspildu, að öllum upplýsingum fengnum, en henni er alls ekki skipað að selja hana.

Þó að bletturinn hafi aldrei verið notaður og verði aldrei notaður af ábúandanum á Kolfreyjustað að öðru leyti en því, ef hross slangra þangað á leiðinni í hagann, þá má þó hafa talsvert gagn af honum með því að girða hann og rækta. En það verk mundi kosta mikið fé og út í það mundi aldrei verða lagt, nema af manni, sem ætti kost á að eignast stykkið sem grasbýli. Í annan stað getur presturinn að Kolfreyjustað; hver sem það verður, haft aukatekjur af því, ef þarna kemur grasbýli. Eins og tekið er fram í lýsingu matsmannanna, er með fram öllu þessu stykki stórgrýtisfjara og flúðir út í sjóinn, svo að þar er ólendandi. Hins vegar er þetta rétt við Ytri-Skálavík, en þar er ið bezta útræði, og fjöldi verakála, er presturinn fær gjald fyrir. Það er enginn vafi á því, að grasbýlisbóndinn í Innri-Skálavík mundi hafa uppsátur í Ytri-Skálavík og gjalda prestinum toll fyrir. Það mundi því auka en ekki rýra tekjur staðarins ef þessi blettur yrði bygður.