08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (124)

22. mál, eftirlit með fiskveiðum í landhelgi

Flutningsm. (Kristinn Daníelsson):

Við flutningsmenn þessa litla frumvarps, þingmenn G. K., flytjum frumvarp þetta hér eftir ósk og vilja kjósenda okkar, þeirra sem hlut eiga að þessu máli.

Eins og öllum er kunnugt, þá stendur bátveiðinni hér við Faxaflóa in mesta ógn af botnvörpuveiðunum, og eftirlitið með þeim hefir þótt ónógt, en það hefir komið í ljós, að það má mikið auka eftirlitið með botnvörpungunum með vélarbátum.

Á yfirstandandi fjárhagstímabili voru veittar 3000 kr. til þessa eftirlits, gegn því að jafnmikið fé væri lagt fram annarstaðar frá. Þetta skilyrði, um að jafnmikið fé væri lagt fram annarstaðar frá, var víst rétt að setja, til þess í ljós kæmi, hvar þörfin var brýnust, því þeir er mesta þörfina hafa, þeir vilja vitanlega leggja fram mest féð. En það þarf að veita meira fé til þessa eftirleiðis.

Þannig lagað eftirlit hefir verið framkvæmt í Gerðahreppi, sem nær yfir Garð og Leiru, með nokkrum tilstyrk tveggja annara hreppa Þar var ráðinn maður með bát fyrir 4000 kr. borgun yfir allan tímann frá Apríl—Desbr. til þess að hafa eftirlitið á hendi. Stjórnin veitti til þess 1500 kr., meira sá hún sér ekki fært að veita, enda þótt eg verði að ætla, að það hafi oft staðið ónauðsynlegri upphæð á fjáraukalögunum, en þótt stjórnin hefði veitt nokkru meira upp á væntanlegt samþykki þingsins. því sem vantaði á móta við framlag landssjóðs, var safnað með frjálsum samskotum, og voru undirtektir undir þær svo góðar, að eg hefi aldrei vitað þær betri. Þannig námu gjafirnar í einum hreppi, þar sem eru 700 íbúar, alls 1000 krónum, og sýnir það bezt áhugann.

En til langframa þarf að fá fé á annan hátt og tryggja þetta dálítið betur, þannig að leyfilegt sé að gera Samþyktir um gjald á þá er sjávarútveginn stunda, t. d. gjald á hvern hlut á opnum skipum eða vélabátum eina og frumvarpið fer fram á.

Eg álít að það þurfi ekki að ræða þetta frekara að þessu sinni, en treysti háttv. deild til að taka vel í málið. Bátfiski er mikilsverð atvinnugrein, og fyrir marga fátæka menn eina atvinnan.

Hvað frumvarp þetta snertir, skal eg geta þess, að það er sniðið eftir sams konar lögum öðrum, aðallega eftir lögunum frá 10. Nóv. 1905 um viðauka við lög 14. Des. 1877, um ýmisleg atriði er snerta fiskiveiðar á opnum skipum.

Að lokum vil eg leggja til að málinu sé vísað til 5 manna nefndar að lokinni fyrstu umræðu.