30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í C-deild Alþingistíðinda. (1243)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Kristinn Daníelsson:

Eg hefi skrifað undir nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara, og vil eg þess vegna, með örfáum orðum, gera grein fyrir, hvernig á því stendur. Fyrirvari minn stafar af því, að eg er í aðalatriðunum samþykkur háttv. minni hluta. Eg er á því, að allar þjóðjarða- og kirkjujarðasölur séu yfir höfuð óheppilegar og í mörgum tilfellum varhugaverðar. Og maður veit sjaldnast, hvenær varhugaverðu tilfellin liggja fyrir. Eg gat verið meiri hlutanum samdóma, eftir fram kunnum upplýsingum, að hér mundi ekki um neitt sérstaklega varhugavert tilfelli að ræða, og þess vegna fann eg ekki ástæðu til að kljúfa mig úr nefndinni, en kaus heldur að láta málið afskiftalaust. En eins og skoðun minni er háttað, get eg ekki skrifað fyrirvaralaust undir neitt nefndarálit, sem felst á sölu þjóðjarða og kirkjujarða. Eg þekki of mörg dæmi til þess, að slík sala hefir verið óheppileg.

Eg ætla að eins að minnast á það, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði, að grasbýli á þessum stað mundi verða til þess, á sínum tíma, að auka tekjur prestsins á Kolfreyjustað. Þetta er ekki rétt. Ef grasbýlið yrði til einhvers hagnaðar fyrir prestssetrið, þá yrði það reiknað upp í tekjur prestsins, eins og aðrar tekjur af heimaeignum. (Jón Ólafsson: Þá léttir það á landssjóðnum!)

Viðvíkjandi því sem háttv. framsögumaður minni hl. (S. S.) Sagði síðast í fyrri ræðu sinni, að presturinn gæti fengið þessa landspildu á erfðafestu, þá vil eg benda á, að það er ekki heimilt að leggja þannig til lengri tíma en til 50 ára. Og það er engin erfðafesta.