30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í C-deild Alþingistíðinda. (1245)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Eggert Pálsson:

Mér skilst, að mótspyrna háttv. minni hluta á móti þessu litla frumvarpi stafi af því, að hann sé yfir höfuð á móti þeirri stefnu að selja þjóðjarðir og kirkjujarðir, en ekki af því að hann telji það skaðsvon fyrir landsjóðinn, þó að þessi litla spilda, sem hér um að ræða, sé seld. En það finst mér vera aðalatriðið, hvort það yrði skaði fyrir landssjóð eða ekki að selja þessa landspildu. Því að úr því að lög eru til um að selja megi opinberar eignir, þá er engin ástæða til að hefta söluna á þessu stykki, ef landssjóður bíður ekkert tjón við hana. En hvað það snertir, hvort landssjóður mundi hafa skaða af sölunni eða ekki, þá gefur að skilja að eg get ekki dæmt um það af eiginni þekkingu. Og þó að eg hafi skrifað undir nefndarálit meiri hlutana, og þar með lagt til að salan yrði heimiluð, þá þekki eg ekki svo mikið til þar austur frá, að eg viti, hvers virði spildan kann að vera í raun og veru. En mér hefir einnig heyrst á ræðum háttv. framsögum. minn hlutans (S.S.) að hann hafi ekki heldur persónulega þekkingu á því, hvernig þar hagar til. En eg, fyrir mitt leyti, varð að taka gildar framkomnar upplýsingar sem skýra frá því að spildan sé ekki mikils virði fyrir prestssetrið.

Háttv. framsögum. minni hlutans (S. S.) mintist á dæmi, um óheppilega sölu á jarðarparti þar eystra, og mér skildist að hann vildi út frá því forðast ný viti. En ef það hefir verið óheppileg sala, sem eg skal engan dóm á leggja, þá hefir þar verið um arðvænlegri spildu að ræða en hér á sér stað eftir þeim upplýsingum að dæma, sem fram eru komnar. Þessi spilda getur ekki talist arðvænleg, því að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er hún ekki stór — einar 25 dagsláttur. Og þó að hún yrði ræktuð upp, þá mundi hún ekki gefa meira af sér en tveggja kúa fóður, þar að sjálfsögðu yrði að ætla nokkuð af þessum 25 dagsláttum til beitar. En úr því að spildan er nú lítils eða einskis virði, en getur þó gefið þetta af sér með ræktun, þá er það vinningur en ekki tap fyrir landið að selja hana. Því að eg lít svo á, að það sé ávalt vinningur fyrir landið hvað litið sem aukið er á ræktun þess. Þess vegna verð eg að álita að fremur eigi að heimila söl una, en að neita um hana. Hvað það snertir að það sé skaði fyrir siðari ábúendur á Kolfreyjustað að missa þessa spildu, þá hefir háttv. þm. S.-Múl. (J. Ól.), sem þar er manna kunnugastur, upplýst að um það geti ekki verið að ræða eins og spildan er nú. Hins vegar get eg hugsað mér að það yrði þeim til gróða í einu tilfelli fram yfir það sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) benti á. Ef t. d, ábúandinn á Kolfreyjustað vildi girða land sitt — og eg veit að háttv. framsögum. minni hlutana mundi sízt hafa á móti því — þá tæki þetta stykki, sem, eftir því sem upplýst er, er í útjaðri landareignarinnar talsvert úr girðingunni, og sparaði þannig ábúanda Kolfreyjustaðar nokkuð af girðingarkostnaðinum. Þó að presturinn, sem nú er, sækist eftir kaupum á þessu stykki, þá finst mér það ekki þurfa að benda á að það sé svo sérlega mikils virði. Eg get hugsað mér aðra engu ósennilegri ástæðu. Mér þykir ekki ólíklegt, að þar sem hann hefir dvalið þarna lengi, þá þykir honum leitt að þurfa að hröklast þaðan burtu á gamals aldri, og kjósi helzt að bera þar beinin og sú sé orsökin til þess að hann hefir falast eftir þessum litla bletti til þess að geta bygt þar skýli yfir höfuð sér þá er hann lætur af prestsskap.

Af þeim ástæðum sem eg hefi nú greint, hefi eg lagt það til að landspildan verði seld, og get eg ekki álitið að það sé á nokkurn hátt varhugavert með tilliti til hags landasjóðs að verða við inni framkomnu ósk í þessu efni.