30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í C-deild Alþingistíðinda. (1246)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er að eins lítil athugasemd út af tillögu háttv. framsögum. minni hlutans (S.S.) um að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Eg skal geta þess, að eftir umboði prestsins, þá leitaði eg þess hjá háttv. ráðherra, hvort hann gæti selt þessa spildu. Hann tjáði mér að hann gæti því að eins selt slíkar landspildur, að viðkomandi jörð hætti að vera prestssetur þegar presturinn sem á henni sæti færi þaðan burtu. En þegar svo stæði á eins og hér, þá væri það Alþingi eitt sem gæti heimilað söluna. Þetta varð til þess að eg flutti málið inn á þingið í frumvarpsformi.

Það sem háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) talaði um girðingar-sparnað, er af ókunnugleika sprottið. Staðurinn á land alt umhverfis spilduna. Eg get þessa af því, að eg vil ekki telja það kost, sem ekki er kostur. En annars er eg þakklátur háttv. þm. fyrir góðar og viturlegar undirtektir hans.