30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í C-deild Alþingistíðinda. (1252)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg vona. að þessir tómu bekkir fyrirgefi mér, þótt eg svari nokkrum orðum ræðu háttv. þm. Dal. (B.J.), sem var all-löng og tæmdi þingsalinn.

Hann fann ættarnöfnum það til foráttu, að börn gætu ekki losnað við þau, þótt þau væru föðurbetrungar. Hann hefir þó sjálfsagt lesið frumvarpið svo vel, að hann hefði átt að geta séð, að þeim er auðgert að fá nafni sínu breytt. Og ef hann hyggur að menn séu svo fáfróðir, að þeir viti ekki, hvernig þeir eiga að fara að slíku, þá er því til að svara, að þeir geta fengið sér leiðbeiningar.

Þá hélt hann því fram, að inn fegri hluti mannkynsins yrði hart úti eftir þessum lögum. En þær eru alveg sjálfráðar, og ekki hefi eg hingað til orðið var við það, að konur hafi orðið af giftingu fyrir nafns sakir.

Að forfeður vorir hafi í þessu efni staðið hærra en vér niðjar þeirra, það þykir mér nokkuð vafasamt. Þeir höfðu kenningarnöfn. sem oft gengu í arf í 2 –3 liðu og kenningarnöfnin eru vísir til ættarnafna. Háttv. þm. Dal. hefir sjálfur kenningarnafn »frá Vogi«. Frá kenningarnöfnum til ættarnafna er breytiþróun og annað ekki. Háttv. þm. kallaði það kynvillu á kvenfólki, ef það héti ættarnöfnum, sem enda á »son«. Eg sé ekki að þetta sé hættulegra hjá oss en öðrum þjóðum, því að hitt nafnið segir til um kynferðið.

Höfuðástæða hv. þm. var sú, að með ættarnöfnum væri tungu vorri og þjóðerni spilt. En það er reynsla fyrir því, að eiginarnöfn hafa litil eða alls engin áhrif í því efni. Bæjanöfn voru t. d. orðin afböguð frá réttri hneigingu í Noregi löngu áður en þetta land bygðist, sbr. t.d. Gerðar, Nesjar o.s.frv., og fluttust þar afborganir hingað og haldast hér enn á bæjanöfnunum. En ekki hefir þetta haft nein áttrif á byggingar sömu orða (gerði, nes), þá er þau eru sameigin nafnorð. Háttv. þm. kannast við fleira þessu líkt úr Rygh og fleiri bókum. Yfirleitt má segja, að eiginnöfn séu fremur laus við málið og lög þess. Hann sagði og, að samgönguleysið hefði varðveitt tungu vora og þjóðerni meðan vér vorum í sem mestum vesaldómi. Það kann að vera nokkuð til í því, en nú er þjóðernið svo vaknað við, að það þolir samgöngurnar, og eg er ekki hræddur við þær. Háttv. þm. vill líka eflaust hafa góðar samgöngur, enda þurfum vér sízt lengur á samgönguleysi að halda til að varðveita mál og þjóðerni.

Orðið »fornafn« er okkur, meiri hl. nefndarinnar, óviðkomandi. Það er hingað komið frá háttv. Ed og við höfum lagt til að það verði felt niður. Við notum orðið skírnarnafn.

Þá kem eg að síðustu breyt.till. Við höfum lagt það til, að sú gr. frumvarpsins sé látin falla niður, en því eru þeir báðir mótfallnir, háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.). Mér hefir verið kent um að hafa innleitt þann sið, að rita föðurnafn manns á undan skínarnafni í opinberum skrám, en eg hefi hvergi gert þetta, nema í bókaskrám, af því að þar gera það allar þjóðir, líka Grikkir og Rússar, sem annars hafa skírnarnafnið fyrst. Í bókaskrám á þessi regla heima, af því að þar agar saman nöfnum af öllum þjóðernum í einni stafrófaröð, svo öllu verður að raða á sama hátt, og annað hefi eg aldrei sagt né gert að þessu. Og það er ekki mér að kenna, þótt t. d. gjaldkeri finni upp á því að semja niðurjöfnunarskrá á þennan hátt, og sama er að segja um talsímaskrána, og má gjarnan hætta við slíkt, ef menn eru óánægðir með það. En slíkt forboð á ekki heima í lögum. Lög eiga að vera til þess eins gerð að menn geti ekki að ósekju vilt heimildir á sér. Þess vegna vill meiri hl. fella í burtu alt annað, sem Ed. hefir sett inn í frumvarpið og réttum tilgangi þess er óviðkomandi. Það væri líka hart, að skipa landabókasafninu að fara að verja þúsundum króna til þess að breyta bókaskrám sínum, því að þær yrði að rita upp alveg á ný, ef þetta ákvæði yrði að lögum. Og ef ætti að fara að lögbjóða þetta, þá ætti eiginlega helzt að fara eins með nöfn allra útlendinga í skránum. Háttv. þm. Dal. segir, hvort sem er, að Íslendingar kunni ekki að leita að mönnum þar, nema eftir skírnarnöfnum!

Orðið »nafnfesti« sé eg ekki að unt sé að nota um leyfisbréf handa þeim, sem sækja um nafnbreytingu, og hefi eg áður gert grein fyrir því.

Eg finn nú annars eigi ástæðu til þess að orðlengja þetta frekara. Það er, hvort sem er, ekki mikið meira en helmingur deildarmanna inni, og þeir fáu, sem hér eru, verða því víst fegnir, að umr. dragist ekki fram á nótt.