30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í C-deild Alþingistíðinda. (1260)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Einar Jónsson:

Satt að segja sýnist mér þetta mál horfa þannig við að það þýði ekki að ræða það lengi. Það skynsamlegasta, sem fram hefir komið í málinu, er in rökstudda dagskrá frá hv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og í rauninni það eina frambærilega. Mér skilst að háttv. þingmenn ætli hér að fara að verða nokkuð vísindalegir og víðförlir og gefa sig að fleiru en frumv. því um mannanöfn, sem hér liggur fyrir. Þeir sveima suður um Grikkland, og þaðan til Rússlands, en til Rússlands langar mig sízt til að fylgja þeim og sný mér því að öðru.

Ágreiningsálit háttv. þm. Dal. (B. J.) er eitt af allra einkennilegustu nefndar álitum; sem eg hefi séð. Það er í raun og veru lítið annað en útdráttur — og hann orðréttur á sumum stöðum — úr Eddu Snorra Sturlusonar, sem Finnur Jónsson bjó til prentunar 1907. Sé eg ekki að það skýri málið frekar heldur en ef þingmönnum hefði verið bent á að lesa bókina, einkum 15. og 16. kap. En hér hefir að líkindum vakað fyrir þingmanninum, að það nefndarálit hlyti að álitast merkilegt og þungskilið, sem í sér hefði fólgin svo einkennileg orð sem Yggdrasill, Urðarbrunnur, Mímisbrunnur, Niflheimur, Niðhöggur og þá ekki síst ratatöskur, sem að vísu er skakt. Ratatoskur þýðir íkorni og er þannig rétt. Brtill. þessa háttv. þm. mun eg fylgja að nokkru en ekki að öllu leyti, og ekki endurtaka það, sem sagt hefir verið um þær. Er þgskj, 593 að því leyti ekki með öllu óþarft, að sumar brtill. eru frumv. til bóta, en nefndarálitið sjálft væri jafngildandi þó ekki stæði þar nema 4. málsgreinin að eins: »Nú ber vel í veiði« o.s.frv. Annars er álitið fremur skemtilegt, en það hefir þann galla að vera óþarft.

Að endingu skal eg taka það fram, að eg mun greiða atkv. með inni rökstuttu dagakrá frá háttv. þingm. N.-Ísf., því að eg álít hana, eins og eg tók fram í upphafi, ið eina nýtilega, sem fram hefir komið í málinu. Skal eg svo ekki tefja umræðurnar meira.