01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í C-deild Alþingistíðinda. (1279)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Sigurðsson:

Eg er samdóma háttv. þm. Sfjk. (V. G.) um það, að litlar líkur séu til þess, að stjórnarskráin fái æskileg úrslit á þessu þingi eftir því sem áhorfist, svo að því leyti gæti komið til tals að vísa málinu til stjórnarinnar til undirbúnings undir næsta þing. Hins vegar þykir mér það ósanngjarnt ef ekki óviðeigandi á þessu stigi málsins, að Nd. gefi ekki Ed. kost á að athuga málið. En ekki fer eg í launkofa með það, að eg álít bezt eins og nú er ástatt að afgreiða málið ekki á þessu þingi.

Eg stend aðallega upp til þess að minnaat með örfáum orðum á breyt.till. meiri hluta nefndarinnar, sérstaklega breyt.till. á þgskj. 604. Meiri hlutinn leggur þar til að fjölga þingmönnum úr 40 upp í 42; eigi þar af 28 sæti í Nd., en 14 í Ed. Af þeim 42 skuli 8 vera kosnir hlutbunduum kosningum.

Eg þykist nú skilja, að þessi br.till. háttv. meiri hluta sé fram komin af því, að hann hefir viljað synda hjá því skerinu að þurfa að leggja niður kjördæmi til þess að það næðist, að 8 yrðu kosnir hlutbundnum kosningum. Eg fyrir mitt leyti álít algerlega óþarft að fjölga þingmönnum. Eg hygg, að höfðatalan sé næsta nóg, eins og er, og tel ólíklegt, að kollarnir verði betri við fjölgunina. Þess er að gæta, að af þessu mundi leiða talsverðan kostnaðarauka fyrir landssjóð, og er þetta einn vottur þeirrar tilhneigingar þingsins til að stofna ný embætti og auka útgjöld landssjóðs:

Út af þessu hefi eg leyft mér að koma fram með brtill. á þgskj. 618, sem miðar að því að færa niður höfuðtöluna og að koma henni í sama horf sem nú er í hvorri deild. Það vakti þó fyrir mér, að 8 þingmenn yrðu kosnir hlutfallskosningum, og vildi eg með því mæta meiri hl. nefndarinnar á miðri leið, þótt við það hljóti að leggjast niður einhver 2 kjördæmi, sem þá líklega helzt ætti að vera Seyðisfjörður og Ísafjörður.

Ástæður mínar fyrir þessari tillögu eru meðal annars, að þegar bætt var við inum 4 nýju kjördæmum síðast, þá var það svo að skilja, að sú fjölgun væri að eina gerð til bráðabirgða og að þess mundi skamt að bíða, að kjördæmaskiftingunni yrði breytt og við það mundu einhver kjördæmi leggjast niður, og þá líklega helzt þessi, sem nú voru nefnd. En ef breyting á kjördæmaskipuninni þarf að kosta það, að fjölga þingmönnum, þá get eg ekki fylgst með lengur. Mér er alls ekkert kappsmál, að hlutfallskosnu þingmennirnir verði 8, og sætti mig fullkomlega við þó þeir ekki verði fleiri en nú er í frumv., sem sé 6. Eg veit ekki gerla, hvernig atkvæði munu falla, en eg hefi þózt hlera það, að breyt.till. meiri hl. hafi ekki svo mikið fylgi, að þær nái fram að ganga. Ef eg væri viss um, að þessar brtill. meiri hl. yrðu feldar, mundi eg með mestu ánægju taka aftur brtill. mínar á þgskj. 618, því að fyrir mér vakir það fyrst og fremst, að koma í veg fyrir að þingmönnum verði fjölgað og hindra með því óþarfan kostnað.

Þá skal eg minnast á brt. á þgskj. 644, sem eg hefi leyft mér að flytja ásamt háttv. þm. A -Sk. (Þ. J.). Eg hefi engan heyrt minnast á þá brtill. nema háttv. framsögum. meiri hlutans: Þó hefir sú tillaga mikið til síns máls. Hún er sú eina tillaga, sem fer í þá átt að ná þeim tilgangi, sem menn aðallega hafa fyrir augum, er menn vilja hafa Ed. hlutfallakosna, sem sé þann, að fá festu og nægilegt íhald með skipun efri deildar. Hún fer nær þessum tilgangi en nokkur önnur. Tillagan fer fram á, að Ed. skipi að sjálfsögðu þeir 6, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum, og auk þess 4 þingmenn, sem lengst hafa átt sæti á Alþingi, og loks 4 kosnir af sameinuðu þingi úr hóp þeirra þingm., sem þá eru eftir. Með öðrum orðum, till. fer fram á það, að Ed. sé skipuð hinum reyndustu þingmönnum, þeim sem lengst hafa átt setu og þá venjulega eru gætnari og hafa meiri þingreynslu en nýir þingmenn. Menn hljóta að játa, a,ð það er meining í þessu, og vona eg því, að þeir sem alt af eru að gera tilraunir í þá átt að skapa festu og íhald í Ed., sjái, að þessi brt. er sú heilbrigðasta, af þeim sem komið hafa fram í þessa átt, og greiði atkvæði með henni.

Úr því að eg stóð upp, skal eg leyfa mér að minnast á brtill. á þgskj. 577, sem eg er meðflutningsmaður að, ásamt háttv. þingm. V.-Ísf. og háttv. þingm. Ak. Fyrri till. hefir meiri hl. nefndarinnar tekið upp, og má því taka hana aftur.

Alt öðru máli er að gegna um till., sem háttv. framsögum. taldi tæplega rétt að bera upp. Jafnvel þótt greitt hafi verið atkvæði um svipað ákvæði við 2. umr., þá sé eg ekki, að till. sé á móti þingsköpunum, enda hefir hæstv. forseti ekki, svo að eg hafi heyrt, lagt þann úrskurð á. Ástæðan fyrir þessari brtill. er sú. að vér flutningsm. hennar höfum viljað leiða fullkomlega í ljós, hvort menn eru svo þröngsýnir, að þeir endilega vilji að menn, sem ekki eru í þjóðkirkjunni eða nokkurum öðrum söfnuði, skulu skyldaðir til að greiða til stofnunar, sem ekkert á skylt við þeirra trúarskoðanir, jafnmikið og þeim ella bæri að borga til þjóðkirkjunnar, ef þeir væru í henni. Heilbrigð skynsemi segir manni það, að þeir sem eru utan þjóðkirkjunnar, eiga að vera gjaldfrjálsir, bæði til hennar og allra annara stofnana, að öðru en því, sem þeir sjálfir vilja á sig leggja. Að halda því fram, að menn kunni að segja sig úr þjóðkirkjunni, ef þeir eru leystir undan gjaldi til hennar, nær ekki nokkurri átt. Þá væri, eins og háttv. þm. Dal. tók fram, þjóðkirkjan á alt of veikum fótum.: Það hefir líka sýnt sig, að flestir, sem úr þjóðkirkjunni hafa gengið, hafa strax myndað nýja söfnuði, fengið sér prest og greitt jafnvel hærri gjöld til einnar guðsdýrkunnar, en þeir gerðu áður til þjóðkirkjunnar. Þetta sýnir, að það er ekki gjaldið, sem ræður, og um allan fjölda þeirra manna, sem ekki eru í þjóðkirkjunni, sýnir reynslan, að þeir eru í einhverjum öðrum söfnuði og greiða þar sín gjöld til presta og kirkju. En þótt nú einhver sé nú svo gerður, að hann geti ekki verið í neinum söfnuði, hví á hann þá að skyldast til að greiða til einhverrar stofnunar vegna trúar einnar eða trúarleysis. Það er algerlega ósamboðið þingfrjálsri þjóð, að leiða í lög annað eins ákvæði og síðari lið 19. gr. frumv.,— og það þjóð, sem hefir trúarbragðafrelsi. Slíkt er að brjóta alt trúarbragðafrelsi á bak aftur. Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þessa till.; eg býst við, að aðalflutningsmaður mæli fyrir henni.