01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í C-deild Alþingistíðinda. (1280)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Matthías Ólafsson:

Það er rétt hjá háttv. 1. Árn. (S. S.), að málið er tæplega svo undirbúið, að hægt sé að leiða það til fullra lykta á svo skjótum tíma. En háværar kröfur heyrast nú frá þjóðinni og hafa lengi heyrzt um stjórnarskrárbreyting. Eg er því á því, að nauðsyn sé að fá stjórnarskrármálið fram á þessu þingi, ekki af því að eg álíti svo mikla nauðsyn á að afnema þá konungkjörnu; það hefir sýnt sig nú og á undanförnum þingum, að þeir fylgja ekkert fremur stjórninni en öðrum að málum. Það er tvent, sem kemur mér til að óska stjórnarskrárbreytingar nú: Fyrst og fremst kröfur þjóðarinnar, og í annan stað mundu nýja kosningur leiða þingið og stjórnina út úr þeim vanda og ógöngum, sem nú er um að ræða.

Að svo mæltu sný eg mér að brtill: á þgskj. 577, frá mér og 2 öðrum háttv. þm. Fyrri brt. hefir meiri hl. nefndarinnar tekið upp í sínar tillögur, og get eg því tekið hana aftur.

2. brt. á sama þgskj. miðar að því, að bæta úr sama ranglæti, sem komst inn í 19. gr. frumv. að leggja gjald á menn, sem í engum söfnuði eru, gjald, sem nemi því, er þeir ella ættu að gjalda til þjóðkirkjunnar. Á eg hér við viðbótina aftan við 47. gr. núgildandi stjórnarskrár. Það er að láta mann borga gjöld, sem hann er alls ekki skyldur til. Þetta er inn mesti ósómi: Að óttast það, að menn fari að segja sig úr þjóðkirkjunni, ef þeir verða gjaldfrjálsir, er ekki á rökum bygt. Reynslan hefir sýnt það, að af þeim, sem segja sig úr þjóðkirkjunni; eru þeir sárfáir; sem ekki ganga aftur í fríkirkjusöfnuðina, eina og háttv. 1. þm. Árn. tók skýrt fram.

Þá vildi eg víkja lítillega að brtill. háttv. þm. Sfjk. (V. G.). Hann vill láta fella í burtu síðari málsgrein 22. gr. Raunar er eg honum að mestu leyti samdóma um það atriði, en eg hefði þó heldur kosið, að hann hefði borið fram tillögu í þá átt, er hann sjálfur tók fram að væri heppilegast, sem sé, að þjóðfundur kæmi í stað alþýðuatkvæðisins. Alþýðuatkvæðið getur aldrei sagt annað en annaðhvort já eða nei við því máli, sem undir það er borið, og það er alveg undir kasti komið, hvort nokkuð er á því að byggja eða ekki. Það væri alt annað, ef beztu menn væru kosnir á þjóðfund með það eitt fyrir augum, að ráða fram úr einhverju sérstöku vandamál. Slíkur fundur gæti gefið skynsamlegar bendingar um málið og rökstutt úrskurð sinn. Það gerir hitt ekki og getur þess vegna ekki blessast. Þjóðfundurinn yrði að vísu dýrari, en sá koatnaður mundi borga sig.

Svo að eg snúi mér aftur að síðari breyt.till. á þgskj. 577, þá vil eg ekki segja, að ef hún gengi ekki í gegn, þá yrði það til þess að eg greiddi atkvæði á móti. stjórnarskráfrumv. í heild sinni. En það verð eg að segja, að mér þætti ilt til þess að vita, að frumv. fari með jafnsvartan blett út úr deildinni. Eg bjóst satt að segja við því, að háttv. nefnd mundi fella þetta atriði burtu til þess að það yrði ekki frumv. að falli. Eg hygg að hún eigi fáa skoðanabræður í því máli.