01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í C-deild Alþingistíðinda. (1284)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Thoroddsen:

Áður en þetta mál fer héðan úr deildinni, langar mig til þess að segja nokkur orð, þar sem málið fer héðan alls ekki í því horfi, sem eg myndi. kosið hafa.

Menn gleyma því alment of oft — og svo er þá eigi síður um þingmenn en aðra — að eigi er oss það heimilt, að fara einatt að vilja vorum, eða láta hann ráða, þ.e. gleyma því, að oss er það því að eins heimilt, að hann sé þá á fullu samræmi við það sem hver af oss veit æ og finnur — eða ber í sér — að eitt er ið alóyggjandi sanna og rétta.

Með öðrum orðum: Hver af oss verður æ að beygja svo vilja sinn, að hann geri það eitt, sem hann veit rétt vera geri það eitt, hversu mjög sem hann til þess kann að langa að gera eitthvað annað.

Þó að mig t.d. — hvað eigi er — langaði til þess að slá einhvern ykkar eða að skrökva að honum eða að blekkja hann á einhvern hátt, þá má eg þó ekki fara að þeim vilja mínum.

Á sama hátt er því þá og varið, að því er til vor þingmannanna kemur, er upp lagasetninguna ræðir.

En því fer fjarri, er á stjórnarakrárfrumvarpið er litið, að það beri það með sér, að meiri hluta háttv. þingmanna þessarar deildar hafi verið það eitt ríkt í huga, að gera eigi annað en hver þeirra fann og vissi rétt vera.

Þeir hafa látið viljann eða þá löngunina (sem fellur hér saman) ráða — látið hann leiða sig til þess að gera eða samþykkja eigi fátt, þess er þeir þó fundu og vissu að eigi var rétt; sbr. t.d. það, er þeir hafa samþykt þau ákvæði, að af »nýju kjósendunum« (konum. vinnuhjúum o.fl.), skyldu þó þeir einir fá kosningar- og kjörgengisréttinn þegar, er 40 ára eru orðnir.

Og þetta — þ. e. að fyrst fá þeir einir réttinn, sem fertugir eru, þá næst þeir sem 39 ára eru o.s.frv. — lætur deildin sér sæma að samþykkja, þó að hún hafi þó í öðru orðinu viðurkent rétt mannanna, karla og kvenna — viðurkent, að þeim hafi öllum til þessa verið gert rangt, og eigi því að fá kosningar og kjörgengisréttinn strax, en eigi á nokkurra ára bili, eins og frumvarpið nánara ber með sér.

Af sömu ástæðum get eg þá og ekki heldur felt mig við skipun efri deildar. Eg er að vísu eigi mótfallinn því, að 6 þingmenn efri deildar séu kosnir hlutfallskosningu í einu lagi um land alt, en hitt tel eg eigi rétt, að binda kosningarrétt eða kjörgengi til hennar því skilyrði, að hann fái að eins þeir sem orðnir eru 35 ára eða eldri.

Það sem fyrir mönnum vakir, að því er til skipunar efri deildar kemur, það er það, að menn vilja skápa þar eins konar áhaldsafi gegn neðri deild, og ýmsum þykir sem í frumvarpinu sé að mun of skamt farið í íhaldsáttina.

En hvaða rétt á þá íhaldið á sér í pólitík?

Hver maður er svo gerður, að hann getur eigi annað en kent leiða eða kvalar, er honum mætir eitthvað það sem ilt er eða ljótt, í garð sjálfs hans eða annara.

Leiðinn, sáraukinn, kvölin eða óánægjan — eða hvað sem menn nú kalla það — sem honum þannig vaknar, á þá að vera honum — og getur eigi annað en verið honum — hvöt til þess að hrinda því brott, eða fá því kipt í annað og betra eða réttara horf, sem leiðanum, kvölinni eða óánægjunni olli.

Með öðrum orðum: Hver af oss er svo gerður eða skapaður, að hann ber það æ í sér, að honum er ætlað að vera umbótavera — þ. e. ætlað að kippa því í rétt horf, sem rangt er, óheppilegt eða ófullkomið, eins og hann og sí og æ að vera sjálfan sig eigi síður »reformerandi« (þ. e. umbætandi — betrandi).

Benda má þá og á það, hver hætta það er einatt, sé eigi batt úr því eða því ástandinu, sem rangt er — hætta oss öllum og þá æ því fremur, er óánægja er vöknuð — og það þótt að eins væri um kvöl eða óánægju eins manns að ræða — þar sem vér allir berum það í oss að vér eigum hvorki að gera það sem rangt er, né heldur láta það við gangast.

Þetta tvent, hið síðastgreinda, verður þá og einatt að marka íhaldinu í pólitík takmörkin.

Allir vitum vér og og finnum, að eigi ber oss að fresta því sem gott er, hvað þá að hindra það, — né þá, að fresta eða hindra, að því sé æ breytt í rétt horf, sem rangt er.

Íhaldsstefnan í pólitík á því að sjálfsögðu alls engan rétt á sér — til frestunar eða hindrunar, — er um það ræðir, að kippa því í rétt horf, sem rangt hefir verið, sbr. t.d. er um það, ræðir, að veita fulltíða kvenfólki kosningarrétt.

Né heldur á hún né má eiga nokkurn slíkan rétt á sér, er um það ræðir, að fá því á komið, er vér allir finnum rétt og skylt vera — sbr. t.d. að rækja þær hjálparskyldur við aðra, sem annað hvort alls eigi hafa verið ræktar, eða þá eigi sint svo vel sem skyldi.

Hér þá og að vísu eigi heldur um annað að ræða en að láta það eigi við gangast, sem rangt hefir verið.

Alt öðru máli er á hinn bóginn að gegna, er einhver vill umturna þeim reglum eða venjum, er engum eru illar — þ.e. engum rangt gert, þótt haldist — því að þar er þá íhaldið í pólitík einatt, eigi að eins réttmætt, heldur og skylt. — Mörgum kynni t.d. að þykja það leitt, ef þingforseti Breta væri eigi á þingfundum svo búinn, sem venja hefir verið, eður ef lagður væri niður einkennisbúningur embættismanna o.fl.

Margur hefir og unað, felt sig við þann eða þann staðinn, en vill eigi missa lækinn sinn, hólinn sinn o.s.frv.

En auk þess er niðurstaðan, að því »nýju kjósendurna« snertir, hefir — eins og eg hefi þó minst tvívegis, ef eigi oftar, bent á — orðið sú, að gera eigi það, er hver háttv. þingmanna finnur og veit sér þó rétt og skylt vera, heldur að samþykkja hitt, sem þeir fundu og vissu að rangt var, og hver þeirra veit og, og vissi, að eigi á að þolast — sbr. þá og að enginn vill láta sínum rétti traðka, né að nokkur þoli að gert sé auk þessa, þá er það og eigi rétt, er hægt er frá kosningar- og kjörgengisréttinum mönnum, gjaldþrota eru, sem og þeim, er í sveitarskuld eru eða eigi hafa óflekkað mannorð, sem kallað er.

Menn þessir bera þó eigi síður en aðrir ábyrgð á því, sem fram fer í þjóðfélaginu, þ. e ábyrð á því, að öllum sé gert rétt, en engum rangt, — bera þá ábyrgð, hvað sem öllum lögum um það efni liður.

Margt er það fleira í frumvarpinu, sem eg get ekki felt mig við. Í 19. gr. stendur t.d., að sé maður utan þjóðkirkjunnar, þá skuli hann þó greiða til háskóla Íslands þau gjöld, sem hann ella hefði orðið að borga til þjóðkirkjunnar. En þetta tel eg ekki rétt vera né get felt mig við.

Ef menn eru ekki í neinum söfnuði, finna enga hvöt hjá sér til þess, en telja sig geta séð trúarþörf sinni borgið án þess, þá eiga þeir og að geta verið lausir við öll safnaðarútgjöld, hvert sem þau eru látin renna.

Sama er um 20. gr. Eg get ekki felt mig við hana eins og hún er, þar sem eg tel réttinn til þess að setja menn í gæzluvarðhald alt of rúman. Takmörkin ættu í þessu efni að vera — og verða æ að vera — sem þrengst, þ. e. gæzluvarðhaldið því að eins að vera heimilt, að viðkomandi maður sé þjóðfélaginu hættulegur.

Eins og eg hefi bent á við fyrri umr. málsins, get eg og eigi heldur felt mig mig við það ákvæði, að tölu ráðherra megi breyta með lögum, þ. e. tel þar of skamt farið, í stað þess að fjölga ráðherrum nú þegar, eða veita konungi þó vald til þess, án þess lög þurfi að setja.

Enn fremur hefir slæðst inn í 7. gr. ákvæði, sem gæti orðið óheppilegt og hættulegt, þ.e. að tölu alþingismanna megi breyta með lögum. Það hefir vakað fyrir mönnum, að landsmönnum myndi fjölga, og gæti þá og þurft að fjölga þingmönnum. En — eins og ákvæðið er —, þá má nú og engu síður fækka þeim með einföldum lögum; þeir gætu t.d. orðið ekki fleiri en fl. Fyndist mér því betra, að skjóta inn ákvæði um það, að þingmenn megi þó aldrei vera færri en þeir eru nú, þ.e. fjörutíu.

Vil eg svo ekki fara fleiri orðum um mál þetta, þótti að eins rétt að drepa á helztu atriðin, sem eg er mótfallinn. Verði sú niðurstaðan, að það sofni í. efri deild, skiftir að vísu litlu, hvernig það fer hér í deildinni. En eigi málið fram að ganga, væri öllum heppilegast, að þessar bendingar mínar væru teknar til greina.